Fleiri fréttir

Hvetja til kosninga um álver í Helguvík

Ungir jafnaðarmenn á Suðurnesjum hvetja bæjarfulltrúa til að efna til kosninga um fyrirhugað álver í Helguvík og aðrar framkvæmdir tengdar því, eins og raflínur og virkjanir. Þeir halda opinn fund um álverið á miðvikudagskvöldið kl 20.30 á veitingastaðnum Ránni við Hafnargötu í Reykjanesbæ.

Húsnæðisverð hækkar enn

Hækkun á húsnæðisverði var meiri í síðasta mánuði en áætlað var, og mest á landsbyggðinni en þar hækkaði húsnæðisverð um rúm þrjú prósent. Á höfuðborgarsvæðinu hækkaði einbýli um 1,6 prósent en um eitt prósent í fjölbýli. Þetta kemur fram í morgunkorni Greiningar Glitnis en þar segir að vísitala neysluverðs í febrúar hafi hækkað meira en spá bankans gerði ráð fyrir, eða um 0,4 prósent.

Íslensk-indversk lyfjasamvinna

Íslenska lyfjafyrirtækið Invent Farma ehf. hefur í samvinnu við indverska lyfjaframleiðandann Strides Arcolab Ltd. stofnað tvö ný samstarfsfyrirtæki. Annars vegar Domac Laboratories sem mun leggja áherslu á að þróa og selja lyf til sjúkrastofnana á Spáni og í Portúgal, og hins vegar eignarhaldsfélagið Plus Farma á Íslandi sem nýlega festi kaup á lyfjafyrirtækinu Farma Plus í Osló í Noregi. Farma Plus er vaxandi aðili í sölu á lyfjum til sjúkrahúsa á Norðurlöndum.

Jón Ásgeir yfirheyrður í þrjá daga

Hádegishlé er í aðalmeðferð í Baugsmálinu en hún hófst í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun með vitnisburði Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, forstjóra Baugs. Sérstakur ríkissaksóknari reiknar með að yfirheyra Jón Ásgeir í þrjá daga en tekist var á um tilteknar lánveitingar Baugs til Gaums.

Yfirstjórn RÚV við talningu

Enn er á huldu hversu margir starfsmenn Ríkisútvarpsins hafa ákveðið hvort þeir muni hætta störfum þegar stofnunin breytist í opinbert hlutafélag.

Þjóðarsátt um auðlindanýtingu og náttúruvernd

Þjóðarsátt á að nást um auðlindanýtingu og náttúruvernd segja Jón Sigurðsson iðnaðarráðherra og Jónína Bjartmarz umhverfisráðherra en þau kynntu nú fyrir hádegi frumvarp um rannsóknir og nýtingu auðlinda í jörðu. Ráðherrarnir kynntu tvö frumvörp á blaðamannafundi í morgun sem þau munu mæla fyrir á þingi á morgun.

Virkjanaáform í Þjórsá óásættanleg

Náttúruverndarfélagið Sól á Suðurlandi mótmæla harðlega virkjanaáformum Landsvirkjunar í neðri hluta Þjórsár. Í fréttatilkynningu skorar félagið á stjórnvöld að fórna ekki íslenskri náttúru til framkvæmda sem nýtast eiga til mengangi starfsemi. Í tilkynningunni segir að í framhaldi af umræðu um hlýnun jarðar af mannavöldum sé óásættanlegt að fara í slíkar framkvæmdir.

Neysla áfengis dregst saman

Svo virðist sem landsmenn hafi verið heldur hógværari í neyslu áfengis í upphafi þorra í ár, en á síðasta ári. Sala á áfengi dróst saman um tæp 11 prósent á föstu verðlagi á milli janúarmánuða árið 2006 og 2007. Þetta kemur fram í nýjum niðurstöðum rannsóknarseturs verslunarinnar á smásöluvísitölu fyrir janúar 2007. Sé miðað við breytilegt verðlag hefur sala áfengis dregist saman um tæp 6 prósent.

