Menning

Fjölgar í þjónustugreinum

Hagstofan hefur birt tölur um fjölda starfandi fólks eftir atvinnugreinum og landshlutum árið 2003. Þar kemur fram að starfandi fólki á Íslandi fækkaði milli áranna 2002 og 2003 úr 156.070 manns í 155.680, eða um 0,2%, sem telst óverulegt. Á höfuðborgarsvæðinu fækkaði starfandi fólki um 0,2% en utan höfuðborgarsvæðisins fækkaði þeim um 1%. Á Austurlandi var engin breyting á fjölda starfandi fólks milli áranna en í öðrum landshlutum fækkaði starfandi fólki. Við frumvinnslugreinar störfuðu 9.710 manns árið 2003, 35.460 manns störfuðu við iðngreinar og 110.510 störfuðu við þjónustugreinar. Á landsvísu voru 390 færri einstaklingar við störf árið 2003 en árið 2002. Athygli vekur að starfandi fólki fækkar í frumvinnslu- og iðngreinum um nálægt 5% en fjölgar í þjónustu um 0,5%. Á Suðurnesjum fækkaði mest þeim sem starfa við þjónustu og iðngreinar en á Suðurlandi fækkaði mest í frumvinnslugreinum, eða 6,4%. Í iðngreinum fækkaði starfandi í öllum landshlutum milli áranna nema á Norðurlandi eystra og Austurlandi. Mest fækkaði þeim sem starfa við iðngreinar á Vestfjörðum, eða 6,4%. Upplýsingar þessar eru frá staðgreiðsluskrá Hagstofu Íslands.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×