Erlent

Setur Nader strik í reikninginn

Neytendafrömuðurinn og sjálfstæði forsetaframbjóðandinn Ralph Nader gæti eyðilagt vonir Johns Kerry um að komast í Hvíta húsið. Ef kosningaúrslit verða í átt við niðurstöður skoðanakannana má búast við spennandi kosninganótt og þá skiptir allt máli. 2. nóvember, eftir minna en þrjár vikur, ganga bandarískir kjósendur að kjörborðinu og velja sér forseta. Verstu martraðir demókrata eru að verða að veruleika, Ralph Nader er búinn að tryggja nafnið sitt á kjörseðla meira en þrjátíu ríkja. Skoðanakannananir sýna að það er afar mjótt á mununum og því eru sérfræðingar farnir að rýna í öll smáatriði. Í níu ríkjum er útlit fyrir að Nader dragi fylgi frá Kerry, í Colorado, Flórída, Iowa, Maine, Minnesota, Nevada, New Hampshire, New Mexico og Wisconsin. Þetta getur skipt verulegu máli því eins og flestir þekkja þá snúast bandarísku forsetakosningarnar í raun um sigur í hverju ríki fyrir sig. Sigur í ríki tryggir frambjóðenda alla kjörmenn en þeir eru mismargir eftir fjölda kjósenda. 270 kjörmenn tryggja sigur og valdamesta embætti heims. Í Colorado munu menn hins vegar samhliða forsetakosningunum kjósa um breytingartillögu á kosningakerfinu sem ef samþykkt myndi taka gildi strax. Tillagan gengur út á að frambjóðendur fái sama hlutfall kjörmanna og atkvæði. Það gæti breytt miklu en til að mynda hefði Al Gore verið forseti síðustu fjögur árin hefðu Coloradobúar samþykkt þessar breytingar árið 2000.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×