Sport

Nýt þess að keppa

KR-ingurinn Hjörtur Már Reynisson er ekki bara afburðasundmaður heldur einnig sleipur stærðfræðingur en hann stundar nám við háskólann í Reykjavík í stærðfræði. Það var gott hljóð í Hirti Má er við hittum hann eftir æfingu."Þetta er ótrúleg upplifun að vera hérna og voða gaman að vera hluti af þessu. Það er ákveðinn stemming hérna og mér líður eins og ég sé aftur orðinn krakki sem er á leið á sitt fyrsta Íslandsmeistaramót. Þetta lofar mjög góðu og laugin er mjög góð. Þetta er alveg frábær aðstaða hérna," sagði Hjörtur en það breytir engu fyrir hann þótt keppt sé í útilaug enda keppir hann í flugsundi og fær því ekki sólina í andlitið. "Það er passlegur hiti í lauginni og mér finnst fínt að vera í henni." Hjörtur hefur æft gríðarlega vel síðustu mánuði og það leynir sér ekki að hann er að nálgast sitt besta form. "Síðustu tvo til þrjá mánuði hef ég æft alveg eins og skepna. Ég æfði mest 12 sinnum í viku. Undirbúningur hefur gengið mjög vel og ekkert alvarlegt komið upp á hjá mér. Ég ætla að synda mjög hratt. Ég stefni á að byrja af fullum krafti og vona að ég haldi það út. Maður verður að taka áhættu og gefa sig allan í þetta," sagði Hjörtur sem mun synda 100 metra flugsund. Hjörtur er mikill keppnismaður og það að keppa á ÓL á ákaflega vel við hann. "Ég nýt þess að keppa mikið og sérstaklega við svona aðstæður. Svona tækifæri gefast ekki oft og því ætla ég að hafa gaman af þessu," sagði Hjörtur Már Reynisson.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×