Erlent

15 handteknir í Egyptalandi

Fimmtán hafa verið handteknir vegna hryðjuverkaárásanna í Egyptalandi í síðustu viku, þar sem á fjórða tug manna lést. Karlmaður hefur játað að hafa selt sprengiefni rétt fyrir árásirnar. Að minnsta kosti 34 létust í árásinni og á annað hundrað særðust í árásum á ferðamannastaði á Sínaí skaga í Egyptalandi, flestir ísraelskir ferðamenn. Tveir hópar hafa lýst verknaðinum á hendur sér, en fullyrðingar þeirra hafa ekki fengist staðfestar og tilgátur er uppi um að al-Qaeda hafi verið að verki, enda beri árásin ekki merki Palestínskra hryðjuverkamanna. Stjórnendur rannsóknarinnar telja að hryðjuverkamennirnir hafi hugsanlega komist á staðinn með hraðbátum frá Sádi-Arabíu eða Jórdaníu. Lögregla hefur yfirheyrt á sjötta hundrað manns, og handtekið fimmtán. Einn af þeim hefur nú játað að hafa selt sprengiefni rétt fyrir árásirnar, og er kaupandans nú leitað. Enn er leitað í rústum Taba Hilton hótelsins, sem varð hvað verst úti í árásunum, en útilokað er talið að nokkur finnist á lífi. Vegna árásanna hafnaði Aríel Sharon, forsætisráðherra Ísraels, í morgun ráðleggingum herhöfðingja sinna um að draga herinn frá flóttamannabúðum Palestínumanna á Gazaströndinni. Heimildir Reuters fréttastofunnar segja að Sharon vilji ekki sýna nein veikleikamerki í kjölfar árásanna, og með því blíðka ríkisstjórn sína, en seinna í dag mun hann ávarpa þingið og reyna að draga úr andstöðu við ákvörðun sína um að flytja allar landnemabyggðir gyðinga frá Gazaströndinni.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×