Fleiri fréttir

LG-flatskjáir með innbyggðum hörðum disk

LG setur brátt á markað sjónvörp með innbyggðum 160 GB hörðum disk. Sjónvarpið getur þá tekið upp all a þættina sem þú missir af. Kassettutækið fæddist og dó, vídeótækið fæddist og dó, og nú er farið að síga á seinni hlutann hjá DVD-spilurunum.

Hvetja til kosninga um álver í Helguvík

Ungir jafnaðarmenn á Suðurnesjum hvetja bæjarfulltrúa til að efna til kosninga um fyrirhugað álver í Helguvík og aðrar framkvæmdir tengdar því, eins og raflínur og virkjanir. Þeir halda opinn fund um álverið á miðvikudagskvöldið kl 20.30 á veitingastaðnum Ránni við Hafnargötu í Reykjanesbæ.

Íhuga að slíta tengsl við Abbas

Ísraelar eru að íhuga að slíta öll tengsl við Mahmoud Abbas, hinn hófsama forseta Palestínumanna, ef nýmynduð þjóðstjórn verður ekki við alþjóðlegum kröfum um að ríkisstjórn Palestínumanna viðurkenni tilverurétt Ísraelsríkis og afneiti ofbeldi.

Tölvuleikir bæta sjón

Hraðir tölvuleikir, þar sem mikið er um að vera, bæta sjón spilara um allt að 20 prósent. Loksins geta tölvuleikjaunnendur lagt „tölvuleikir bæta samhæfingu handa og augna“-afsökunina á hilluna og byrjað að dásama áhrif þeirra á sjónina. Vísindamenn við háskólann í Rochester í New York-ríki hafa nefnilega komist að því að það að spila tölvuleiki getur haft jákvæð áhrif á sjónina.

Frumgerð flugbíls

Terrafugia hefur sótt um einkaleyfi á fyrsta fjöldaframleidda flugbíl veraldar. Terrafugia var stofnað af nemendum Tækniskólans í Massachusetts og síðar gert að fyrirtæki. Hið eina sem fyrirtækinu er ætlað að framleiða er flugbíllinn Transition, sem er í raun flugvél með samanbrjótanlegum vængjum.

Húsnæðisverð hækkar enn

Hækkun á húsnæðisverði var meiri í síðasta mánuði en áætlað var, og mest á landsbyggðinni en þar hækkaði húsnæðisverð um rúm þrjú prósent. Á höfuðborgarsvæðinu hækkaði einbýli um 1,6 prósent en um eitt prósent í fjölbýli. Þetta kemur fram í morgunkorni Greiningar Glitnis en þar segir að vísitala neysluverðs í febrúar hafi hækkað meira en spá bankans gerði ráð fyrir, eða um 0,4 prósent.

Írak: Sprengjuárásir kostuðu minnst 80 manns lífið

Talið er að minnst 80 hafi týnt lífi og 150 særst í þremur sprengingum á markaði í miðborg Bagdad, höfuðborg Íraks, í morgun. Ár er liðið í dag frá sprengjuárás á guðshús sjía-múslima í borginni Samarra.

400 flóttamenn handteknir

Nær 400 flóttamenn voru í morgun handteknir í Máritaníu en þeir voru á leið með fragtskipi til Kanaríeyja. Flóttamennirnir eru nú í haldi spænsku lögreglunnar. Fólkið er ýmist frá Afríku eða Asíu. Lögregla í Máritaníu og á Spáni samræmdu aðgerðir og stöðvuðu skipið á leið þess norður eftir vesturströnd Afríku.

Varaforseti Saddam verður hengdur

Hæstiréttur í Írak dæmdi í dag Taha Yassin Ramadan, fyrrum varaforseta Saddam Hussein, til dauða. Hann verður að líkindum hengdur fyrir lok mánaðarins. Ramadan var í nóvember dæmdur í lífstíðarfangelsi fyrir morðin í Dujail sem Saddam var dæmdur til dauða fyrir en eftir áfrýjun var ákveðið að hann skildi líka hengdur.

Íslensk-indversk lyfjasamvinna

Íslenska lyfjafyrirtækið Invent Farma ehf. hefur í samvinnu við indverska lyfjaframleiðandann Strides Arcolab Ltd. stofnað tvö ný samstarfsfyrirtæki. Annars vegar Domac Laboratories sem mun leggja áherslu á að þróa og selja lyf til sjúkrastofnana á Spáni og í Portúgal, og hins vegar eignarhaldsfélagið Plus Farma á Íslandi sem nýlega festi kaup á lyfjafyrirtækinu Farma Plus í Osló í Noregi. Farma Plus er vaxandi aðili í sölu á lyfjum til sjúkrahúsa á Norðurlöndum.

