Erlent

Mannskæður dagur í Írak

Að minnsta kosti fjörutíu manns féllu í sjálfsmorðsárás í Írak í dag. Sjálfsmorðsárásum virðist ekki ætla að linna í landinu en samtökin al-Qaida hafa sagt að þannig verði það, uns Bandaríkjamenn séu á bak og burt og samtökin hafi náð völdum í landinu.

Að minnsta kosti fjörtíu manns létust og yfir sjötíu særðust í sjálfsmorðsárás í lögregluskóla í Írak í morgun. Tvær konur gengu inn í skólastofu í skólanum hlaðnar sprengiefni og sprengdu sig í loft upp með fyrrgreindum afleiðingum. Þá slösuðust yfir þrjátíu í árásinni.

Engir Bandaríkjamenn voru inni í skólanum þegar árásin var gerð en um er að ræða eina mannskæðustu árás í Írak í meira en mánuð. Engin samtök hafa lýst yfir ábyrgð á verknaðinum en talið er víst að Al Qaida hafi átt hlut að máli.

Árásum virðist ekki ætla að linna í landinu en höfuðpaurar samtakanna hafa þó fullyrt að árásum muni ekki linna fyrr en samtökin hafa náð yfirráðum í landinu og Bandaríkjamenn eru á bak og burt. Þangað til muni bandarískir hermenn sem og samstarfsmenn þeirra í landinu verða aðal skotmörk Al Qaida.

Yfir 2100 bandarískir hermenn hafa fallið frá því Bandaríkin ruddust inn í landið árið 2003 og hefur Donald Rumsfeld, varnarmálaráðherra landsins sagt, að góð tíu til tólf ár muni taka að koma lífi í eðlilegt horf á ný. Þá hefur George Bush, Bandaríkjaforseti sagt, að herinn fari ekki fyrr en Írakar hafi náð stjórninni sjálfir. Ekki hafa fengist tölur um hversu margir Írakar hafa fallið á undanförnum tveimur árum vegna stríðsins í landinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×