Innlent

Húsnæði fyrir starfsemi í Heilsuverndarstöðinni enn ófundið

MYND/E.Ól

Enn er ekki búið að finna húsnæði fyrir þá starfsemi heilsugæslunnar sem fram fer í Heilsuverndarstöðinni við Barónsstíg, en átta mánuðir eru þar til húsið verður afhent nýjum eiganda. Forstjóri Heilsugæslunnar hefur miklar áhyggjur af málinu.

Eins og greint var frá í fréttum fyrir áramót var húsnæði Heilsuverndarstöðvarinnar selt eftir áralangar deilur ríkis og borgar um nýtingu hússins, en borgin átti 60 prósent í því og ríkið 40 prósent.

Ekki er enn búið að finna nýtt húsnæði fyrir starfsemina en Guðmundur Einarsson, forstjóri Heilsugæslunnar, segir að verið sé að vinna að gerð húslýsingar og í framhaldinu verði auglýst eftir húsnæði. Guðmundur segir starfsemina nú vera í um 3200 fermetrum en þörfin sé um fjögur þúsund fermetrar. Hann segir heilbrigðisráðherra hafi lagt áherslu á að efla heilsugæsluna og færa til hennar starfsemi sem mundi ganga betur þar. Til dæmi sé verið að auka þjónustu við fólk með geðheilbrigðisvanda utan sjúkrahúsa.

Því hefur verið haldið fram að húsnæðið Heilsuverndarstöðvarinnar við Barónsstíg hafi ekki hentað fyrir starfsemina. Guðmundur segir það alls ekki rétt. Það sé þó misjafnt eftir því hvar menn séu í húsinu. Húsið þarfnist endurbóta en þær séu ekki miklar. Hann bendir á að húsnæði Miðstöðvar mæðraverndar, sem sé stræsta klíníska einingin í Heilsuverndarstöðinni, sé að hans mati eins gott og það geti orðið

Auk þessamissirMiðstöð heimahjúkrunar, sem heyrir undir heilsugæsluna húsnæði sitt í vor. Guðmundur segir að forsvarsmenn heilsugæslunnar hefðu haft áhuga á að flytja þá starfsemi í Heilsuverndarstöðina í vannýtt húsnæði en ljóst sé að svo verði ekki. Og hann hefur áhyggjur af málinu þar sem lítill tími er til stefnu.

Heilsugæslan geri eins og hún geti og heilbrigðisráðuneytið styðji hana við að finna húsnæði og leysa málið í tæka tíð. Þetta sé engu að síður stórkostlegt áhyggjuefni. Aðspurður hvort hann telji að það hafi verið mistök að selja húsið segir Guðmundur að það sé ekki hans að segja um það.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×