Fleiri fréttir

Rannsóknardeildin réð úrslitum

Lögreglan á Akranesi verður lykilembætti á Vesturlandi samkvæmt ákvörðun Björns Bjarnasonar dómsmálaráðherra en ekki Borgarnes eins og nefnd sem gerði tillögur um fækkun lögregluumdæma gerði tillögu um. Björn segir helstu ástæðuna þá að rannsókn lögreglumála sé eitt af stærstu verkefnum lykilembætta og mikil og góð reynsla sé af rannsóknastarfi á Akranesi.

Vilja ekki eitt landsfélag sjómanna

Félagar í Sjómannadeild AFLs, starfsgreinafélags Austurlands, höfnuðu hugmyndum um sameiningu sjómanna í eitt landsfélag á aðalfundi sínum síðasta fimmtudag.

Hættan minni í Sorpu en talið var

Betur fór en á horfðist þegar mikinn reyk lagði frá eimingarpotti í efnamóttöku Sorpu á aðalvinnslusvæði fyrirtækisins í Gufunesi á tíunda tímanum. Allt tiltækt slökkvilið á höfuðborgarsvæðinu var kallað út. Ljóst er að illa hefði getað farið þar sem ýmis hættuleg efni eru meðhöndluð í efnamóttökunni og því var viðbúnaður slökkviliðs þetta mikill. Engan starfsmann sakaði og tjón er talið það lítið að starfsemi verður líklega haldið áfram síðar í dag.

Neiti orkukaupum frá Norðlingaölduveitu

Náttúruverndarsamtök Íslands vilja að Alcan lýsi því yfir að fyrirtækið muni ekki kaupa orku frá Norðlingaölduveitu í Þjórsárverum. Með þessu geti fyrirtækið lagt sitt af mörkum til náttúruverndar á Íslandi segir í áskorun samtakanna til Alcan.

Víða er flughált

Ófært er um Dynjandis- og Hrafnseyrarheiðar og flughált í Gufudal, á Klettshálsi Kleyfarheiði og á milli Patreksfjarðar og Bíldudals samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni. Flughált er einnig á Eyjarfjalli, Steingrímsheiði og Lágheiði.

Eldur í efnamóttöku

Allt slökkvilið á höfuðborgarsvæðinu hefur verið kallað út vegna reyks í efnamóttöku Sorpu á aðalvinnslusvæði fyrirtækisins í Gufunesi. Slökkviliðið kom á staðinn nú rétt fyrir fréttir og var að kanna aðstæður en starfsmaður í efnamóttöku Sorpu sagði að engin hætta hefði reynst á ferðum, þarna hefði verið gufureykur en enginn eldur.

Lést í svifvængjuslysi

32 ára íslenskur karlmaður, Rúnar V. Jensson, lést í Kólumbíu á Gamlársdag þegar svifvængja sem hann flaug hrapaði til jarðar. Hann var einhleypur og barnlaus.

Strætó til háborinnar skammar

Það er til háborinnar skammar að Strætó bs. bjóði ekki upp á sérstakt staðgreitt fargjald fyrir unglinga á þrepi milli þess sem börn og fullorðnir greiða, segir í ályktun frá Ungmennaráði Hafnarfjarðar. Þetta segir ráðið ekki síst til skammar þar sem ungmenni séu stór hluti af viðskiptavinum Strætó.

Unglingspiltar kveikja næstum í

Minnstu munaði að þrír unglingspitlar hefðu kveikt í íbúðarhúsi í Kópavogi í nótt þegar þeir tróðu logandi kínverjum og froskum inn um bréfalúgu í húsinu. Húsráðandi náði að slökkva eldinn í forstofunni og lögregla hafði uppi á piltunum, sem reyndust hafa leikið sama leikinn í örðu húsi

Brotist inn í Grafarvogskirkju

Brotist var inn í Grafarvogskirkju í nótt og þaðan stolið söfnunarbauk. Engar skemmdir virðast hafa verið unnar nema hvað þjófurinn braut stóra rúðu til að komast inn. Ekki liggur fyrir hversu mikið fé var í bauknum og þjófurinn er enn ófundinn.

