Erlent

Martha Stewart fær 5 mánuði

Bandaríska kaupsýslu- og sjónvarpskonan Martha Stewart var dæmd í fimm mánaða fangelsi fyrir að ljúga til um hlutabréfaviðskipti í New York í dag. Málið á upphaf sitt að rekja til sölu Stewart, sem er sextíu og tveggja ára, á hlutabréfum í líftæknifyrirtækinu ImClone Systems Inc. í desember árið 2001. Hún er sökuð um að hafa þá fengið upplýsingar í gegnum verðbréfabraskara sinn um að stofnandi ImClone væri að fara að selja hlut sinn í fyrirtækinu því bandaríska lyfjaeftirlitið hefði hafnað beiðni fyrirtækisins um leyfi til að framleiða krabbameinslyf sem miklar vonir voru bundnar við. Vegna ákvörðunar lyfjaeftirlitsins hrundu hlutabréf ImClone í verði Stewart og verðbréfabraskari hennar, Peter Bacanovic, voru ekki sakfelld fyrir innherjaviðskipti heldur fyrir að reyna að leyna því að þau hefðu umræddar upplýsingar undir höndum. Dómurinn er því á grundvelli samsæris, lyga og fyrir að hindra framgang réttvísinnar. Dóms yfir Bacanovic er að vænta síðar í dag. Stewart hefur þegar áfrýjað dóminum og verður fullnustu hans því frestað þar til niðurstaða fæst fyrir áfrýjunarrétti. Hún mun því ekki þurfa að afplána dóminn strax. Stewart var jafnframt dæmd til að greiða sekt upp á 30 þúsund dollara, sem samsvarar tæplega 3 milljónum íslenskra króna, og til að sæta eftirliti í tvö ár eftir að hinni fimm mánaða fangelsisvist lýkur. Hægt er að horfa á frétt Stöðvar 2 um málið með því að smella á hlekkinn sem fylgir fréttinni.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×