Erlent

Neyðarástand á Flórída

Neyðarástandi hefur verið lýst yfir á Flórída eftir að fellibylurinn Charley lagði heilu byggðirnar í rúst. Björgunarsveitir leita fólks og annar öflugur stormur er á hraðferð upp að ströndum skagans. Gríðarleg eyðilegging blasir við þar sem fellibylurinn Charley fór um. Heilu byggðirnar eru í rúst og hundruða er saknað. Óvíst er um örlög þess þar sem enginn veit hversu margir flýðu svæðið og hverjir urðu eftir. Vitað er að þrettán fórust en óttast er að sú tala muni hækka. Tjónið nemur hundruðum milljarða króna. Ástandið á Flórída hefur ekki verið verra frá því að fellibylurinn Andrew gekk yfir árið 1992. Neyðarbirgðir og aðstoð standa til boða og Bush forseti kom síðdegis á svæðið til að sýna íbúum og ríkisstjóranum, Jeb Bush, stuðning. Hann lýsti í dag yfir neyðarástandi í ríkinu sem þýður að ríkisstuðningur frá Washington kemur til greina. Stjórnmálaskýrendur hafa í dag bent á að fellibylurinn Andrew hafi reynst Bush eldri erfiður árið 1992 og að tafir á ríkisstuðningi hafi hugsanlega kostað hann dýrmæt atkvæði. Tvær milljónir manna eru án rafmagns og hundruð þúsunda vatnlaus. Skólar verða víða lokaðir um hríð vegna skemmda, símalínur og farsímakerfi eru í lamasessi og margir óttast að bíræfnir glæpamenn brjótist inn í yfirgefin heimili þeirra sem flýðu. Íbúar Flórídaskagans verða einnig að búa sig undir meira óveður því nokkur fjöldi hitabeltisstorma er á sömu leið og Charley fór. Hitabeltisstormurinn Earl stefnir í sömu átt og er talið líklegt að hann muni dýpka og verða fellibylur áður en yfir lýkur. Bandaríska veðurstofan gerir reyndar ráð fyrir því að tólf til fimmtán öflugir hitabeltisstormar muni ríða yfir svæðið á næstu vikum og mánuðum, að sex til átta þeirra breytist í fellibyli og að tveir til fjórir þeirra verði mjög sterkir og öflugir fellibylir á borð við Charley.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×