Menning

Upplifði ævintýrið í Aþenu

"Þetta var bara æðislegt frá a til ö," segir Margrét R. Jónasdóttir, förðunarfræðingur hjá Mac, sem upplifði ævintýri lífs síns þegar hún var ráðin til að farða listafólkið sem kom fram á opnunarhátíð Ólympíuleikanna í Aþenu. "Í fyrsta lagi var svo gaman að upplifa hvað allir voru glaðir og jákvæðir, ekki síst Grikkirnir sjálfir, sem höfðu lagt allt í að gera leikana sem glæsilegasta. Og svo var ólýsanlega skemmtilegt að fá að vera þátttakandi í förðuninni og undirbúningnum fyrir opnunarhátíðina." Gríðarlegur hiti var í Aþenu þegar leikarnir voru haldnir og daginn sem opnunarhátíiðin var haldin keyrði um þverbak. "Ég skil núna af hverju fólk í heitum löndum tekur síestur," segir Margrét hlæjandi. "Við æfðum í marga daga fyrir hátíðina og aðaláherslan var á að samræma þannig að allir væru að gera eins. Það var ákveðið þema í gangi og það þurfti að æfa allt oft og mörgum sinnum. Þeir sem sáu um sjónvarpsupptökurnar komu daglega til að biðja um minna silfur, meira gull eða ný litbrigði og það var verið að breyta og bæta fram á síðustu stundu." Margrét segist ekki hafa farðað neina fræga í Grikklandi nema Grikkina sjálfa sem eru frægir í sínu heimalandi en minna annars staðar. "Ég sá ekki um förðun á Björk í Aþenu, en hlotnaðist hins vegar sá heiður að farða hana í síðustu viku fyrir nýjasta myndbandið hennar sem var tekið upp á Mýrdalssandi. Jú, hún er sú frægasta sem ég hef farðað," segir Margrét. "Hún er náttúrlega svo ofboðslega fræg þó okkur finnist hún alltaf vera bara stelpan okkar." Þeir hjá Mac í New York tókust á loft eftir að Margrét farðaði Björk og vildu vita allt um hvaða efni og liti hún notaði. "Þeir bíða spenntir og ég sagði auðvitað Björk að hún gæti fengið förðunarmeistara frá Mac hvar sem hún væri stödd í heiminum," segir Margrét og vonar að Björk muni nýta sér það.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×