Jón Ásgeir yfirheyrður í þrjá daga

Hádegishlé er í aðalmeðferð í Baugsmálinu en hún hófst í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun með vitnisburði Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, forstjóra Baugs. Sérstakur ríkissaksóknari reiknar með að yfirheyra Jón Ásgeir í þrjá daga en tekist var á um tilteknar lánveitingar Baugs til Gaums.

Fóstureyðingarlöggjöf verður breytt í Portúgal

Fóstureyðingarlöggjöf í Portúgal verður breytt þrátt fyrir að þjóðaratkvæðagreiðsla í gær um breytingar á henni hafi ekki verið bindandi. Núgildandi löggjöf hefur verið sú strangasta í Evrópu.

Demókratar vara Bush við

Demókratar á Bandaríkjaþingi hvetja Bush-stjórnina til að sýna aðgát þegar Íranar eru sakaðir um að ýta undir ofbeldi í Írak með vopnasmygli og fjármögnun uppreisnarhópa. Öruggar sannanir vanti og ekki sé góð reynsla af því að taka ákvarðanir sem byggi á vafasömum sönnunargögnum.

Yfirstjórn RÚV við talningu

Enn er á huldu hversu margir starfsmenn Ríkisútvarpsins hafa ákveðið hvort þeir muni hætta störfum þegar stofnunin breytist í opinbert hlutafélag.

Þjóðarsátt um auðlindanýtingu og náttúruvernd

Þjóðarsátt á að nást um auðlindanýtingu og náttúruvernd segja Jón Sigurðsson iðnaðarráðherra og Jónína Bjartmarz umhverfisráðherra en þau kynntu nú fyrir hádegi frumvarp um rannsóknir og nýtingu auðlinda í jörðu. Ráðherrarnir kynntu tvö frumvörp á blaðamannafundi í morgun sem þau munu mæla fyrir á þingi á morgun.

Virkjanaáform í Þjórsá óásættanleg

Náttúruverndarfélagið Sól á Suðurlandi mótmæla harðlega virkjanaáformum Landsvirkjunar í neðri hluta Þjórsár. Í fréttatilkynningu skorar félagið á stjórnvöld að fórna ekki íslenskri náttúru til framkvæmda sem nýtast eiga til mengangi starfsemi. Í tilkynningunni segir að í framhaldi af umræðu um hlýnun jarðar af mannavöldum sé óásættanlegt að fara í slíkar framkvæmdir.

Ekkert lát á óöld

Minnst 59 fórust í tveimur bílsprengjuárásum á Shorja-markaðinn í Bagdad í morgun. Lögregla segir 150 til viðbótar hafa særst. Annars staðar í borginni fórust minnst fimm í annari bílsprengjuárás í morgun. Í gær fórust 30 í sjálfsmorðsárás á lögreglustöð í Tikrit, þar af 21 lögreglumaður.

Liðsmaður Baader-Meinhof látinn laus

Þýskur dómstóll hefur úrskurðað að sleppa skuli Birgitte Monhaupt, einum forsprakka Rauðu herdeilda Baader-Meinhof, en hún hefur setið í fangelsi í nær aldarfjórðung. Hún var árið 1982 dæmd í fimmfalt lífstíðarfangelsi fyrir mannrán, morð og hermdarverk.

Obama svarar fyrir sig

Barack Obama sem sækist eftir útnefningu demókrata fyrir forsetakosningar í Bandaríkjunum svarar John Howard forsætisráðherra fullum hálsi, en Howard sagði í gær að Obama væri draumaforseti Al Kaída og að loforð hans um að draga herlið Bandaríkjanna frá Írak væri loforð um að færa hryðjuverkamönnum sigur í stríðinu á silfurfati.

Neysla áfengis dregst saman

Svo virðist sem landsmenn hafi verið heldur hógværari í neyslu áfengis í upphafi þorra í ár, en á síðasta ári. Sala á áfengi dróst saman um tæp 11 prósent á föstu verðlagi á milli janúarmánuða árið 2006 og 2007. Þetta kemur fram í nýjum niðurstöðum rannsóknarseturs verslunarinnar á smásöluvísitölu fyrir janúar 2007. Sé miðað við breytilegt verðlag hefur sala áfengis dregist saman um tæp 6 prósent.

Segir flensuna ekki komna frá Ungverjalandi

Fuglaflensusmitið sem upp kom á kalkúnabúi Bernard Matthews í Suffolk á Englandi í síðustu viku er ekki komið frá Ungverjalandi. Þetta fullyrðir Andreas Dekany talsmaður landbúnaðarráðuneytisins í Ungverjalandi.

