Innlent

300 milljón króna niðurskurður til verknáms

Þingmenn stjórnarandstöðunnar saka stjórnarmeirihlutann um að svelta iðnnám í landinu með 300 milljón króna niðurskurði í fjárlögum næsta árs. Stjórnarþingmenn segja unnið að leiðréttingu málsins í sátt og segja stjórnarandstöðuna með upphlaup að óþörfu.

Jón Bjarnason þingmaður Vinstri grænna vakti athygli á bréfi til þingmanna í Norðvesturkjördæmi frá kennurum í verknámsdeildum framhaldsskólanna í kjördæminu. Þar er athygli þingmanna vakin á því að í fjárlagafrumvarpi fyrir næsta ár sé framlag til verkmenntunar skorið niður um 300 milljónir króna og afleiðingum þess. Jón skoraði á meirihlutann á Alþingi að leiðrétta þetta mál, svo ekki þyrfti að koma til stórfells niðurskurðar í verknámi og þá sérstaklega á landsbyggðinni.

Málið var til umræðu á sameiginlegum fundi fjárlaga- og menntamálanefndar á Alþingi í morgun og taldi Einar Oddur Kristjánsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, að stjórnarandstöðuþingmenn væru að fleyta pólitískar kellingar með málflutningi sínum. Hann sagði að Jóni Bjarnasyni væri full kunnugt að málið væri til afgreiðslu í fjárlaganefnd og þar væri full samstaða um að ná fram breytingum skólunum til framdráttar. Hann lýsti því furðu sinni á því sem hann kallaði uppákomu stjórnarandstöðunnar.

Þingmenn stjórnarandstöðu töldu fulla ástæðu til að ræða málið enda væri gert ráð fyrir niðurskurðinum í fjárlögum.Steingrímur J Sigfússon, formaður Vinstri gærnna, sagði furðulegt ef ekki mætti ræða slík mál á Alþingi. Hann sagði metnaðarleysi stjórnarliða dæmalaust. Það væri verið að svelta verknámið í landinu á sama tíma og menn hefðu uppi fögur orð um að efla verknámsstigið í framhaldsskólunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×