Fleiri fréttir

Flokkurinn þarf að kynna sín góðu verk

Samúel Örn Erlingsson íþróttafréttamaður fékk langflest atkvæði í annað sætið á lista Framsóknarflokksins í Suðvesturkjördæmi í dag. Samúel segir flokkinn þurfa að kynna betur sín góðu verk. Siv Friðleifsdóttir heilbrigðisráðherra var sjálfkjörin í forystusætið.

Hjúkrunarfræðingaskortur á næstu árum

Um 40% allra starfandi hjúkrunarfræðinga láta af störfum vegna aldurs á næstu 10-15 árum og ef takast á að manna stéttina þarf að fjölga nýnemum í hjúkrunarfræði. Þetta kemur fram í ályktun Hjúkrunarþings sem lauk í gær.

Samúel Örn í 2. sæti í Kraganum

Samúel Örn Erlingsson íþróttafréttamaður fékk langflest atkvæði í annað sætið á lista Framsóknarflokksins í Suðvesturkjördæmi á aukakjördæmisþingi framsóknarfélaganna á Seltjarnarnesi nú fyrir hádegi. Una María Óskarsdóttir verður í þriðja sæti eins og fyrir síðustu kosningar og Gísli Tryggvason í því fjórða.

Sjaldgæfur fundur trúarleiðtoga

Leiðtogi rússnesku rétttrúnaðarkirkjunnar, Christodoulos erkibiskup, ætlar að hitta Benedikt sextánda páfa í Vatikaninu þann 14. desember næstkomandi. Slíkur fundur er fátíður enda hafa löngum verið litlir kærleikar með kirkjunum tveimur. Christodoulos ætlaði fyrir þremur árum að funda með Jóhannesi Páli II sem þá var páfi en þeim fundi var aflýst vegna veikinda páfa.

Fjórir létust í rútuslysi við Skövde í Svíþjóð

Fjórir létust í hörðum árekstri rútu og rútukálfs í Svalöv, rétt við Skövde í Svíþjóð í kvöld og 13 ára drengur slasaðist. Flughált var á veginum eftir miklar rigningar í dag og frost undir kvöldið. Drengnum er haldið sofandi og gekkst hann undir aðgerð vegna lærbrots.

Rússar falla frá kröfum um veiðieftirlitsmenn í togurum

Íslenskir togarar í Barentshafi, sem og togarar undir öðrum þjóðum, þurfa ekki að hafa rússneska veiðieftirlitsmenn um borð við veiðar, eins og Rússar höfðu krafist. Fréttavefurinn skip.is greinir frá því að Rússar hafi fallið frá þessari kröfu sinni í viðræðum norsk-rússnesku fiskveiðinefndarinnar í dag.

Keyrði á og stakk af á móti rauðu ljósi

Fólksbíll keyrði á annan á mótum Kringlumýrarbrautar og Háaleitisbrautar á áttunda tímanum í kvöld en stakk af frá verknaðinum. Kórónaði hann brotið með því að stinga af gegn rauðu ljósi. Enginn slasaðist en málið er samt sem áður litið alvarlegum augum og er í rannsókn hjá umferðardeild lögreglunnar. Vitni eru beðin um að hafa samband við lögregluna.

Sporhundur fann bílaþjóf inni í loftræstistokki

Sporhundur lögreglunnar í Reykjavík fann bílaþjóf í hnipri inni í loftræstistokki í nýbyggingu í Borgartúni eftir mikinn eltingarleik í kvöld. Maður á þrítugsaldri hafði stolið jeppa í Árbæ í vikunni og notað debetkort sem hann fann í bílnum. Næst fréttist af jeppanum þegar honum var keyrt aftan á leigubíl á Háteigsvegi í kvöld.

626 kusu utankjörfundar hjá Samfylkingu í Suðurkjördæmi

626 höfðu kosið í utankjörfundaratkvæðagreiðslu í opnu prófkjöri Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi þegar kjörstöðum var lokað klukkan 20 í kvöld. Kjörfundur opnar klukkan níu í fyrramálið og er prófkjörið opið öllum sem kosningabærir eru í kjördæminu, ekki er skylda að vera skráður í flokkinn.

Neyðarkall fær góðar viðtökur

Neyðarkall björgunarsveita Landsbjargar hefur fengið prýðisgóðar undirtektir á fyrsta degi fjársöfnunarinnar. Í Kringlunni tók fólk vel á móti litla bjargvættinum enda kostar hann bara eitt þúsund krónur, sem renna til góðs málefnis. Landsbjargarmenn telja að þegar hafi selst hátt í 10 þúsund neyðarkallar, sem er rúmur þriðjungur af upplaginu.

Oddsskarð opnar á morgun

Stefnt er á að opna skíðasvæðið í Oddsskarði á morgun. Stóra lyftan verður opin frá 11:00 til 15:00 ef veður og aðstæður leyfa. Ókeypis verður í lyftuna á morgun í tilefni af því að skíðasvæðið hefur aldrei fyrr opnað jafn snemma vetrar. Veðurspáin lofar góðu fyrir skíðafólk fyrir austan um miðjan dag á morgun.

