Erlent

Rice viðurkennir mistök

Rice og Merkel. Á svip gestsins og gestgjafans á blaðamannafundi að loknum viðræðum þeirra í Berlín í gær mátti sjá að engin gamanmál voru þar á dagskrá.
Rice og Merkel. Á svip gestsins og gestgjafans á blaðamannafundi að loknum viðræðum þeirra í Berlín í gær mátti sjá að engin gamanmál voru þar á dagskrá.

Condoleezza Rice hóf för sína til fjögurra Evrópulanda í Berlín í gær þar sem hún átti viðræður við Angelu Merkel kanzlara. Rice hét því á fundinum að Bandaríkjastjórn myndi bæta úr þeim mistökum sem henni yrði á í stríðinu gegn hryðjuverkum. Merkel sagðist eftir fundinn vænta þess að leikreglur lýðræðisins væru virtar í baráttunni gegn hryðjuverkahættunni.

Hún lýsti sig ánægða með þau svör sem Rice hefði gefið. Erindi Rice í Berlín var ekki sízt að undirbúa heimsókn nýja kanzlarans í Hvíta húsið sem stendur til að verði af fljótlega. En hvað sem bandaríski utanríkisráðherrann hefði annars óskað sér að ræða við Merkel og aðra evrópska ráðamenn sem hún hittir í vikunni eru það önnur og óþægilegri mál sem hún þarf að svara fyrir; hún fær ekki undan því vikizt að reyna sitt ítrasta til að lágmarka skaðann sem þegar er skeður fyrir ímynd Bandaríkjastjórnar í Evrópu vegna ásakana um að á vegum bandarísku leyniþjónustunnar CIA séu rekin leynifangelsi í Austur-Evrópulöndum þar sem erlendum mönnum, sem grunaðir eru um að vera hryðjuverkamenn eða tengjast hryðjuverkasamtökum, sé haldið föngnum á laun og yfirheyrslur stundaðar yfir þeim.

Ásakanirnar snúa líka að því að í nafni reglna um sérstakt framsal (extraordinary rendition eins og bandarískir ráðamenn kjósa að kalla það) séu slíkir fangar fluttir með leynd landa og heimsálfa á milli - jafnvel til landa þar sem pyntingar á föngum viðgangast - og flugvélarnar sem notaðar séu í þessum tilgangi hafi ótal sinnum farið um lofthelgi og flugvelli bandalagsríkja Bandaríkjanna í Evrópu.

Í hlutverki eldingavara

Þessar ásakanir fengu byr undir báða vængi þegar The Washington Post birti í byrjun nóvember greinar þar sem þær eru hafðar eftir núverandi og fyrrverandi leyniþjónustumönnum frá Bandaríkjunum og fleiri löndum. Þar til Rice lagði upp í Evrópuförina á mánudag hafði enginn háttsettur talsmaður Bandaríkjastjórnar viljað tjá sig meira um málið en að staðfesta hvorki né neita hinum framkomnu ásökunum.

Það má því segja að hún sé nú lent í hlutverki eldingavara sem spennan út af þessum ásökunum afhleðst í. Í ávarpi sem hún flutti við brottförina frá Andrews-herflugvellinum utan við Washington á mánudag reyndi hún sitt bezta til að kveða niður hina harkalegu gagnrýni. Bandaríkin nota ekki lofthelgi né flugvelli neins lands til flutninga á nokkrum fanga ef við höfum ástæðu til að ætla að hann verði pyntaður, sagði hún.

Hún sagði ennfremur að hið svokallaða sérstaka framsal væri lögmætt tæki í baráttunni gegn alþjóðlegri hryðjuverkastarfsemi. Í viðræðum sínum í Berlín í gær ítrekaði hún þá staðhæfingu að bandarísk stjórnvöld virtu öll gildandi lög og alþjóðasamninga í þessari baráttu. Um þá staðhæfingu eru ekki allir Evrópubúar sannfærðir.

Jafnvel þótt efasemdir vaxi um að evrópskir stjórnmálamenn og leyniþjónustumenn hafi ekki verið upplýstir um hið umdeilda fangaflug CIA eru áhyggjur vaxandi meðal ráðamanna Evrópuríkjanna um að það kunni að teljast brot á ákvæðum Mannréttindasáttmála Evrópu og því hafið rannsókn á málinu. Ásakanirnar um meint leynifangelsi hafa einnig hrint af stað rannsókn bæði á vegum Evrópuráðsins og Evrópusambandsins.

Frá Berlín hélt Rice til Rúmeníu í gær, en getgátur hafa verið uppi um að þar hafi eitt hinna meintu leynifangelsa verið að finna. Rúmensk yfirvöld neita því. Næsti viðkomustaður er Kíev í Úkraínu og loks Brussel í Belgíu.

Viðurkennir mistök

Rice ítrekaði í viðræðum sínum í Berlín í gær þá yfirlýsingu sem hún gaf í ávarpinu á mánudag um að Bandaríkjamenn stunduðu ekki pyntingar á föngum og liðu þær ekki. En hún viðurkenndi að mistök ættu sér stað. Þegar og ef mistök gerast leggjum við hart að okkur að bæta úr þeim, sagði hún á blaðamannafundi með Merkel.

Þessi orð hennar voru einkum túlkuð sem viðurkenning á því að CIA hafi orðið á mistök er útsendarar hennar rændu Khaled al-Masri, þýzkum ríkisborgara af líbönskum uppruna, í Makedóníu fyrir tveimur árum og fluttu með leynd til Afganistans þar sem reynt var að þvinga út úr honum upplýsingar. Þegar þeim varð ljóst að þeir hefðu farið mannavillt var al-Masri skilað heim til Þýzkalands svo lítið bar á.

Mannréttindasamtök í Bandaríkjunum ætla fyrir hans hönd í mál við CIA. Á fundinum lét Merkel ekki í ljósi neina gagnrýni á Bandaríkjastjórn og hvorki hún né Rice létu nokkuð uppi sem varpað gæti ljósi á hvað hæft væri í ásökununum um leynifangelsi CIA í Evrópu eða hvort fangar hefðu verið fluttir um þýzka flugvelli. Rice gaf í skyn í ávarpi sínu á mánudag að ef eitthvert Evrópuríki skyldi hafa lagt til aðstöðu undir leynifangelsi þá hefði það gerzt með vitund og vilja þarlendra stjórnvalda.

Rice tók fram að það væri undir stjórnvöldum í þessum löndum komið að ákveða hversu mikið af viðkvæmum upplýsingum þau geta birt. Með þessu var Rice greinilega að varpa ábyrgð yfir á evrópska ráðamenn að upplýsa almenning um þær aðferðir sem þeir taka þátt í að beita í hinni alþjóðlegu baráttu gegn hryðjuverkum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×