Þak hrundi á stórmarkað í Ostrava

Þak hrundi á stórmarkaði í bænum Ostrava í norðausturhluta Tékklands um hálfáttaleytið í gærkvöld. Mikill snjór hafði safnast fyrir á þakinu sem gaf undan. Stórmarkaðurinn var enn opinn þegar slysið varð en ekki hafa enn borist fregnir af því hvort slys hafi orðið á fólki.

Þjófur svaraði í símann

Klaufaskapur innbrotsþjófs varð honum að falli á dögunum þegar hann álpaðist til að svara hringingu sænsku lögreglunnar í farsíma sem hann hafði nýlega tekið ófrjálsri hendi. Maðurinn hafði brotist inn í hús í bæ í Norður-Svíþjóð og látið þar greipar sópa og þar á meðal nælt sér í farsíma. Lögregla hringdi í símann og maðurinn svaraði en hirti ekki um að leggja á.

Samningaviðræður hafnar um gasútflutning

Samningaviðræður hófust að nýju í gærkvöld á milli Úkraínumanna og Rússa um gasútflutning til Úkraínu. Rússneska gasfyrirtækið Gazprom lokaði fyrir gasútflutning til Úkraínu á nýársdag eftir að Úkraínumenn höfðu neitað að borga uppsett verð en stjórnmálskýrendur segja málið frekar snúast um stjórnmál en peninga

Vertíð „póstkassaskemmdarvarga" hafin

Vertíð þeirra sem stunda þá iðju að sprengja póstkassa bæjarins er nýhafin. Þar til gerðar læsingar á póstkössunum virðast ekki stöðva skemmdarvargana.

Skæruliðahópar sprengja olíuborholur

Skæruliðarhópur í Kólumbíu sprengdi átta olíuborholur og þrjár olíuleiðslur í loft upp í Amasonregnskógunum í gær. Olían hefur valdið miklum umhverfisspjöllum og liggur nú á 100 km löngum kafla árinnar Putumayo.

Allt að 200 manns fórust í aurskriðu í Indónesíu

Talið er að allt að 200 manns hafi farist þegar aurskriða féll á þorp í um 130 kílómetra fjarlægð frá Jakarta, höfuðborg Indónesíu, í gær en aurskriðan reif með sér heilt þorp og hafa björgunarmenn aðeins fundið tólf manns á lífi. Þá eyðilögðust brýr og vegir sem hefur gert björgunarmönnum enn erfiðara fyrir sem og veðrið en mikið hefur rignt á svæðinu síðustu vikur. Milljónir manna búa upp til fjalla í Indónesíu og hefur dánartíðni vegna aurskriða hækkað mikið á síðustu árum.

Kveikt í fólksbíl

Grunur leikur á að kveikt hafi verið í fólksbíl, sem sem stóð fyrir utan Krónuna við Jafnasel í Breiðholti og barst eldurinn í annann bíl við hliðina. Slökkviliðinu var tilkynnt um eldinn um klukkan hálf sex í morgun og logaði í báðum bílunum, þegar að var komið.

Grunar lögbrot í stofnfjárviðskiptum í SPH

Fjármálaeftirlitið grunar að lög um fjármálafyrirtæki hafi verið brotin við kaup á stofnfjárhlutum í Sparisjóði Hafnarfjarðar í fyrrasumar og hefur Ríkislögreglustjóri hafið rannsókn á málinu, að sögn Morgunblaðsins. Grunur leikur á að ýmist hafi upplýsingum verið leynt, eða rangar upplýsingar verið gefnar.

Ökumaður slapp ótrúlega

Ökumaður, sem var einn í bíl sínum, slapp ótrúlega lítið meiddur þegar bíll hans fór út af Reykjanesbraut í gærkvöld, valt niður grasbala og hafnaði niður á Fífuhvammsveginum, Svo vel vildi til að þar var engin á ferðinni þegar slysið varð. Bíllinn aflagaðist svo mikið í veltunni að beita þurfti klippum til að ná ökumanni út úr flakinu og var hann fluttur á slysadeild til aðhlynningar. Hann reyndist ekki alvarlega slasaður. Bíllinn er hinsvegar gjör ónýtur. Tildrög slyssins liggja ekki fyrir en engin hálka var á veginum og ökumaðurinn var ódrukkinn.

