Erlent

Arafat kominn til Parísar

Jasser Arafat, leiðtogi Palestínumanna, lenti nú fyrir stundu á herflugvelli í Frakklandi þar sem hann mun gangast undir læknismeðferð. Arafat, sem er sjötíu og fimm ára gamall, verður lagður inn á hersjúkrahús í útjaðri Parísar og öryggisgæsla þar hefur verið hert gríðarlega. Meðal annars hafa lögreglumenn tekið sér stöðu á þaki sjúkrahússins. Arafat hefur verið mikið veikur að undanförnu og líkur eru leiddar að því að hann sé með einhvers konar blóðsjúkdóm eða jafnvel hvítblæði. Hann hefur setið í eins konar stofufangelsi á skrifstofum sínum á Ramallah á Vesturbakka Jórdanar í hálft þriðja ár. Ísraelsstjórn hefur ítrekað hótað því að reka hann úr landi og látið að því liggja að ef hann yfirgæfi Ramallah þá fengi hann ekki að snúa aftur. Nú bregður hins vegar svo við að stjórnvöld í Ísrael hafa heitið því að hann fái að snúa aftur að lokinni læknismeðferð.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×