Innlent

Skipverjar á Castor Star fá launin greidd

Góðar líkur eru á að uppskipun úr flutningaskipinu Castor Star sem stendur við Grundartangahöfn geti hafist á ný á morgun. Samkomulag náðist í gær við útgerðina um greiða skipverjum laun sem þeir hafa ekki fengið greidd síðan í september.

Eftir á að skrifa undir samninginn en það verður að öllum líkindum gert í dag eða á morgun. Birgir Hólm Björgvinsson, framkvæmdastjóri Sjómannafélagins, sagði í samtali við fréttastofu að jafnframt verði greitt far heim fyrir flesta skipverjana. Þeir eiga aðeins eftir mánuð af ráðningartíma sínum og hafa óskað eftir því að fá að hætta strax. Önnur áhöfn á vegum skipafélagsins tekur því við.

Það var á miðvikudaginn sem skipið kom til Grundartanga með súrál. Eftirlitsmaður frá Sjómannafélagi Íslands kannaði aðbúnað um borð og sögðu skipverjarnir honum þá að þeir hefðu engin laun fengið síðan í september auk þess sem matur væri af skornum skammti. Sjómannafélag Íslands og Alþjóðaflutningasambandið stöðvuðu því uppskipun á fimmtudaginn þá voru enn eftir um átta tonn af súráli í skipinu.

Skipið er í eigu grísk útgerðarmanns og siglir undir fána Panama. Áhöfnina skipa um tuttugu manns frá Úkraínu og Georgíu.

Áhafnarmeðlimir skrifuðu undir bréf þar sem þeir veittu Sjómannafélagi Íslands umboð til að sjá viðræður við útgerðina. Fulltrúar Sjómannafélagsins hafa því síðustu daga rætt við fulltrúa útgerðarinnar sem kom hingað til lands vegna málsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×