Innlent

Vertíð „póstkassaskemmdarvarga" hafin

MYND/Teitur

Vertíð þeirra sem stunda þá iðju að sprengja póstkassa bæjarins er nýhafin. Þar til gerðar læsingar á póstkössunum virðast ekki stöðva skemmdarvargana.

Á Íslandi eru um það bil 260 póstkassar. Um hver áramót fara skemmdarvargar á kreik og reyna að skemma þessa kassa með því að setja ofan í þá flugelda og heimatilbúnar sprengjur. Á nýliðnu ári voru tuttugu og fjórir póstkassar skemmdir en meðaltalið hefur verið á bilinu tuttugu til tuttugu og fimm á ári hverju.

Nú þegar hafa að minnsta kosti fjórir póstkassar verið sprengdir á þessu ári en það er í janúarmánuði sem skemmdarvargarnir láta langmest á sér kræla. Og kostnaðurinn sem af þessu hlýst er verulegur. Að sögn Árna Árnasonar, forstöðumanns kynningarmála Póstsins, kostar hver kassi 70 þúsund krónur og enn meira ef festingar og annað skemmast. Þetta gerir 1,5 til 2 milljónir króna á ári.

Sökum síendurtekinna árása á póstkassa hefur Pósturinn brugðið á það ráð að setja læsingar á kassana á þeim tíma sem flugeldar eru seldir. Slíkar læsingar gera það að verkum að einungis er hægt að koma einu bréfi í einu ofan í póstkassana, og þannig er vonast til að ekki sé heldur hægt að koma sprengjum ofan í þá. Ribbaldarnir sem stunda þessu iðju hafa hins vegar tekið upp á því að festa sprengjurnar þá utan á kassana.

Árni segir að þeir hjá Póstinum hafi ekki fundið önnur úrræði til að stemma stigu við skemmdarverkunum, og að vonandi verði ekki þörf á því. Hann bindur vonir við að þeir sem stundi þetta átti sig á að koma þurfi pósti til landsmanna, sem sé heldur erfitt þegar póstkassarnir séu eyðilagðir í sífellu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×