Ný samgönguáætlun kynnt á morgun

Sturla Böðvarsson samgönguráðherra ætlar að kynna samgönguáætlun fyrir árin 2007 til 2018 á Ísafirði á morgun. Stefnt er að því að henni verði dreift á Alþingi síðdegis á morgun. Fundur samgönguráðherra verður í húsnæði Vegagerðarinnar á Ísafirði

Innihald í íslenskum kjötvörum oft á tíðum óljóst

Eftirlit með notkun bindiefna í kjötvörur er lítið hér á landi. Umhverfisstofnun veit ekki hvað helsta bindiefnið í kjötvörum, svokallað tendin, inniheldur. Þetta er á meðal þess sem kemur fram í fréttaskýringaþættinum Kompási í kvöld.

Vígslubiskup harmar atburðina í Breiðuvík

Sigurður Sigurðarson, vígslubiskup í Skálholti, kveðst harma þá atburði sem gerðust í Breiðuvík, en hann starfaði þar um tíma á sjöunda áratugnum. Hann kveðst þó aldrei hafa séð líkamlegu ofbeldi beitt þar en eftir að hann heyrði orðróm um slíkt frá drengjunum hafi hann gengið á fund yfirvalda og hvatt til að heimilinu yrði breytt.

Vill að einhver axli ábyrgð

Það er til skammar fyrir íslensk stjórnmál hvernig allir hlaupa frá Byrgismálinu. Þetta sagði Össur Skarphéðinsson, þingmaður Samfylkingarinnar, í Silfri Egils í dag. Forsætisráðherra sagði mikinn þrýsting hafa verið á stjórnvöld að láta fé í Byrgið og stjórnarandstaðan hefði verið framarlega í flokki.

Verðlaunaður fyrir að bjarga lífi móður sinnar

Átta ára drengur, sem bjargaði lífi móður sinnar síðasta sumar, var í dag valinn skyndihjálparmaður ársins af Rauða krossinum. "Hundrað og tólf" dagurinn er í dag og í ár var hann tileinkaður sjálfboðaliðum.

Aðalmeðferð í Baugsmálinu á morgun

Aðalmeðferð hefst í Baugsmálinu á morgun en alls verða tæplega eitt hundrað vitni kölluð til. Verið er að taka fyrir átján ákæruliði í endurákæru. Það eru þeir Jón Ásgeir Jóhannesson, aðaleigandi Baugs, Tryggvi Jónsson, fyrrverandi forstjóri fyrirtækisins og Jón Gerald Sullenberger, sem nú eru ákærðir.

Fuglar valda óþægindum á Akranesi

Fuglar hafa valdið nokkrum óþægindum í Akraneshöllinni undanfarið. Framkvæmdanefnd mannvirkja Akraneskaupstaðar er nú að leita leiða til að koma í veg fyrir fuglalíf í höllinni. Á vef Skessuhorns er greint frá því að opnar ristar séu á göflum hússins og fuglar hafa átt greiða inngönguleið þar um.

Fjölmenni á baráttufundi í Árnesi

Félagsheimilið í Árnesi er þétt setið en þar stendur nú yfir baráttufundur andstæðinga þriggja virkjana sem áformaðar eru í neðri hluta Þjórsár. Talið er að um fjögur hundruð manns séu á fundinum en meðal fundargesta eru þingmenn, frambjóðendur í kjördæminu og úr öðrum landshlutum, heimafólk og höfuðborgarbúar.

Gangsæjar pípur reistar við Hellisheiðavirkjun

Listahópurinn Norðan Bál átti vinningstillöguna í samkeppni Orkuveitu Reykjavíkur um útilistaverk við Hellisheiðarvirkjun. Hugmynd þeirra felur í sér að reistar verða sverar gagnsæjar pípur framan við stöðvarhúsið. Gufa og litað ljós leika svo um þær og gefa þær jafnframt frá sér djúpa tóna.

Drengur sem bjargaði lífi móður sinar skyndihjálparmaður ársins

Egill Vagn, átta ára drengur sem bjargaði lífi móður sinnar síðasta sumar, var í dag valinn skyndihjálparmaður ársins af Rauða krossinum. Egill Vagn brást fljótt við þegar móðir hans missti meðvitund vegna bráðaofnæmis. Hann sótti adrenalínpenna í veski móður sinnar, sprautaði hana í handlegginn og hringdi síðan í neyðarlínuna eftir hjálp.