Algjör hasshaus

Belgiskur maður var handtekinn fyrir hassmygl frá Hollandi til heimalandsins, vegna þess að það var svo megn hasslykt af honum að aðrir farþegar í lestinni þoldu ekki við. Hollenskir lestarverðir létu belgisku lögregluna vita af manninum, og hans var beðið þegar lestin kom til Antwerpen.

Reyna enn að ná saman um afvopnun

Reynt verður áfram að ná samkomulagi í sex ríkja viðræðum um kjarnorkumál Norður-Kóreu. Í morgun var ákveðið að halda áfram, þó viðræðunum hafi átt að ljúka í gær. Viðræðurnar fóru vel af stað þegar þær hófust á fimmtudag en strönduðu á kröfum Norður-Kóreumanna um orkuaðstoð gegn kjarnorkuafvopnun.

Strípalingar í vanda

Þrír ungir strípalingar lentu í nokkrum vanda eftir að þeir höfðu hlaupið allsberir um fínann veitingastað í Washington. Þeir komu keyrandi að veitingastaðnum íklæddir einungis höttum og skóm. Til þess að vera vissir um að komast undan, skildu þeir bílinn eftir í gangi.

Lögregla á hælum Zupljanin

Lögregla í Bosníu réðist í morgun á heimili og vinnustað serbnesks bankastarfsmanns sem er grunaður um að hafa aðstoðað Stojan Zupljanin, grunaðan stríðsglæpamann, að felast. Zupljanin er einn sex Serba sem er eftirlýstur af Sameinuðu þjóðunum fyrir stríðsglæpi. Hann var ákærður árið 1999 fyrir glæpi gegn múslimum og Króötum í vesturhluta Bosníu í stríðinu 1992-95.

Ný samgönguáætlun kynnt á morgun

Sturla Böðvarsson samgönguráðherra ætlar að kynna samgönguáætlun fyrir árin 2007 til 2018 á Ísafirði á morgun. Stefnt er að því að henni verði dreift á Alþingi síðdegis á morgun. Fundur samgönguráðherra verður í húsnæði Vegagerðarinnar á Ísafirði

Innihald í íslenskum kjötvörum oft á tíðum óljóst

Eftirlit með notkun bindiefna í kjötvörur er lítið hér á landi. Umhverfisstofnun veit ekki hvað helsta bindiefnið í kjötvörum, svokallað tendin, inniheldur. Þetta er á meðal þess sem kemur fram í fréttaskýringaþættinum Kompási í kvöld.

Vígslubiskup harmar atburðina í Breiðuvík

Sigurður Sigurðarson, vígslubiskup í Skálholti, kveðst harma þá atburði sem gerðust í Breiðuvík, en hann starfaði þar um tíma á sjöunda áratugnum. Hann kveðst þó aldrei hafa séð líkamlegu ofbeldi beitt þar en eftir að hann heyrði orðróm um slíkt frá drengjunum hafi hann gengið á fund yfirvalda og hvatt til að heimilinu yrði breytt.

Slagsmál vegna gleraugnasvika

Gleraugnasali í Toronto í Kanada hefur verið ákærður fyrir að ganga í skrokk á hálfáttræðum fréttamanni sem hugðist fletta ofan af vörusvikum hans. Barsmíðarnar náðust á myndband og verða notaðar í málaferlunum gegn honum.

Vill að einhver axli ábyrgð

Það er til skammar fyrir íslensk stjórnmál hvernig allir hlaupa frá Byrgismálinu. Þetta sagði Össur Skarphéðinsson, þingmaður Samfylkingarinnar, í Silfri Egils í dag. Forsætisráðherra sagði mikinn þrýsting hafa verið á stjórnvöld að láta fé í Byrgið og stjórnarandstaðan hefði verið framarlega í flokki.

Verðlaunaður fyrir að bjarga lífi móður sinnar

Átta ára drengur, sem bjargaði lífi móður sinnar síðasta sumar, var í dag valinn skyndihjálparmaður ársins af Rauða krossinum. "Hundrað og tólf" dagurinn er í dag og í ár var hann tileinkaður sjálfboðaliðum.

Segja Írana kynda undir ófriðnum

Talsmenn Bandaríkjahers sökuðu í dag Írana um að kynda undir ófriðareldinum í Írak með því að smygla vopnum til uppreisnarmanna í landinu. Þetta er í fyrsta sinn sem Bandaríkjamenn saka íranska embættismenn með beinum hætti um að láta uppreisnarmönnum vopn í té.

Engin lausn fékkst á kjarnorkudeilunni.

