Erlent

Margir ráðamenn við útför Arafats

Listinn yfir þá þjóðarleiðtoga og ráðamenn sem áætlað er að verði við útför Jassers Arafats á morgun er langur. Sextíu nöfn eru á honum eins og hann lítur út núna en enginn Íslendingur er þar á meðal. Danir, Svíar, Norðmenn og Finnar eiga hins vegar allir sinn fulltrúa, utanríkisráðherrar þjóðanna í öllum tilvikum nema að fyrir Svía mætir Göran Persson forsætisráðherra. Fulltrúi Bandaríkjamanna við útförina er aðstoðarutanríkisráðherrann William Burns og fyrir Breta mætir Jack Straw utanríkisráðherra. Af öðrum ráðmönnum má nefna Joschka Fischer, utanríkisráðherra Þjóðverja, Michel Barnier, utanríkisráðherra Frakka, fulltrúar Rússa eru tveir - forseti þingsins og aðstoðarutanríkisráðherrann og fyrir Írak mætir varaforsetinn Rowsch Shways. Eins og vænta mátti eiga Ísraelsmenn ekki fulltrúa við útförina sem fram fer í Egyptalandi á morgun. Arafat verður svo jarðsettur í Ramallah á Vesturbakkanum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×