Erlent

Hryðjuverkamenn hafi verið fluttir frá leynifangelsum

Condoleeza Rice, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, og Angela Merkel, kanslari Þýskalands, ræddu saman í dag, m.a. um fangaflug CIA.
Condoleeza Rice, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, og Angela Merkel, kanslari Þýskalands, ræddu saman í dag, m.a. um fangaflug CIA. MYND/AP

Ellefu hryðjuverkamenn úr samtökum al-Qaidavoru fluttir í snarhasti úr leynifangelsum í Austur-Evrópu þegar fréttir af fangelsunum birtust í fjölmiðlum. Þetta hefur fréttastöðin ABC eftir núverandi og fyrrverandi starfsmönnum leyniþjónustunnar, sem fullyrða að fangelsin hafi enn verið starfrækt fyrir mánuði síðan.

Heimldarmenn ABC segja að bandaríkjastjórn hafi ekki lokað leynifangelsum sínum í Póllandi og R úmeníu fyrr en Washington Post greindi frá þeim fyrir rúmum mánuði. Þeir segja að bandarísk stjórnvöld hafi lagst á eitt um að koma öllum föngum burt úr fangelsunum strax eftir að fréttin birtist.

Ellefu hryðjuverkamenn úr röðum al-Qaida hafi kerfisbundið verið yfirheyrðir í leynifangelsunum, en þeir hafi nú verið fluttir í fangabúðir sem CIA starfræki í eyðimörk í norður-Afríku. Þá segja heimildarmenn ABC jafnframt að allir mennirnir nema einn hafi verið beittir hörðustu aðferðum sem CIA notist við. Fjórtán starfsmenn leyniþjónustunnar hafa fengið leyfi til að beita þessum aðferðum, sem eru mun harðari en þær aðferðir sem almennt eru samþykktar.

Í yfirlýsingu frá mannréttindasamtökunum Amnesty International frá í gær kemur fram að sex flugvélar á vegum CIA hafa lent um átta hundruð sinnum á evrópskum flugvöllum undanfarin ár. Þar af hafi vélarnar lent fimmtíu sinnum í Írlandi, en fyrir aðeins nokkrir dagar eru síðan Condoleeza Rice fullyrti að engar vélar á vegum leyniþjónustunnar hefðu lent þar.

Rice viðurkenndi í gær að Bandaríkjamenn hefðu stundað fangaflug í áraraðir, en sagði það með öllu löglegt. Ekki væri verið að flytja fanga sem til stæði að pynta á leynilegum stöðum.

Rice er nú í opinberri heimsókn í Þýskalandi, þar sem hún fundar með Angelu Merkel kanslara og Frank Walter Steinmeyer utanríkisráðherra. Síðar í dag fer Rice svo til Rúmeníu, þar sem leynifangelsin verða væntanlega ofarlega á baugi, þó að það sé henni þvert um geð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×