Íranar ætla að halda kjarnorkuáætlun sinni til streitu enda segja þeir hana ekki brjóta í bága við alþjóðalög. Leitað var leiða til lausnar kjarnorkudeilunni á ráðstefnu í Þýskalandi í dag en án árangurs.

Royal kynnir stefnuskránna

Segolene Royal, forsetaefni franskra sósílista, kynnti í dag stefnuskrá sína fyrir kosningarnar í vor. Tillögur hennar eru í hundrað liðum og þær miða allar að því að gera Frakkland að sterkara og sanngjarnara þjóðfélagi.

Aðalmeðferð í Baugsmálinu á morgun

Aðalmeðferð hefst í Baugsmálinu á morgun en alls verða tæplega eitt hundrað vitni kölluð til. Verið er að taka fyrir átján ákæruliði í endurákæru. Það eru þeir Jón Ásgeir Jóhannesson, aðaleigandi Baugs, Tryggvi Jónsson, fyrrverandi forstjóri fyrirtækisins og Jón Gerald Sullenberger, sem nú eru ákærðir.

Fuglar valda óþægindum á Akranesi

Fuglar hafa valdið nokkrum óþægindum í Akraneshöllinni undanfarið. Framkvæmdanefnd mannvirkja Akraneskaupstaðar er nú að leita leiða til að koma í veg fyrir fuglalíf í höllinni. Á vef Skessuhorns er greint frá því að opnar ristar séu á göflum hússins og fuglar hafa átt greiða inngönguleið þar um.

Fjölmenni á baráttufundi í Árnesi

Félagsheimilið í Árnesi er þétt setið en þar stendur nú yfir baráttufundur andstæðinga þriggja virkjana sem áformaðar eru í neðri hluta Þjórsár. Talið er að um fjögur hundruð manns séu á fundinum en meðal fundargesta eru þingmenn, frambjóðendur í kjördæminu og úr öðrum landshlutum, heimafólk og höfuðborgarbúar.

Gangsæjar pípur reistar við Hellisheiðavirkjun

Listahópurinn Norðan Bál átti vinningstillöguna í samkeppni Orkuveitu Reykjavíkur um útilistaverk við Hellisheiðarvirkjun. Hugmynd þeirra felur í sér að reistar verða sverar gagnsæjar pípur framan við stöðvarhúsið. Gufa og litað ljós leika svo um þær og gefa þær jafnframt frá sér djúpa tóna.

Drengur sem bjargaði lífi móður sinar skyndihjálparmaður ársins

Egill Vagn, átta ára drengur sem bjargaði lífi móður sinnar síðasta sumar, var í dag valinn skyndihjálparmaður ársins af Rauða krossinum. Egill Vagn brást fljótt við þegar móðir hans missti meðvitund vegna bráðaofnæmis. Hann sótti adrenalínpenna í veski móður sinnar, sprautaði hana í handlegginn og hringdi síðan í neyðarlínuna eftir hjálp.

Þyrla skotin niður í Írak

Óljósar fregnir hafa borist af því að flugskeyti hafi grandað bandarískri herþyrlu af Apache-gerð norður af Bagdad í morgun. Á blaðamannafundi sem haldinn var í Bagdad fyrr í dag sögðu talsmenn Bandaríkjahers að æ fleiri vísbendingar væru um að vopn sem kæmu frá Íran væru notuð í baráttunni gegn hernámsliðinu.

Baráttufundur gegn virkjunum í Þjórsá í dag

Andstæðingar þriggja virkjana, sem áformaðar eru í neðri hluta Þjórsár, boða til baráttufundar gegn þeim í félagsheimilinu Árnesi í dag. Nær engin andstaða var gegn þessum virkjunum þegar þær fóru í gegnum umhverfismat fyrir þremur árum.

Cameron í kannabisneyslu

Breska dagblaðið Independent on Sunday fullyrðir að David Cameron leiðtogi breska Íhaldsflokksins hafi á unglingsárum sínum reykt marijúana. Cameron vildi ekki neita þessum staðhæfingum í samtölum við blaðamenn í morgun en lét nægja að segja að hann hefði gert hluti þegar hann var ungur sem hann sæi eftir í dag.

Gerð Helgafellsbrautar hitamál

Gerð Helgafellsbrautar er orðið mikið hitamál hjá íbúum í Mosfellsbæ og sást það glöggt á opnum fundi Varmársamtakanna í gær. Samtökin telja marga þætti ekki hafa verið skoðaða nógu vel og vilja að hætt verði við framkvæmdirnar. Bærinn ætlar að halda opinn fund um málið í næstu viku.

Sjá næstu 50 fréttir