Erlent

Tillögu Breta illa tekið

Vilja skera niður. Tony Blair og Gordon Brown vilja skera niður útgjöld ESB en tillagan hefur hlotið kaldar móttökur.
Vilja skera niður. Tony Blair og Gordon Brown vilja skera niður útgjöld ESB en tillagan hefur hlotið kaldar móttökur.

Það hitnaði í kolunum í fjárlagadeilu Evrópusambandsins er breska stjórnin, sem fer nú með formennskuna í sambandinu, lagði fram tillögu sína að fjárhagsáætlun þess fyrir tímabilið 2007-2013. Samkvæmt tillögunni á að skera útgjöld úr sameiginlegum sjóðum sambandsins niður um 24 milljarða evra, andvirði um 1.800 milljarða króna.

Með því myndu einnig styrkir til nýjustu og fátækustu aðildarríkjanna minnka umtalsvert. Í því skyni að afla fylgis við tillöguna bjóðast Bretar til að all­stór hluti falli niður af umdeildum endurgreiðslum sem þeir fá úr sjóðum ESB samkvæmt samkomulagi sem Margaret Thatcher gerði árið 1984.

Jose Manuel Barroso, forseti framkvæmdastjórnar ESB, var fljótur að dæma tillöguna ónothæfa. Neikvæð viðbrögð við tillögunni komu líka frá ráðamönnum í Póllandi og fleiri nýju aðildarríkjunum, auk ríkisstjórnar Frakklands og fleiri eldri aðildarríkjanna. Anders Fogh Rasmussen, forsætisráðherra Danmerkur, sagði í gær að samkvæmt tillögunni ætti að taka fé frá hinum fátækustu og færa þeim ríkustu. Til stendur að gert verði út um deiluna á leiðtogafundi ESB í lok næstu viku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×