Innlent

Fjármögnuð með skattlagningu

Samtök iðnaðarins mótmæla harðlega hugmyndum um nýja skattlagningu til að fjármagna rekstur Lýðheilsustöðvar á vefsetri sínu, www.si.is. Á vefsíðu samtakanna kemur fram að þau hafi lýst yfir vilja til þess að eiga gott samstarf við Lýðheilsustöð um að stuðla að forvörnum og bættu heilsufari landsmanna. Því miður hafi hins vegar gleymst að hugsa fyrir rekstrarkostnaði stöðvarinnar. Til að leita tekna sé Hagfræðistofnun Háskóla Íslands nú að reikna út hversu miklar tekjur stofnunin geti fengið með því að leggja nýjan 15 kr/kg skatt á sykur og sykraðar vörur eða 10 kr/l af gosdrykkjum. Samtök iðnaðarins mótmæla þessum hugmyndum harðlega og segja skattheimtu sem þessa leiða til hækkunar á matvælaverði og mismununar á skattlagningu matvæla. Umrædd matvæli beri þegar vörugjöld sem eru 30 kr/kg af sykri og í 8 kr/l á gosdrykkjum, auk þess sem þeir beri 24,5% virðisaukaskatt í stað 14% eins og flestar aðrar matvörur. Hér sé því gert ráð fyrir 50% og 125% hækkun þessarar skattheimtu sem þegar sæti mikilli gagnrýni. Samtök iðnaðarins telja að fjármagna verði rekstur Lýðheilsustöðvar með öðrum og almennari hætti auk þess sem órökstutt sé að þessi skattur muni leiða til bættrar heilsu landsmanna.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×