Erlent

Álögur á bjór verði lækkaðar

Dönsk skattayfirvöld segja meira hagræði í að lækka skatta á áfengi enn frekar í stað þess að lækka áfengisgjald á bjór. Bjórframleiðendur telja það ekki sanngjarnt að sitja ekki við sama borð og vínframleiðendur. Skattaráðherra Danmerkur kynnti í gær nýja skýrslu sem var unnin í kjölfar aðgerða stjórnvalda til að draga úr aukinni landamæraverslun Dana sem meðal annars hafa keypt ódýrara vín og tóbak í Þýskalandi. Reynslan sýnir að lægri gjöld á sterku víni hafa leitt til mikillar söluaukningar í Danmörku. Hins vegar telja skattayfirvöld ekki sjálfgefið að lægri skattar á bjór muni auka söluna innanlands heldur sé betra að fara þá leið að lækka enn frekar áfengisgjald á sterku víni. Ár er liðið frá því að breytingar á lögum um áfengisgjald tóku gildi í Danmörku. Aðalbreytingin var afleiðing brotnáms svokallaðrar sólarhringsreglu um síðustu áramót. Reglan var sú að Danir máttu ekki koma með sterkt vín og ekki meira en hundrað sígarettur ef þeir höfðu verið erlendis í minna en 24 klukkustundir. Kerfisbundið hefur þessi regla verið rýmkuð frá því að vera þriggja daga regla í upphafi árið 1973. Til að stemma stigu við landamæraverslun eftir afnám reglunnar var gjald af sterku víni því lækað um 40%. Það þýddi, sem dæmi, að 70 cl vodkaflaska í Danmörku lækkaði um rúmar 500 íslenskar krónur. Danir voru að spara sér um þúsund krónur á flöskunni áður með því að kaupa hana í Þýskalandi en spara nú ekki nema 300 krónur. Breytingarnar eru reyndar mjög jákvæðar fyrir Svía og Norðmenn sem spara enn meira en áður með því að versla í Danmörku. Þannig sparar Svíinn sér þúsund kall og Norðmaðurinn um 1700 íslenskar krónur á vodkaflöskunni. Danskir bjórframleiðendur segja það ekki sanngjarnt ef álögur á bjór verði ekki lækkaðar líkt og á sterku víni til að jafna samkeppnisstöðu þeirra við vínframleiðendur. Í viðtali við danska ríkisútvarpið segir talsmaður þeirra það þröngsýni af yfirvöldum að taka einungis tillit til ríkiskassans. Vilji ríkið fækka enn frekar verslunarferðum Dana til Þýskalands verði að lækka bjórinn næst - hann sé aðaldráttaraflið.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×