Ganga gegn nauðgunum á miðnætti annað kvöld

Jafningjafræðslan stendur fyrir hópgöngu niður Laugaveginn á miðnætti á aðfaranótt sunnudags nk. til að mótmæla nauðgunum og vekja athygli á baráttu samtakanna gegn kynferðislegu ofbeldi. Bifhjólasamtökin Sniglarnir munu einnig slást í för með Jafningjafræðslunni.

Maður handtekinn á Akureyri vegna kynferðislegs ofbeldis við 10 ára telpu

Lögreglan á Akureyri handtók mann á vinnustað sínum fyrr í vikunni sem hafði beitt tíu ára telpu kynferðislegu ofbeldi. Maðurinn hefur áður komist í kast við lögin. Telpan sagði mömmu sinni fyrir nokkrum dögum að maður hefði ítrekað átt við sig kynferðislega. Lögregla og barnayfirvöld voru samstundis látin vita og hafa fulltrúar Barnahúss rætt við telpuna.

Hjálparhella Íslendinga bendluð við peningaþvætti

Hjálparhella íslenskra kaupsýslumanna í Danmörku, danski lögmaðurinn Jeff Galmond, og rússneski fjarskiptaráðherrann eru í aðalhlutverki fréttaskýringar Ekstrablaðsins danska í dag um íslensku útrásina.

Stefna að álveri í Þorlákshöfn

Sveitarfélagið Ölfus hefur veitt vilyrði fyrir lóð undir áltæknigarð og álver vestan við Þorlákshöfn. Orkumagnið sem þetta tvennt krefst er jafnmikið og helmingsframleiðslugeta Kárahnjúkavirkjunar.

EGO fær viðurkenningu Orkuseturs fyrir að stuðla að eldsneytissparnaði

EGO sjálfsafgreiðslustöðvar hljóta viðurkenningu Orkuseturs fyrir að draga úr eldsneytisnotkun með því að bjóða ökumönnum tölvustýrða mælingu og loftjöfnun á hjólbörðum bifreiða. Orkusetur áætlar að með bættri jöfnun lofts í hjólbörðum mætti spara Íslendingum um 500 milljónir króna á ári og minnka útblástur gróðurhúsalofttegunda um 12 þúsund tonn.

Spá hruni flestra fiskistofna innan 50 ára

Hópur erlendra sérfræðinga spáir því að allir fiskistofnar heimsins hrynji innan fimmtíu ára verði ekkert að gert. Þeir segja að nú þegar hafi um 30 prósent nytjastofna hafsins hrunið. Forstjóri Hafrannsóknastofnunarinnar segir enga vá blasa við íslenskum fiskistofnum en auka verði skipulagða fiskveiðistjórnun í heiminum.

300 milljón króna niðurskurður til verknáms

Þingmenn stjórnarandstöðunnar saka stjórnarmeirihlutann um að svelta iðnnám í landinu með 300 milljón króna niðurskurði í fjárlögum næsta árs. Stjórnarþingmenn segja unnið að leiðréttingu málsins í sátt og segja stjórnarandstöðuna með upphlaup að óþörfu.

Lögreglan varar við gylliboðum um vel launuð sölustörf

Ríkislögreglustjóri varar við gylliboðum um atvinnu sem auglýst eru víða á netsíðum um þessar mundir. Fólk sem telur sig vera að ráða sig til markaðsverkefna eða sölustarfa hefur setið eftir með sárt ennið þegar upp kemst að bankareikningar þeirra voru notaðir til peningaþvættis og auðgunarbrota. Grandalaust fólk situr uppi með reikninginn.

Lögregla lýsir eftir karlmanni

Lögreglan í Reykjavík lýsir eftir Kristófer Erni Sigurðarsyni til heimilis að Logafold 141 í Reykjavík. Hann er um 185 sm á hæð með stutt, skolleitt hár. Kristófer var klæddur í bláar gallabuxur, ljósbláa rúllukragapeysu, svartan teinóttan jakka og svört kúrekastígvél.

Skákmaraþon Hrafns gengur vel

Hrafn Jökulsson, formaður skákfélagsins Hróksins, hefur nú teflt 70 skákir í skákmaraþoni sínu sem fram fer í Kringlunni. Hrafn hóf maraþonið klukkan níu í morgun og hyggst tefla í 40 klukkustundir eða eins langan tíma og það tekur að tefla 250 skákir. Með þessu er hann að safna fé fyrir starfi Hróksins á Grænlandi og hefur sparibauk verið komið fyrir í Kringlunni.

