Erlent

Mikill titringur í Noregi

Komið er í ljós að norsk stjórnvöld, sem sögðust á sínum tíma vera andvíg innrásinni í Írak, lánuðu Bandaríkjaher leysiljósabúnað til að velja skotmörk og sendu þau til Kúveits aðeins nokkrum dögum fyrir innrásina. Mikill titringur er í Noregi vegna málsins. Málið þykir hið vandræðalegasta fyrir Kjell Magne Bondevik forsætisráðherra og ríkisstjórn hans. Jan Petersen utanríkisráðherra reynir að bera í bætifláka fyrir ríkisstjórnina og segir að það hafi verið fullkomlega eðlilegt að lána bandalagsþjóð búnaðinn og að norsk stjórnvöld hafi ekki haft hugmynd um til hvers hefði átt á nota hann. Stjórnarandstaðan gefur ekkert fyrir þær fullyrðingar og krefur Bondevik skýringa, enda bendi allt til þess að búnaðurinn hafi verið notaður í Írak. Mikill titringur er í Noregi vegna málsins, ekki síst þar sem norska stjórnin lýsti á sínum tíma yfir andstöðu við hernaðinn í Írak. Í frétt norska ríkissjónvarpsins, NRK, í gær, var haft eftir heimildum innan norska varnarmálaráðuneytisins að sérstakur leysiljósabúnaður, alls 25 tæki sem notuð eru til þess að velja skotmörk, hefði verið sendur frá Gardermoen-flugvelli til bandarískrar herstöðvar í Kúveit, tíu dögum fyrir innrásina í Írak, og að norska ríkisstjórnin hefði lagt blessun sína yfir það. Kom fram að hermenn í Kúveit hefðu æft sig sérstaklega með tækin þar til daginn áður en ráðist var inn í Írak þann 20. mars í fyrra. Heimildir norska ríkissjónvarpsins segja engan vafa leika á því að leysitækin hafi verið notuð í Írak því þegar búnaðinum hafi verið skilað til norska varnarmálaráðuneytisins í sumar hafi hann verið talvert skemmdur. Kristin Halvorsen, leiðtogi Sósíalíska vinstriflokksins, gagnrýnir stjórnvöld harðlega fyrir að hafa ekki upplýst Stórþingið um málið á sínum tíma og segir ekkert samhengi á milli utanríkis- og varnarmála, þegar komi að því að lána vopn í stríð sem brjóti í bága við alþjóðalög og stjórnvöld séu á móti.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×