Erlent

Líklega góðkunningjar lögreglu

Lögreglan í Ósló er engu nær um felustað mannanna sem rændu tveimur þekktustu málverkum Edvards Munchs af safni í Ósló í gær. Þó er talið að ekki séu fagmenn á ferð heldur svokallaðir góðkunningjar lögreglu. Ræningjarnir tveir réðust með bægslagangi inn í Munch-safnið í Ósló í gær og af lýsingum sjónarvotta að dæma báru þeir sig ekki mjög fagmannlega að. Þeir vissu til að mynda hvorki hvar málverkin héngu í safninu né hvernig þau voru hengd upp og áttu í mestu vandræðum með að ná þeim niður. Þeir óku á brott með verkin, rifu þau úr römmum og skiptu um bíl. Samkvæmt fréttum norskra fjölmiðla hefur lögreglan upplýsingar um seinni bílinn og gerir sér að auki vonir um að finna lífsýni á römmunum. Von lögreglunnar er raunar sú að ungir og óreyndir góðkunningjar sínir séu á ferðinni og því reynist auðvelt að hafa uppi á þeim. Listasérfræðingar segja með öllu vonlaust að selja þessi verk á frjálsum markaði, til þess séu þau alltof þekkt. Helst er talið að ræningjarnir ætli sér að krefjast lausnargjalds fyrir verkin en þeir hafa þó enn sem komið er ekki látið frá sér heyra. Listasafnið þar sem myndirnar voru sætir nú mikilli gagnrýni fyrir slakan öryggisbúnað og segja fjölmiðlar ótrúlegt að ekki sé meira mál að stela þjóðargersemunum en að ræna sígarettupakka í sjoppu. Borgaryfirvöld í Ósló sáu sér eingöngu fært að tryggja verkin gegn bruna og vatnsskaða af fjárhagsástæðum. Norskir fjölmiðlar segja myndirnar um sex hundruð og fimmtíu milljón norskra króna virði en það samsvarar 6,9 milljörðum króna. Fjárhagsskaðinn er því töluverður. Að auki er myndbandsupptaka, sem lögregla hefur undir höndum, svo léleg að hún kemur ekki að neinu raunverulegu gagni. Fjöldi sjónarvotta hefur þó gefið sig fram og gera lögreglumenn sér vonir um að það leiði til handtöku ræningjanna von bráðar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×