Baráttufundur gegn virkjunum í Þjórsá í dag

Andstæðingar þriggja virkjana, sem áformaðar eru í neðri hluta Þjórsár, boða til baráttufundar gegn þeim í félagsheimilinu Árnesi í dag. Nær engin andstaða var gegn þessum virkjunum þegar þær fóru í gegnum umhverfismat fyrir þremur árum.

Gerð Helgafellsbrautar hitamál

Gerð Helgafellsbrautar er orðið mikið hitamál hjá íbúum í Mosfellsbæ og sást það glöggt á opnum fundi Varmársamtakanna í gær. Samtökin telja marga þætti ekki hafa verið skoðaða nógu vel og vilja að hætt verði við framkvæmdirnar. Bærinn ætlar að halda opinn fund um málið í næstu viku.

Ósáttir við lögreglumann og sprengdu upp flugeld

Lögreglan telur ekki tilviljun að flugeldur hafi verið sprengdur upp við heimili lögregluþjóns á Skagaströnd í nótt. Lítið tjón var af spengingunni sem var við dyr hússins. Kristján Þorbjörnsson, yfirlögregluþjónn á Blönduósi, segir lögregluþjóninn hafa haft afskipti af vélhjólamönnum á svæðinu og telur lögreglan sprenginguna eins konar svar við því.

Samfylking og Vinstri-grænir gætu myndað ríkisstjórn

Jón Sigurðsson, formaður Framsóknarflokksins, segist ekki geta tekið mark á skoðanakönnun Fréttablaðsins um fylgi stjórnmálaflokkanna sem birt var í dag en könnunin sýnir flokkinn með 3,9% fylgi. Samkvæmt könnuninni geta Samfylkingin og Vinstri-grænir myndað ríkisstjórn ef gengið yrði til kosninga nú.

112 dagurinn helgaður sjálfboðaliðum

Í dag er 112 dagurinn og af því tilefni verður fjölbreytt dagskrá víða um land á vegum viðbragðsaðila í björgun og almannavörnum. Á hádegi lagði 112 lestin af stað frá Skógarhlíð en á bilinu þrjátíu til fjörtíu bílar lögreglu, slökkviliðs og björgunarsveita eru í lestinni, auk þyrlu Landhelgisgæslunnar sem flýgur með.

Skipverjar á Castor Star fá launin greidd

Góðar líkur eru á að uppskipun úr flutningaskipinu Castor Star sem stendur við Grundartangahöfn geti hafist á ný á morgun. Samkomulag náðist í gær við útgerðina um greiða skipverjum laun sem þeir hafa ekki fengið greidd síðan í september.

Á 106 kílómetra hraða þar sem 50 kílómetra hraði er leyfður

Ökumaður var tekinn í gærkvöldi á 106 kílómetra hraða á Drottningarbraut við Kaupvangsstræti á Akureyri en þar er hámarkshraði 50 kílómetrar á klukkustund. Mikil hálka var á götum bæjarins og þegar ökumaðurinn var inntur eftir skýringu á háttalagi sínu, sagðist hann hafa ætlað að ná yfir gatnamótin á grænu ljósi.

Bílskúrsbruni á Akranesi

Tilkynnt var um bruna í bílskúr á Akranesi um klukkan hálfníu í gærkvöldi og var bílskúrinn alelda þegar slökkviliðið kom á vettvang. Greiðlega tókst að slökkva eldinn og nærliggjandi hús voru ekki í hættu. Rannsókn er á frumstigi en grunur leikur á að kviknað hafi í út frá rafmagnsofni.

Erill hjá lögreglunni í nótt

Mikill erill lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í nótt og var töluverð ölvun í borginni. Yfir eitt hundrað tilkynningar bárust lögreglunni meðal annars vegna tveggja líkamsárása.

Alþjóðlegt háskólasetur á Keflavíkurflugvelli

Stórir aðilar á sviði fjárfestinga og stórframkvæmda standa saman að því að koma upp alþjóðlegu háskólasetri á Keflavíkurflugvelli. Meðal þess sem á að heilla erlenda námsmenn er sérþekking Íslendinga í nýtingu vistvænnar orku.

Tímaspursmál hvenær ljósabekkir verða bannaðir

Tímaspursmál er talið hvenær öll notkun ljósabekkja á landinu verður bönnuð, segir læknir. Hið opinbera vinnur nú markvisst að því að útrýma ljósabekkjum í húsnæði sveitarfélaga.

