Fleiri fréttir

Margret Thatcher flutt á sjúkrahús

Margret Thatcher, fyrrverandi forsætisráðherra Bretlands, var flutt á sjúkrahús í London um fimmleytið í dag eftir að hún fékk aðsvif á hárgreiðslustofu. Thatcher mun dvelja á sjúkrahúsinu að minnsta kosti í nótt og undirgangast rannsóknir til að hafa varan á, en mun að öllum líkindum útskrifast á morgun.

Farþegi sem sagðist vera með sprengju skotinn til bana

Farþegi um borð í flugvél American Airlines á flugvellinum á Miami í Bandaríkjunum var skotinn til bana fyrr í kvöld eftir að hann sagðist vera með sprengju á sér. Hermenn sem höfðu umkringt vélina skutu manninn þegar hann reyndi að flýja inn í flugstöðvarbygginguna.

Eldur í tjaldi á hamfarasvæðunum í Pakistan

Sjö létust, þar af fjögur börn, þegar eldur kviknaði í tjaldi á hamfarasvæðunum í norðurhluta Pakistans í gærkvöld. Samkvæmt fréttum AP kviknaði í tjaldinu úr frá kerti og létust fjórir á staðnum en þrír á sjúkrahúsi skömmu síðar.

Flugvél hrapaði undan ströndum Kanada

Flugvél hrapaði í hafið út af austurströndum New Brunswick-héraðs í Kanada í dag. Fyrstu fréttir hermdu að vélin hafi verið fjögurra hreyfla Herkúles flutningavél en talsmenn kanadíska hersins segja hinsvegar að engrar slíkrar vélar sé saknað. Mögulegt er því að um minni vél hafi verið að ræða. Málið er í rannsókn.

Réttarhöldunum yfir Saddam frestað í tvær vikur

Réttarhöldunum yfir Saddam Hussein, fyrrverandi forseta Íraks, var frestað í tvær vikur í dag eftir að Saddam neitaði að vera viðstaddur þau. Til stóð að halda réttarhöldunum áfram í dag og voru tvö vitni að grimmdarverkum Saddams kölluð í vitnastúku.

Ákærðir fyrir að fjármagna hryðjuverkastarfsemi

Tveir félagar í Danmerkurdeild palestínsku samtakanna al-Aqsa hafa verið ákærðir fyrir að fjármagna hryðjuverk. Greint er frá því á vef danska blaðsins Politiken að rannsókn yfirvalda hafi leitt í ljós að mennirnir hafi safnað peningum í Danmörku og sent þá til félaga sem tilheyri Hamas-samtökunum eða tengist þeim.

Sjö létust í tjaldbruna á hamfarasvæðum í Pakistan

Sjö létust, þar af fjögur börn, þegar eldur kviknaði í tjaldi á hamfarasvæðunum í norðurhluta Pakistans í gærkvöld. Samkvæmt fréttum AP kviknaði í tjaldinu úr frá kerti og létust fjórir á staðnum en þrír á sjúkrahúsi skömmu síðar.

Mynt með mynd Benedikts XVI

Benedikt sextándi páfi fetaði í fótspor forvera síns, Jóhannesar Páls páfa annars, þegar myntslátta Páfagarðs gaf út evrumyntir með mynd Benedikts sextánda á framhliðinni.

Kæra CIA fyrir að nema Þjóðverja á brott

Bandarísk mannréttindasamtök hafa kært CIA, leyniþjónustu Bandaríkjanna, fyrir hönd Þjóðverja sem var tekinn höndum og haldið í leynilegu fangelsi í Afganistan í hálft ár.

Þúsundir flýja yfirvofandi eldgos

Þúsundir íbúa á eynni Vanuatu, í Suður-Kyrrahafi, hafa verið fluttir frá heimilum sínum vegna yfirvofandi eldgoss. Óttast er að flytja þurfi alla íbúa eyjarinnar á brott.

