Erlent

Ísraelar leyfa flutning Arafats

Heilsufar Jassers Arafats, leiðtoga Palestínumanna, hefur enn og aftur dregið athyglina að aðstæðum Arafats sem hefur setið í nokkurs konar sjálfsskipuðu stofufangelsi í hálft þriðja ár. Heilsufar Arafats hefur verið nokkuð til umræðu undanfarið en fyrir stuttu flugu læknar frá Túnis og Egyptalandi til Vesturbakans til að skoða hann þar sem hann lá mjög veikur með magaverk og ælupest. Sú tíðindi berast hins vegar nú að Ísraelar hafa gefið Yasser Arafat leyfi til að yfirgefa Vesturbakkann tímabundið til að gangast undir læknisaðgerð vegna þessara veikinda. Ísraelsmenn segja að leyfið hafi verið veitt eftir að ósk um það barst frá palestínskum embættismönnum en þeir neita hins vegar alfarið að hafa óskað eftir leyfinu. Samstarfsmenn Arafats segja að hann hafi gengist undir læknisskoðun í höfuðstöðvum sínum á Ramallah og í ljós hafi komið að hann væri ekki alvarlega veikur heldur hafi aðeins fengið flensu og sé nú að jafna sig. Hann þurfi ekki á sjúkrahús og muni því ekki þiggja boð Ísraelsmanna. Heilsa Arafats er sérstakt fréttaefni, umfram annarra leiðtoga, vegna þess að Arafat kemst ekki svo glatt til lækna eða á sjúkrahús þar sem hann hefur ekki fengið leyfi til að yfirgefa höfuðstöðvar sínar á Ramallah í tvö og hálft ár. Ísraelsmenn segja reyndar að Arafat sé frjálst að ferðast og helst vildu þeir koma honum úr landi. Stjórnvöld í Ísrael segja hins vegar að ef Arafat færi í burtu hvort sem er í opinbera heimsókn eða af heilsufarsástæðum myndu þeir ekki getað gefið vilyrði fyrir því að hann fengi að snúa aftur til Palestínu. Þess vegna situr Arafat sem fastast og neitar að leggjast inn á sjúkrahús.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×