Hjálparstarf liggur niðri í Pakistan

Allt hjálparstarf liggur nú niðri í Pakistan vegna mikils snjós og rigningar sem hefur aukið mikið á raunir eftirlifendur jarðskjálftans þar sem um 90 þúsund manns fórust. Flætt hefur inn í tjöld sem flóttamenn hafast við í og er talið að um þrjár milljónir manna séu heimilislausir og búi í bráðabirgðaskýlum og tjöldum sem á engan hátt eru nógu sterk til að þola vetrarkuldann.

FL Group kaupir hlut í FinnAir Oyj

FL Group festi kaup á rúmlega þrjár milljónir hluti í FinnAir Oyj með framvirkum samningi. Fyrir átti FL Investment, sem er dótturfélag í eigu FL Group, ríflega tvær milljónir hluti í fyrirtækinu í framvirkum samningi. Hlutirnir eru því ekki skráðir á nafn FL Investment eða FL Group en atkvæðisréttur er þó á þeirra hendi. Samanlagt eiga því FL Group og FL Investment rúmlega 6% atkvæðisréttar í FinnAir Oyj eftir kaupin í dag.

Hlaut fullt hús stiga

Eiður Smári Guðjohnsen var kjörinn íþróttamaður ársins við hátíðlega athöfn á Grand Hótel rétt í þessu. Eiður Smári fékk fullt hús stiga í kjörinu en í öðru sæti var handknattleiksmaðurinn Guðjón Valur Sigurðsson og Ásthildur Helgadóttir, knattspyrnukona varð í þriðja sæti. Þetta er annað árið í röð sem Eiður Smári hlýtur titilinn en hann þykir einn fremsti knattspyrnumaður landsins.

Bílslys við Smáralind

Bíl var ekið út af á mislægum gatnamótum við Smáralind á tíunda tímanum í kvöld. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu mun bílstjórinn ekki vera mikið slasaður.

Hallgrímur Snorrason verður formaður

Hallgrímur Snorrason hagstofustjóri, verður formaður nefndar sem ætlað er að stuðla að lækkun matarverðs á Íslandi. Neytendasamtökin kröfðust þess í dag að fá fulltrúa í nefndina.

Alþingi og ráðuneyti eiga að endurskoða viðskipti sín við FL Group

Alþingi og ráðuneyti eiga að endurskoða viðskipti sín við FL Group, segir Jóhanna Sigurðardóttir alþingismaður, og efna til útboðs. Hún segir að FL Group hafi tekið forystu í græðgisvæðingunni sem gengur út á að fita forstjórana. Ofurkjarasamningar kyndi ófriðarbál í samfélaginu.

Ætla að þjarma að sjóræningjum

Íslensk stjórnvöld ætla að þjarma að sjóræningjum sem stunda ólögmætar og óábyrgar veiðar á norðvestur Atlantshafi og Reykjaneshrygg. Ætlunin er að torvelda eins og unnt er rekstur hentifánaskipa.

Höfðað meiðyrðamáli gegn Sigurði Líndal lagaprófessor

Friðrik Þór Guðmundsson, faðir ungs manns sem lést í Skerjafjarðarslysinu, hefur höfðað meiðyrðamál gegn Sigurði Líndal lagaprófessor vegna ummæla hans í bréfi til fjölmiðla. Friðrik segir Sigurð Líndal hafa logið upp á sig sökum og að það hafi verið sér mikið áfall.

Þrír fluttir á slysadeild með minniháttar meiðsl eftir harðan árekstur

Þrír voru fluttir á slysadeild með minniháttar meiðsl eftir harðan árekstur tveggja bíla á gatnamótum Grensásvegar og Miklubrautar á sjötta tímanum í kvöld. Ökumenn beggja bílanna voru í bílbeltum en farþegi annars bílsins var ekki í belti. Bílarnir eru mikið skemmdir og þurfti kranabíl til að fjarlægja þá.