Dæmdur í 11 ára fangelsi fyrir kynferðisglæpi gegn fjölda barna

Finnskur maður á fimmtugsaldri var dæmdur í 11 ára fangelsi fyrir yfir 160 kynferðisglæpi gegn börnum. Dómurinn þykir sérlega þungur en maðurinn, Juoko Petri Jaatinen, framdi fleiri tugi glæpa gegn fjöldamörgum börnum á 10 ára tímabili. Kynferðisglæpirnir, sem flestir voru framdir á taílenskum vændisbörnum, þóttu sérlega grófir og niðurlægjandi í mörgum tilfellum og voru 6 fórnarlamba hans yngri en 10 ára. Samkvæmt finnskum lögum má sækja fólk til saka fyrir barnaníð þótt það hafi framið glæpinn í öðru ríki.

Þeim seku verður refsað

Kínversk stjórnvöld hafa heitið því að refsa þeim sem bera ábyrgð á sprengingu í efnaverksmiðju á dögunum sem varð til þess að hundrað tonn af eiturefnum láku í Songhua-ána og spilltu drykkjarvatni milljóna manna.

Mesta veðurhamfaraár sögunnar

Árið 2005 er mesta veðurhamfaraár sem skráð hefur verið samkvæmt skýrslu sem lögð var fram á loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Montreal í Kanada.

Banna pyntingar innan og utan Bandaríkjanna

Bandarísk stjórnvöld hafa bannað öllum bandarískum erindrekum að beita fanga sína grimmd við yfirheyrslur, sagði Condoleezza Rice, utanríkisráðherra Bandaríkjanna í Úkraínu þar sem hún er í opinberri heimsókn.

Stríðsglæpir fortíðar skulu ekki hafa áhrif á framtíðina

Japan á að hugsa um þann sársauka sem það hefur valdið Kína og Suður-Kóreu á árum áður en sagan á þó ekki að hindra framtíðarsamstarf, segir japanski utanríkisráðherrann Taro Aso. Samband Japan við Kína og Suður-Kóreu hefur beðið skaða að undanförnu vegna árlegra pílagrímsferða forsætisráðherrans, Junichiro Koizumi, til Yasukuni hofsins í Tókíó sem er tákn liðinna herátaka.

Pakistanar búa sig undir veturinn

Hundruð þúsunda Pakistana undirbúa sig nú fyrir kaldasta tíma vetrarins sem senn gengur í garð. Lítil sem engin hjálp hefur borist stórum hluta þessa fólks eftir jarðskjálftana í síðasta mánuði sem urðu um sjötíu þúsund manns að bana.

Pyntingar eða háþróaðar yfirheyrslur?

Condoleezza Rice, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, viðurkenndi að CIA flytti grunaða hermdarverkamenn án dóms og laga á milli landa til yfirheyrslna en þvertók fyrir að þeir væru pyntaðir. Yfirheyrsluaðferðir CIA eru hins vegar vafasamar svo ekki sé meira sagt.

Rice viðurkennir mistök

Condoleezza Rice hóf för sína til fjögurra Evrópulanda í Berlín í gær þar sem hún átti viðræður við Angelu Merkel kanzlara. Rice hét því á fundinum að Bandaríkjastjórn myndi bæta úr þeim mistökum sem henni yrði á í stríðinu gegn hryðjuverkum. Merkel sagðist eftir fundinn vænta þess að leikreglur lýðræðisins væru virtar í baráttunni gegn hryðjuverkahættunni.

Mikil sorg í Íran eftir flugslys

Mikil sorg ríkir nú í Íran eftir að flugvél skall á íbúðarbyggingu í suðurhluta Teheran, höfuðborg landsins, í gær með þeim afleiðingum að 130 manns fórust. Flugvélin var nýtekin á loft þegar bilunar varð vart og ætlaði flugstjórinn að reyna nauðlendingu.

Vesturbakka og Gaza lokað

Ísraelsk yfirvöld hófu í gær refsiaðgerðir gegn Palestínumönnum fyrir sjálfsmorðs­árás samtakanna Heilagt stríð í bænum Netanya í fyrradag sem kostaði fimm mannslíf. Vesturbakkanum og Gaza-svæðið voru lokuð af og fimm­tán herskáir Palestínumenn voru teknir höndum.