Sea Sheperd enn við sama heygarðshornið

Reyna á til þrautar að höggva á hnútinn í Alþjóða hvalveiðiráðinu á ráðstefnu sem fram fer í Japan í næstu viku en formaður íslensku sendinefndarinnar er svartsýnn á að hún skili árangri. Liðsmenn Sea Sheperd-samtakanna réðust á japanskt hvalveiðiskip í Suðurhöfum í gær.

Davíð segir að krónan verði áfram gjaldmiðill Íslendinga

Krónan verður gjaldmiðill Íslendinga næsta áratuginn hið minnsta, segir Davíð Oddsson seðlabankastjóri. Hann segir tal um að taka upp evru án þess að vera í Evrópusambandinu vera æfingar sem ekki séu boðlegar til að hafa uppi á borðinu.

Kannað hvort framleiða eigi snjó í Bláfjöllum

Verið er að skoða möguleika á snjóframleiðslu á skíðasvæði höfuðborgarbúa í Bláfjöllum. Borgarráð ætlar jafnframt að kanna hagkvæmni þess að hafin verði snjóframleiðsla á skíðasvæðinu í Skálafelli. Með því að setja upp snjóframleiðslukerfi væri hægt að fjölga notkunardögum skíðasvæðanna en snjóleysi hefur fækkað opnunardögum.

Nafn mannsins sem lést í Stokkhólmi

Maðurinn, sem lést í eldsvoða í Stokkhólmi aðfaranótt fimmtudagsins, hét Hlynur Heiðberg Konráðsson. Hann var búsettur í Reykjavík og var þrjátíu og þriggja ára að aldri. Hann lætur eftir sig sex ára gamlan son hér á landi og íslenska unnustu sem býr í Danmörku.

Seglhjól á Tjörninni

Fallegt veður hefur verið í höfuðborginni í dag og margir notið þess. Á Tjörninni í Reykjavík nýttu nokkrir sér svellið sem þar er til að æfa sig á svokölluðum seglhjólum.

112 dagurinn á morgun

Á morgun er 112 dagurinn og verður þá fjölbreytt dagskrá um allt land á vegum viðbragðsaðila í björgun og almannavörnum. Í ár er dagurinn helgaður störfum sjálfboðaliða. Á hádegi leggur 112 lestin af stað frá Skógarhlíð en á bilinu 30 til 40 bílar lögreglu, slökkviliðs og björgunarsveita verða í lestinni, auk þyrlu Landhelgisgæslunnar.

Féll af hestbaki

Flytja þurfti konu á slysadeild eftir að hún féll af hestbaki á Blikastaðarnesi í Mosfellsbæ fyrr í dag. Hjálmur sem konan var með kom í veg fyrir að ekki fór verr en hún fékk heilhristing og áverka á andlit.

Lögreglumaður stakk af

Ekið var á snjósleða íbúa eins á Seyðisfirði fyrir stuttu þar sem hann stóð fyrir utan hús hans. Á vef Austurgluggans er sagt frá því að eigandi sleðans hafi orðið vitni atvikinu.

Vélarvana bátur kominn til hafnar á Skagaströnd

Afi Aggi EA-399 er kominn til hafnar á Skagaströnd en báturinn varð vélarvana norður af Drangaskörðum í nótt. Tveir menn voru um borð og sakaði þá ekki. Björgunarbáturinn Húnabjörg sótti bátinn og gekk ferðin aftur í land vel.

Tvö ár í að búið verði að stöðva uppreisnir

Sveitir Atlantshafsbandalagsins verða búnar að stöðva uppreisnir skæruliða í Afganistan árið 2009 og stjórn Hamid Karzai, forseta landsins, verður fær um að stjórna landinu sjálf. Þetta sagði Jaap de Hoop Scheffer, framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins, í dag.

Geir sigraði með miklum yfirburðum

Geir Þorsteinsson var í dag kjörinn nýr formaður KSÍ. Geir hlaut yfirburðakosningu í kjörinu eða alls 86 atkvæði. Jafet Ólafsson hlaut 29 atkvæði en Halla Gunnarsdóttir hlaut 3 atkvæði. Geir tekur við starfi formanns af Eggerti Magnússyni, sem nú stígur af stóli eftir 18 ára langa setu.

Sjá næstu 50 fréttir