Húsnæði fyrir starfsemi í Heilsuverndarstöðinni enn ófundið

Enn er ekki búið að finna húsnæði fyrir þá starfsemi heilsugæslunnar sem fram fer í Heilsuverndarstöðinni við Barónsstíg, en átta mánuðir eru þar til húsið verður afhent nýjum eiganda. Forstjóri Heilsugæslunnar hefur miklar áhyggjur af málinu.

Svælum sjóræningja af miðunum

Stjórnvöld hafa ákveðið að hefja átak gegn sjóræningjaveiðum á miðunum við Reykjaneshrygg. Einar K. Guðfinnsson sjávarútvegsráðherra greindi frá þessu á blaðamannafundi klukkan tvö.

Vilja aðild að matvælanefnd

Formaður Neytendasamtakanna hefur skrifað forsætisráðherra bréf þar sem hann fer fram á aðild samtakanna að nefnd sem forsætisráðherra hyggst skipa til að kanna ástæður hás matvælaverðs og leiðir til að lækka það.

Nýtt kerfi langdrægara en NMT

Stjórnvöld hafa ákveðið að framlengja líftíma NMT-farsímakerfisins um tvö ár. Stefnt er að því að nýtt, fjölhæfara og jafnvel langdrægara kerfi verði komið í noktun áður NMT-farsímakerfið verður lagt niður.

Eðli og umfang fyrirframgreiðslna til ríkis breytist til muna

Eðli og umfang fyrirframgreiðslna á þinggjöldum, bæði einstaklinga og lögaðila, breytist til mikilla muna á þessu ári vegna afnáms eignarskatts. Afnám hans þýðir að fyrirframgreiðsla nær nú til tekjuskatts og iðnaðarmálagjalds hjá lögaðilum eftir því sem fram kemur í vefriti fjármálaráðuneytisins.

Allt að átta króna munur á bensínlítranum

Allt að átta króna verðmunur var á bensínlítranum á höfuðborgarsvæðinu í morgun, eftir að stóru olíufélögin þrjú hækkuðu verð á bensínlítranum um eina krónu og 50 aura í gær.

Svifryksmengun yfir hættumörkum til morguns

Svifryksmengun fór langt yfir heilsuverndarmörk í Reykjavík á nýársnótt, samkvæmt mælingum umhverfissviðs borgarinnar. Á einni mælingastöð mældist mengunin meiri en nokkru sinni fyrr.

Flumbrugangur Geirs vítaverður

Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra verður að ganga fram og biðjast afsökunar á flumbrugangi Geirs H. Haardes utanríkisráðherra segir Jóhann Ársælsson, þingmaður Samfylkingarinnar.

Hálka og skafrenningur á Suðvesturlandi

Það er hálka og skafrenningur á Hellisheiði og í Þrengslum en víða hálkublettir á Suðurlandi og Reykjanesi samkvæmt upplýsingum Vegagerðarinnar. Á Vesturlandi eru víðast hvar hálkublettir eða jafnvel hálka. Á Holtavörðuheiði er hálka og skafrenningur.

Hefur áhyggjur af vaxandi launamisrétti

Stjórn Verkalýðsfélagsins Vöku á Siglufirði lýsir yfir áhyggjum af vaxandi launamisrétti í landinu. Í álytkun sem samþykkt var á fundi hennar segir að bilið aukist stöðugt milli þeirra sem vinna á umsömdum launatöxtum og hinna sem taka laun eftir ákvörðunum stjórna fyrirtækja eða fá laun sín ákvörðuð eftir öðrum leiðum, s.s. kjaradómi eða kjaranefnd.

Hagstofustjóri verður formaður matvælanefndar

Hallgrímur Snorrason, hagstofustjóri, verður formaður nefndar sem ætlað er að stuðla að lækkun matarverðs á Íslandi. Forsætisráðherra boðaði skipan slíkrar nefndar í áramótaávarpi sínu á gamlárskvöld.

Sjá næstu 50 fréttir