Erlent

Ætlaði að farga vélinni

Maðurinn sem réðst á áhöfn og farþega norskrar flugvélar með exi í morgun ætlaði að farga vélinni. Hann æpti upp að hann ætlaði sér að keyra vélina til jarðar og eftir að hann hafði gert báða flugmennina óvirka lagðist hann á stjórnborðið þannig að vélin stefndi nánast lóðrétt til jarðar. Þrír voru fluttir á sjúkrahús með höfuðáverka eftir atganginn en þeir eru ekki alvarlega slasaðir. Einnig er komið í ljós að maðurinn notaði ekki exi vélarinnar eins og fyrst var haldið heldur tók hann einfaldlega með sér exi um borð. Auk þess hafði hann hníf meðferðis. Það var í aðfluginu að flugvellinum í Bodö að maðurinn réðist inn í flugstjórnarklefann og sló flugstjórann þegar í stað í hnakkann. Við það rotaðist kapteinninn og strax á eftir gerði hann atlögu að aðstoðarflugmanninum. Þegar vélin átti aðeins um 100 fet til jarðar, u.þ.b. 35 metra, náði flugstjórinn, sem rankaði við sér úr rotinu, að forða stórslysi með því að sveigja vélina á rétta stefnu, auk þess sem hann slóst við árásarmanninn. Árásarmaðurinn er flóttamaður frá Alsír sem sótt hefur um hæli í Noregi en verið synjað. Myndin er af vélinni sem maðurinn reyndi að farga í morgun.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×