Erlent

Árásir á landnemabyggðirnar

Andlát Arafats virðist hafa hleypt nýju blóði í herskáa Palestínumenn sem gerðu í morgun árás á landnemabyggðir gyðinga. Ríkisstjórn Ísraels hefur lokað bæði Vesturbakkanum og Gasa til að reyna að koma í veg fyrir uppþot og óeirðir. Uppreisnarmenn úr Islamic Jihad brugðust við fregnum um fráfall Arafats í morgun með því að gera sprengjuárás í suðurhluta Gasa. Þeir lýstu því yfir að árásin væri varnarárás til að stöðva Ísraelsstjórn og boðuðu hertar aðgerðir nú í framhaldi. Ljóst er að forysta Palestínumanna er í upplausn eftir andlát Arafats því enginn klár arftaki hans bíður þess að stíga fram á sjónarsviðið. Það sem menn óttast helst er einmitt að nú rofni hið sérstaka samband sem Arafat hafði við herskáa Palestínumenn. Hann hafði ekki völd yfir þeim en ákveðin áhrif sem enginn af þeim, sem talað er um sem arftaka hans, hefur. Því er mjög óttast að ofbeldið geti nú farið úr böndunum. Embættum Arafats verður fyrst um sinn skipt upp á milli nokkurra manna til að reyna að koma í veg fyrir deilur um völd og áhrif. Frelsissamtök Palestínumanna hafa samhljóða kosið Mahmoud Abbas sem leiðtoga sinn. Rawhi Fattuh, forseti þingsins, verður forseti palestínskra yfirvalda þar til kosningar verða haldnar og forsætisráðherra Palestínumanna, Ahmed Qurei, mun taka að sér önnur störf sem Arafat fór með. Þá hefur verið ákveðið að Farouk Kaddoumi taki við leiðtogahlutverkinu í Fatah-hreyfingunni.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×