Erlent

Cat Stevens fær friðarverðlaun

Söngvarinn Yusuf Islam, öðru nafni Cat Stevens, sem Bandaríkjastjórn telur að tengist hryðjuverkamönnum, fékk í dag afhent sérstök verðlaun á Ítalíu fyrir að leggja sitt af mörkum í baráttunni fyrir friði í heiminum.  Friðarverðlaun Gorbatjsev-stofnunarinnar voru afhent Islam í ráðhúsi Rómar og tók hann við þeim úr höndum borgarstjóra borgarinnar og Mikhaíl Gorbatjsev, fyrrverandi leiðtoga Sovétríkjanna, sem fer fyrir stofnuninni. Athöfnin markaði upphafið að árlegri dagskrá í Róm þar sem handhafar friðarverðlauna Nóbels koma venjulega saman. Islam hætti fyrir mörgum árum að koma fram opinberlega og sneri til íslamstrúar. Bandarísk stjórnvöld hafa sakað hann um hryðjuverkatengsl og í september síðastliðnum var hann rekinn frá Bandaríkjunum eftir að flugvél sem hann var í, á leið frá London til Washington, var snúið til Maine. Við verðlaunaafhendinguna sagði Islam það atvik kannski hafa verið þrekraun sem hann hafi þurft að ganga í gegnum til að fá verðlaunin.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×