Innlent

Sporhundur fann bílaþjóf inni í loftræstistokki

Sporhundur Lögreglunnar í Reykjavík kom að góðum notum í kvöld.
Sporhundur Lögreglunnar í Reykjavík kom að góðum notum í kvöld. MYND/Hrönn Axelsdóttir

Sporhundur lögreglunnar í Reykjavík fann bílaþjóf í hnipri inni í loftræstistokki í nýbyggingu í Borgartúni eftir mikinn eltingarleik í kvöld. Maður á þrítugsaldri hafði stolið jeppa í Árbæ í vikunni og notað debetkort sem hann fann í bílnum. Næst fréttist af jeppanum þegar honum var keyrt aftan á leigubíl á Háteigsvegi í kvöld.

Í millitíðinni hafði þjófurinn stolið skráningarplötum af bíl sem stóð fyrir utan bílasölu í borginni. Maðurinn sem var á ferðinni í kvöld á stolnum jeppa með stolnum númerum hefur áður komist í kast við lögin.

Leigubílstjórinn veitti manninum eftirför og lét vita af því að hann hafi hlaupið inn í nýbyggingu KB banka í Borgartúni. Þar var úr vöndu að ráða enda kolniðamyrkur inni í byggingunni og engin leið að vita hvert þjófurinn hefði farið. Þar kom sporhundur að góðum notum því hann þefaði uppi nýjustu slóðina inn í húsið og fann manninn sem fyrr segir í hnipri inni í loftræstistokki niðri í kjallara.

Heppni var að sporhundur var á vakt í kvöld því varðstjóri segir að þjófurinn hefði aldrei fundist öðru vísi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×