Ragnar Sigurðsson spilaði allan leikinn er lið hans, Krasnodar, hafði betur gegn Anzhi Makhachkala í 16-liða úrslitum rússnesku bikarkeppninnar í kvöld, 3-1.
Ragnar spilaði sinn fyrsta leik í byrjunarliði síðan í byrjun mánaðarins en hann hefur setið á bekknum í síðustu tveimur deildarleikjum Krasnodar.
Anzhi er nýliði í rússnesku úrvalsdeildinni og er í neðsta sæti deildarinnar með átta stig. Liðið varð þó heimsþekkt þegar að milljarðamæringurinn Suleyman Kerimov keypti liðið árið 2011 og sankaði að sér stórstjörnum á borð við Samuel Eto'o og Roberto Carlos í kjölfarið.
Kerimov dró síðan saman seglin að verulegu leyti árið 2013 og allar helstu stjörnur þess hurfu á braut. Liðið varð langneðst í rússnesku úrvalsdeildinni það árið en náði að vinna sér aftur sæti í deild þeirra bestu á síðustu leiktíð.
Krasnodar er í áttunda sæti rússnesku deildarinnar af alls sextán liðum, með átján stig að loknum þrettán umferðum. CSKA Moskva er efst með 33 stig - sex stigum meira en Lokomotiv Moskva.
Ragnar sló fyrrum milljarðalið úr leik
Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
