Erlent

Ívan grimmi kostaði tólf lífið

Í það minnsta tólf létu lífið þegar fellibylurinn Ívan gekk á land í Bandaríkjunum. Hamfarirnar voru þó minni en sérfræðingar höfðu óttast. Vindhraðinn mældist 209 kílómetrar á klukkustund. Fjöldi hvirfilbylja myndaðist þegar Ívan gekk yfir og rifu þeir upp tré, skilti og þök af húsum. Fellibylurinn Ívan hefur nú kostað áttatíu manns lífið, tólf í Bandaríkjunum og 68 á eyjum Karíbahafsins. Flestir þeirra sem létust bjuggu í Flórída. Átta ára stúlka kramdist til bana þegar tré féll á hjólhýsi sem hún bjó í og hvirfilbyljir bönuðu sjö í tveimur byggðum Flórída. Fjórir sjúklingar í Louisiana létust þrátt fyrir að hafa verið fluttir af heimilum sínum á öruggari staði. Íbúum Alabama þótti ekki meira til fellibylsins koma en svo að þeir sögðu hann blikna í samanburði við fyrri reynslu sína. "Ívan var hvergi nærri jafn slæmur og Friðrik, hann komst ekki nálægt því," sagði lögreglustjórinn Sam Cochran og vísaði til fellibyls sem olli gríðarlegu tjóni í Alabama árið 1979. "Það tekur okkur ekki langan tíma að hreinsa upp eftir þetta," sagði Shane Eschete sem rekur veitingastað í New Orleans.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×