Felldu níu talibana í Afganistan

Afganskar lögreglusveitir felldu níu talibana í þriggja klukkustunda skotbardaga í suðurhluta landsins í gær. Þá voru sex uppreisnarmenn handteknir. Í nærliggjandi héraði keyrðu vígamenn upp að hópi lögreglumanna og vegfarenda og skutu á þá. Tveir vegfarendur féllu og einn lögregluþjónn. Þá særðust tveir í árásunum.

Setti svefnlyf í bananatertu

Tæplega fertug kona í Óðinsvéum hefur verið handtekin fyrir tilraun til manndráps en hún stakk sextán ára son sinn með hníf í brjóstið. Konan hefur ítrekað reynt að myrða son sinn, meðal annars hefur hún sett svefnlyf í banana­tertu og pottrétt.

Rúmensk stjórnvöld hafa ekkert að fela

Forseti Rúmeníu, Traian Basescu, segir engin fangelsi á vegum bandarísku leyniþjónustunnar, CIA, hafa verið í landinu. Sagði forsetinn að hann myndi leyfa utanaðkomandi rannsókn til að sanna að þarlens stjórnvöld hefðu ekkert að fela.

Tillögu Breta illa tekið

Það hitnaði í kolunum í fjárlagadeilu Evrópusambandsins er breska stjórnin, sem fer nú með formennskuna í sambandinu, lagði fram tillögu sína að fjárhagsáætlun þess fyrir tímabilið 2007-2013. Samkvæmt tillögunni á að skera útgjöld úr sameiginlegum sjóðum sambandsins niður um 24 milljarða evra, andvirði um 1.800 milljarða króna.

Ekki konungleg hátign

Nýfæddur sonur norska krónprinsins Hákons og Mette-Marit prinsessu hefur fengið nafnið Sverre Magnus eða Sverrir Magnús upp á íslensku. Hann fær hins vegar ekki titilinn hans konunglega hátign, að því er greint var frá í norskum fjölmiðlum.

Á annað hundrað létust

Í það minnsta 128 manns biðu í gær bana í flugslysi í Teheran í Íran. Talið er að vélarbilun hafi valdið því að herflugvél rakst utan í fjölbýlishús og hrapaði til jarðar. Mikið öngþveiti skapaðist á slysstaðnum.

Ósamkvæmur sjálfum sér

Þrýstingur á Göran Persson, forsætisráðherra Svíþjóðar, um að segja af sér fer vaxandi eftir að yfirvöld voru gagnrýnd fyrir að bregðast ekki nógu hratt við flóðbylgjunni í Indlandshafi í fyrra. Sænskir fjölmiðlar vitnuðu í gær í ævisögu hans frá árinu 1997 þar sem hann ræðir um það hvers vegna stjórnmálamenn eigi að segja af sér eða ekki.

Skelfilegum pyntingum lýst

Í það minnsta 43 létu lífið og 73 særðust þegar tveir menn gyrtir sprengjubelti frömdu sjálfsmorðsárás í lögregluskóla í Bagdad í gær. Í fyrstu var talið að konur hefðu verið að verki en þær fregnir voru dregnar til baka.

Sagði dómurunum að fara til fjandans

Gríðarlegur viðbúnaður er vegna réttarhalda yfir Saddam Hussein, fyrrverandi forseta Íraks. Réttahöldin héldu áfram í dag en í gær strunsuðu lögfræðingar hans út úr réttarsalnum eftir að hafa verið meinað að tjá sig um réttmæti réttarhaldanna.

Mannskæður dagur í Írak

Að minnsta kosti fjörutíu manns féllu í sjálfsmorðsárás í Írak í dag. Sjálfsmorðsárásum virðist ekki ætla að linna í landinu en samtökin al-Qaida hafa sagt að þannig verði það, uns Bandaríkjamenn séu á bak og burt og samtökin hafi náð völdum í landinu.

130 látnir eftir flugslysið í Íran

Að minnsta kosti eitt hundrað og þrjátíu manns fórust í flugslysinu í Íran í dag þegar herflugvél skall á íbúðabyggingu í Teheran, höfuðborg landsins. Óttast er að tala látinna eigi eftir að hækka enn frekar en fjölmargir eru slasaðir.

