Erlent

Kveikt í skrifstofum á Gasa

Liðsmenn Fatah-hreyfingar Jassers Arafats, forseta Palestínu, kveiktu í skrifstofum heimastjórnar Palestínumanna á Gasasvæðinu í dag.Mikil reiði er meðal Palestínumanna vegna þeirra breytinga sem Arafat gerði á öryggissveitum heimastjórnarinnar. Stjórnarkreppa er í landinu og neyðarástand ríkir í Gasaborg.  Tvær mótmælagöngur hafa farið fram í Gasaborg síðasta sólarhring. Fólkið hrópaði slagorð gegn Arafat og mótmælti spillingu innan stofnana palestínsku heimastjórnarinnar og jafnframt þeim breytingum sem forsetinn hefur gert á yfirstjórn öryggissveita stjórnarinnar. Sú ákvörðun Arafats að skipa frænda sinn, Mousa Arafat, sem yfirmann öryggsstofnana er harðlega gagnrýnd. Með því að brenna tvær skrifstofubyggingar heimastjórnarinnar hafa liðsmenn Fatah-hreyfingar Arafats komið þeim skilaboðum áleiðis að þeir hafni þessum breytingum alfarið. Mousa Arafat, sem áður var yfirmaður leyniþjónustu Palestínumanna, er þó einn af stofnendum Fatah-hreyfingarinnar. Markmið Arafats með breytingum á innviðum örygssveitanna var að einfalda skipulag þeirra, að kröfu bæði Bandaríkjamanna og Ísraela, og liðka þannig fyrir friðarumleitunum. Fréttaskýrendur segja aðgerðir uppreisnarmanna tengjast valdabaráttu innan öryggissveitanna en að krafa hins þögla meirihluta Palestínumanna sé að lög og reglu verði komið á með lýðræðislegum kosningum. Forsætisráðherra Palestínu sagði af sér í gær en ríkisstjórn hans hefur gagnrýnt Arafat fyrir að halda um stjórnartaumana og koma í veg fyrir umbætur. Arafat neitar að taka mark á uppsögninni. Þeir hittust á fundu í dag en hvorugur þeirra hefur skipt um skoðun. Myndin er frá mótmælum Fatah-hreyfingarinnar um helgina.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×