Erlent

Fékk aðeins 95 prósent atkvæða

Zine El Abidine Ben Ali, forseti Túnis, var endurkjörinn sem forseti með 95 prósentum greiddra atkvæða að sögn embættismanna. Þetta er heldur lakari niðurstaða fyrir forsetann en í síðustu kosningum, sem fóru fram 1999, þá hlaut hann 99,4 prósent atkvæða samkvæmt opinberum tölum. Embættismenn gáfu ekki upp hvernig kjörsóknin var í kosningunum. Stjórnarandstæðingar sniðgengu kosningar og sögðu þær ekkert annað en sýndarmennsku. Mannréttindasamtök hafa gagnrýnt stjórnvöld í Túnis harkalega fyrir að neita andstæðingum sínum um kjörgengi, fótum troða lýðréttindi og að stýra fjölmiðlum landsins þannig að þeir gagnrýni stjórnvöld ekki. Ben Ali hefur verið við völd í Túnis frá árinu 1987 þegar hann komst til valda í hallarbyltingu. Síðan þá hefur hann iðulega unnið yfirburðasigra í forsetakosningum. Í hvert skipti hefur verið sagt að kosningarnar séu allt annað en marktækar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×