Cameron kjörinn leiðtogi Íhaldsflokksins í Bretlandi

David Cameron hefur verið kjörinn leiðtogi Íhaldsflokksins í Bretlandi. Hann hlaut meira en sextíu og fimm prósent greiddra atkvæða og meira en helmingi fleiri atkvæði en David Davis sem var í framboði gegn honum.

Fimm sprengjur í vegköntum nærri Madríd

Að minnsta kosti fimm sprengjur sprungu í vegköntum í nágrenni Madrídar á Spáni fyrir stundu. Ekki hafa borist fréttir af manntjóni en fyrstu fregnir herma að sprengingarnar hafi verið minniháttar.

Jacob Zuma ákærður fyrir nauðgun

Jacob Zuma, fyrrverandi varaforseti Suður-Afríku, hefur verið ákærður fyrir nauðgun. Zuma mætti fyrir rétt vegna málsins í dag en ekki var greint frá ákærunni fyrr en þá.

Að minnsta kosti 94 látnir eftir flugslys

Talsmaður lögreglunnar í Teheran hefur staðfest að allir farþegarinar 94 sem voru í herflugvél sem brotlenti á tíu hæða íbúðablokk í borginni í morgun hafi látist. Engar fregnir hafa enn borist af því hvort einhver hafi látist í blokkinni þegar flugvélin lenti á henni, en yfirvöld segja um 250 manns hafa búið þar.

Hryðjuverkamenn hafi verið fluttir frá leynifangelsum

Ellefu hryðjuverkamenn úr samtökum al-Qaida voru fluttir í snarhasti úr leynifangelsum í Austur-Evrópu þegar fréttir af fangelsunum birtust í fjölmiðlum. Þetta hefur fréttastöðin ABC eftir núverandi og fyrrverandi starfsmönnum leyniþjónustunnar, sem fullyrða að fangelsin hafi enn verið starfrækt fyrir mánuði síðan.

Óttast að allir farþegar herflugvélar hafi farist

Óttast er að allir farþegar hafi farist þegar herflugvél með meira en níutíu farþega brotlenti á tíu hæða íbúðablokk í Teheran höfuðborg Írans rétt fyrir ellefu. Ekki liggur enn fyrir hvort mannfall hafi orðið meðal íbúa blokkarinnar.

Ráðist á lögregluskóla í Írak í morgun

Minnst tuttugu og sjö manns létust í sjálfsmorðsárás í lögregluskóla í Írak í morgun. Tvær konur gengu inn í skólastofu í skólanum hlaðnar sprengiefni og sprengdu sig í loft upp. Meira en þrjatíu slösuðust í árásinni.

Barn lést í skjálftanum í A-Afríku

Barn lést og nokkrir eru slasaðir eftir jarðskjálftann sem reið yfir Austur-Afríku í gærdag. Skjálftinn mældist 6,8 á Richter og nokkur hús hrundu í Kongó. Í einu húsanna varð barn undir braki og lést. Það var lán í ólani að upptök skjálftans voru á dreifbýlu svæði og því urðu afleiðingarnar minni en óttast var í fyrstu.

Herflugvél brotlenti í Teheran

Herflugvél með áttatíu farþega brotlenti í Tehran, höfuðborg Írans, nú rétt í þessu. Svo virðist sem flugvélin hafi flogið beint á byggingu, en frekari upplýsingar liggja ekki fyrir að svo stöddu.

Fimmti hver Dani óttast hryðjuverk í háloftunum

Fimmti hver Dani óttast að verða fórnarlamb hryðjuverka í flugvélum eða flugstöðvum samkvæmt nýrri könnun sem Flugmálastjórn Danmerkur hefur gert. Þar kemur einnig fram að fjórði hver Dani flýgur sjaldan eða aldrei og það er fólk í þeim hópi sem segist óöruggast í flugi.

Langflestir búa enn í skýlum og búðum

Næstum ári eftir að flóðbylgjan skall á löndum við Indlandshaf búa enn langflestir þeirra sem misstu heimili sín í hamförunum í neyðarskýlum eða tjaldbúðum. Þetta er niðurstaða bandarískrar könnunar sem gerð var í Indlandi, á Srí Lanka og norðurhluta Súmötru í Indónesíu sem varð einna verst úti.

Sjá næstu 50 fréttir