Erlent

Þorsti og hungur hlutskiptið

Ársskýrsla Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna UNICEF sem birt var í vikunni dregur upp dökka mynd af hag barna um víða veröld. Niðurstaða hennar er sú að bernskan er hörmuleg lífsreynsla fyrir helming allra barna á jörðinni, þessi mikilvægu ár eru eyðilögð af fátækt, stríðsátökum og HIV veirunni sem veldur alnæmi. Fátækt er á margan hátt rót beggja hinna meinsemdanna og því hlýtur að vera forgangsverkefni að ráða niðurlögum hennar. Fátækt vítahringur Að mati UNICEF er fátækt í bernsku ávísun á örbirgð á fullorðinsárum. Fátæk börn eru föst í vítahring og munu sjálf eignast örsnauð börn. Því telja skýrsluhöfundar nauðsynlegt að alþjóðasamfélagið beini sjónum sínum sérstaklega að örbirgð barna ef efnahagslegar framfarir eiga að verða í heimkynnum þeirra. Hefðbundnar skilgreiningar á fátækt gengur út frá að fólk hafi innan við einn Bandaríkjadal á dag sér til viðurværis. Þessi mælikvarði á ekki endilega vel við börn því þau eru talin upplifa fátækt á annan hátt en fullorðnir. Í staðinn miðar UNICEF við skort á nokkrum þáttum sem nauðsynlegir eru til að geta vaxið og dafnað á eðlilegan hátt. Skortur á mat, drykk, húsaskjóli, hreinlæti, menntun, heilbrigði og upplýsingum jafngildir fátækt að viti UNICEF. Nýleg rannsókn sem UNICEF lét tvo virta breska háskóla vinna fyrir sig leiðir þann nöturlega sannleik í ljós að meira en helmingur barna í þróunarlöndum býr ekki við þau gæði sem nauðsynleg eru talin þeim. 700 milljónir barna búa við skort á fleiri en einum ofangreindra þátta. Svöng og þyrst Rúm sextán prósent barna undir fimm ára aldri sem lifa í þróunarlöndunum búa við alvarlega vannæringu, helmingurinn þeirra er í S-Asíu. Mörg þessara barna eru blóðlítil, veikburða og varnarlaus gagnvart sjúkdómum. Flest voru langt undir kjörþyngd við fæðingu og búast má við að þau muni eiga við námsörðugleika að stríða í framtíðinni, ef þau á annað borð komast í skóla. Þessi börn munu að líkindum sitja neðst í þjóðfélagsstiganum alla sína ævi. Hér um bil fimmtungur barna í þróunarlöndunum, um 400 milljónir, fer á mis við aðgang að hreinu vatni en vandamálið er sérstaklega alvarlegt í Afríku sunnan Sahara. Í löndum á borð við Eþíópíu, Rúanda og Úganda þarf þorri smáfólksins að reiða sig á yfirborðsvatn eða að ganga í að minnsta kosti stundarfjórðung að næsta örugga brunni. Skortur á hreinu vatni er orsök margra alvarlega sjúkdóma en hefur einnig áhrif á námsgetu. Án heilsugæslu og hreinlætis Eitt af hverjum þremur börnum sem elst upp í þróunarlöndunum hefur engan aðgang að hreinlætisaðstöðu. Ekki þarf að fjölyrða um hættuna á sjúkdómum þar sem hreinlæti er ábótavant og þeir draga úr möguleikum barnanna á að skapa sér viðunandi lífskjör, til dæmis með skólagöngu. Þannig eru milljónir barna á skólaaldri með iðraorma af ýmsu tagi en slík kvikindi eru talin draga úr getunni til náms. 270 milljónir allra barna í þróunarlöndunum, eða fjórtán prósent, njóta engrar heilsugæslu. Í S-Asíu og Afríku sunnan Sahara fer fjórðungur barna á mis við allar nauðsynlegar bólusetningar gegn hættulegum sjúkdómum og fær enga meðferð gegn niðurgangi sem þurrkar líkama þeirra upp og getur dregið þau til dauða. Skólaganga fjarlægur draumur Samkvæmt skilgreiningu UNICEF búa rösklega 640 milljónir barna í þriðja heiminum í kytrum þar sem fleiri en fimm deila herbergi og bert moldargólf blasir við. Enn og aftur eru þeir sem lifa í löndunum sunnan Sahara eyðimerkurinnar í verstri stöðu þótt aðstæður séu einnig bágar í S-Asíu, Mið-Austurlöndum og N-Afríku. Meira en 140 milljónir barna á skólaaldri hafa aldrei stigið fæti sínum inn í slíka stofnun og að líkindum munu fæst þeirra nokkurn tímann gera það. Miklu fleiri stúlkur en piltar eru sviptar möguleikanum á skólagöngu. 300 milljónir barna komast aldrei í tæri við fjölmiðla af neinu tagi og þannig fara þau á mis við það sem er að gerast í þeirra umhverfi, bæði nær og fjær. Aðgerða er þörf Talsmenn UNICEF benda á að það sé þjóðum heims í sjálfsvald sett hvort bilið verði brúað á milli þeirra sem ekkert eiga og okkar sem lifum við allsnægtir. Til að byrja með verði alþjóðasamfélagið að viðurkenna að börn búi við skort og bregðast við með hliðsjón af því að þarfir barna eru aðrar en fullorðinna. UNICEF stingur upp á að ríkisstjórnir sem verja fé til þróunaraðstoðar taki sérstakt tillit til barna í áætlanagerð sinni. Fyrst og síðast ætti þó hvert okkar og eitt að finna til ábyrgðar og bregðast við þannig að líf okkar minnstu bræðra og systra verði örlítið bærilegra.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×