Innlent

Spá hruni flestra fiskistofna innan 50 ára

Hópur erlendra sérfræðinga spáir því að allir fiskistofnar heimsins hrynji innan fimmtíu ára verði ekkert að gert. Þeir segja að nú þegar hafi um 30 prósent nytjastofna hafsins hrunið. Forstjóri Hafrannsóknastofnunarinnar segir enga vá blasa við íslenskum fiskistofnum en auka verði skipulagða fiskveiðistjórnun í heiminum.

Sérfræðingarnir segja ástæður fyrir hruni fiskistofna vera minni fjölbreytileika nytjategunda í hafinu, meiri mengun og ofveiði. Niðurstöður vísindamannanna eru birtar í vísindatímaritinu Science sem kom út í dag. Hópur vistfræðinga og hagfræðinga annaðist rannsóknina sem stóð yfir í fjögur ár og byggir á gögnum víðs vegar að úr heiminum.

Jóhann Sigurjónsson, forstjóri Hafrannsóknarstofnunarinnar, segir að skoða beri allar svona rannsóknir, en hefur ekki miklar áhyggjur af Íslandsmiðum. Hann segir Íslendinga sjálfa hafa mest um það að segja hverning til tækist með uppbyggingu nytjastofna á Íslandsmiðum. Sjórinn við Ísland væri tiltölulega hreinn og vel hefði tekist til við fiskveiðistjórnun á flestum sviðum. Hins vegar gengi ver að eiga við stjórnun fiskveiða þar sem margar þjóðir koma að málum, eins og t.d. við Norður-Atlantshaf.

Jóhann segir að þótt Íslendingar standi nokkuð vel, megi gera mun betur í stjórnun fiskveiða í heiminum. Það sé mjög mikilvægt að Íslensk stjórnvöld töluðu fyrir eflingu fiskveiðistjórnunar á alþjóðavettvangi. Það að aðrar þjóðir væru með fiskveiðistjórnunina í ólagi sverti ímynd fiskveiða almennt. Ástand fiskistofna væri hins vegar jafn misjafnt og þeir væru margir í heiminum.

Eitt af því sem alþjóðlegi vísindamannahópurinn mælir með til að sporna gegn vandanum er að auka friðun hafsvæða fyrir veiðum. Jóhann segir að íslensk rannsókn á þessu bendi til að til að ná árangri með friðun svæða, þurfi að friða mjög stór svæði. Mun vænlegra sé að stýra veiðunum með skynsömum hætti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×