Erlent

Hátt verð á olíu hefur áhrif víða

Aldrei í sögunni hefur olíuverð verið hærra en nú. Það fór yfir fimmtíu dollara á fatið á markaði í New York. Áhrifanna gætir hér á landi. Verðið á olíufatinu á olíumarkaði í New York er nú það hæsta í 21 ár eða frá því viðskipti á þeim markaði hófust. Það náði hámarki í gær og var þá 50 dollarar og 47 sent. Í Lundúnum var verðið fyrir Evrópumarkað lítið eitt lægra, 46 dollarar og 80 sent og hafði hækkað um 57 sent. Alls hefur olíuverð hækkað um 55% á árinu, og áhrifanna gætir víða. Vilhjálmur Wiium, lektor í hagfræði við Háskólann í Reykjavík, segir áhrifin margvísleg, þau hafi áhrif á alla þá sem keyra bíla og nota fiskiskip. Hann segir einnig erfitt að bregðast við hækkunum hratt, því notkun olíu minnki ekki snöggt, þannig að fyrirtækin verði að taka á sig kostnaðarhækkanirnar og erfitt sé fyrir þau að hagræða verulega í rekstri. Villhjálmur segir áhrifin fyrir almenning fyrst og fremst þau að notkun á bílum verði dýrari og allar vörur þar sem þörf er á olíu verða dýrari en áður. Neysluverðsvísitlan hækki síðan og það hafi áhrif á húsnæðislán og fleira. Villhjálmur segir að búist sé við að hið háa verð vari í nokkurn tíma, enda sé sama staðan uppi hjá öllum olíuframleiðendum. Menn sjái því ekki að þetta vari bara í nokkrar vikur og hverfi svo. Hans Eichel, fjármálaráðherra Þýskalands, varaði við því í morgun að hætta væri á því að olíuverðið hefði neikvæð áhrif á efnahagsvöxt á heimsvísu. Loyola de Palacio, sem sér um orkumál í framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, telur hins vegar að veðið muni lækka í kjölfar forsetakosninganna í Bandaríkjunum. Talsmenn OPEC, samtaka olíuframleiðsluríkja, segja olíuframleiðendur standa ráðþrota frammi fyrir þessari þróun og að þeir geti ekkert gert til að slá á verðið. Aukin framleiðsla virðist ekki hafa nein áhrif. Metverðið sem fæst nú fyrir olíufatið er ekki langt frá því sem olíufatið kostaði í olíukreppunni árin 1973 og 4, ef tekið er tillit til verðbólgu og gengisbreytinga. Að sömu forsendum gefnum var verðið hins vegar miklu hærra eftir byltinguna í Íran árið 1979, en framreiknað væri það í kringum áttatíu dollara á fatið.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×