Ferðastyrkur framvegis til tveggja fylgdarmanna barna

Ferðastyrkur verður framvegis greiddur fyrir tvo fylgdarmenn en ekki einn þegar barn er sent utan í sjúkdómsmeðferð eftir breytingar á reglugerð sem Siv Friðleifsdóttir heilbrigðisráðherra undirritaði í dag. Um leið kynnti ráðherrann breytingarnar fyrir fulltrúum Sjónarhóls og Umhyggju, félags sem vinnur að bættum hag sjúkra barna og fjölskyldna þeirra.

Kynnir uppbyggingu hjúkrunarrýma eftir kjördæmisþing

Siv Friðleifsdóttir, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, kynnir á morgun uppbyggingu hjúkrunarrýma á næstu fjórum árum á blaðamannafundi í Félagsheimili Seltjarnarness klukkan 14. Fyrr um daginn heldur Framsóknarflokkurinn aukakjördæmisþing á sama stað þar sem líklegt er að framsóknarmenn stilli Siv upp til forystu á lista flokksins í Suðvesturkjördæmi.

Tundurdufl í trolli togara gert óvirkt

Sprengjusérfræðingar Landhelgisgælsunnar hafa gert tundurdufl sem fyrstitogarinn Kleifarberg frá Ólafsfirði fékk í trollið í nótt óvirkt. Fram kemur í tilkynningu frá Landhelgisgæslunni að tundurduflið hafi komið í trollið hjá Kleifarberginu þegar togarinn var staddur um 40 sjómílur norður af Straumnesi um klukkan fjögur í nótt.

Vægi Íslands eykst í Norðurlandaráði

Norðurlandaráð og Vestnorræna ráðið ætla í sameiningu að gera Norðurskautssvæðið og Vestur-Norðurlönd að sýningarglugga, til að vekja athygli á loftslagsbreytingum.

Fjölmiðlafrumvarpi vísað til annarrar umræðu

Fyrstu umræðu um fjölmiðlafrumvarp menntamálaráðherra lauk á Alþingi um klukkan tvö í dag. Samþykkt var að vísa því til annarrar umræðu og menntamálanefndar með 32 samhljóða atkvæðum en 31 þingmaður var fjarstadddur.

Sameiginleg kynning á norrænum mat

Norræn matvæli verða í sviðsljósinu í verkefni sem Norræna ráðherranefndin er að hleypa af stokkunum. Markmiðið er að breiða út þekkingu á hráefnum og tilbúnum matvælum frá Norðurlöndum á matar- og ferðaþjónustumarkaði.

Níu mánaða fangelsi fyrir þjófnað

Kona var í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag dæmd í níu mánaða fangelsi fyrir þjófnað í heimahúsi, en með brotinu rauf hún skilorð. Konan var ákærð bæði fyrir þjófnað í verslun Europris í Reykjavík i nóvember í fyrra og fyrir að hafa farið inn hús í miðbænum á Þorláksmessu í fyrra og reynt að hafa þaðan á brott fatnað, matvæli og jólagjafir:

Nýr yfirmaður skipulagsmála Reykjavíkur

Birgir Hlynur Sigurðsson skipulagsfræðingur, hefur verið ráðinn sviðsstjóri Skipulags- og byggingarsviðs Reykjavíkurborgar. Birgir Hlynur hefur verið skipulagsstjóri Kópavogsbæjar allar götur frá haustinu 1988. Hann hóf störf þann 6. október sl. Hann er landfræðingur og skipulagsfræðingur að mennt með masterspróf í byggða- og borgarskipulagi frá The University of Liverpool. Áður var hann deildarstjóri á borgarskipulagi Reykjavíkurborgar, 1985 til 1988.

Osta- og smjörsalan áfrýjar úrskurði Samkeppniseftirlitsins

Osta- og smjörsalan hefur ákveðið að áfrýja úrskurði Samkeppniseftirlitsins frá því um miðjan október þess efnis að fyrirtækið hafi brotið gegn samkeppnislögum með því að láta Mjólku greiða hærra verð fyrir undanrennuduft en annan viðskiptavin. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Osta- og smjörsölunni.

Gjald í Framkvæmdasjóð aldraða hækki um tæp fjögur prósent

Heibrigðisráðherra hefur lagt fram frumvarp á Alþingi um hækkun á gjaldi í Framkvæmdasjóð aldraðra úr 6.075 krónum í 6.314. Hækkunin nemur um fjórum prósentum og segir í athugasemdum með frumvarpinu að hún sé vegna verðlagsbreytinga á tímabilinu desember 2004 til desember í fyrra, en þá hafi byggingarvísitalan hækkað um tæp fjögur prósent.

Rændi gínu til að bæta fyrir kvenmannsleysi

Þau eru misjöfn verkefnin sem lögregla fæst við og þeir þjófar sem hún hefur afskipti af misörvæntingarfullir. Þannig var karlmaður á fimmtugsaldri handtekinn í gær eftir að hann hafði haft gínu úr verslun á brott með sér.

Sjá næstu 50 fréttir