Fleiri fréttir

Hátæknisjúkrahúsi og Sundabraut frestað?

Fjöldi þingmanna Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks er hlynntur því að byggingu hátæknisjúkrahúss og lagningu Sundabrautar verði slegið á frest. Formaður Samfylkingarinnar segir flokkinn tilbúinn til að slást í lið með ríkisstjórninni, vilji hún verja andvirði Símans í að viðhalda stöðugleikanum.

Fleiri íhuga uppsagnir

Háskólamenntaðir starfsmenn hjá Styrktarfélagi vangefinna íhuga uppsagnir náist ekki viðunandi samningar á milli forsvarsmanna svæðisskrifstofu málefna fatlaðra og samninganefndar BHM.

Myndir af Unni Birnu á stefnumótasíðu

Andlit Unnar Birnu Vilhjálmsdóttur er notað á rússneskri stefnumótasíðu á internetinu, þar sem hún er sögð frá Úkraínu í leit að eiginmanni.

Kakan verður ekki stækkuð

Ríkisstjórnin tekur þátt í að fella niður skuldir fátækustu landa heims við Alþjóðaframfarastofnunina. Framlag Íslands er þó ekki viðbót heldur verður það á kostnað annarrar þróunarsamvinnu.

Grétar Már ráðuneytisstjóri

Grétar Már Sigurðsson skrifstofustjóri á viðskiptaskrifstofu tekur við stöðu ráðuneytisstjóra í utanríkisráðuneytinu 21. júlí. Grétar Már tekur við af Gunnari Snorra Gunnarssyni, sem verið hefur ráðuneytisstjóri undanfarin fjögur ár. Gunnar Snorri flyst í haust til starfa erlendis fyrir utanríkisþjónustuna.

Kærir Bush fyrir stríðsglæpi

George Bush eldri hefur verið kærður til íslenskra yfirvalda fyrir glæpi gegn mannkyni og árásarstríð. Á heimasíðunni aldeilis.net birtist kæran í heild sinni. Hún er gefin út af hópi áhugafólks um mannréttindi og réttlæti. Höfundur kærunnar er Elías Davíðsson og skrifar hann undir fyrir hönd kærenda. Kæran var afhent ríkislögreglustjóra á mánudaginn. Bush er kærður fyrir margvíslega alþjóðaglæpi og þess er krafist að hann verði kyrrsettur hér á landi á meðan aðild hans að glæpunum er rannsökuð. Bush er sagður hafa gerst sekur um brot gegn alþjóðlega vernduðum einstaklingi, brot gegn almennum borgurum, árásarstríð, glæpi gegn mannkyni og stríðsglæpi. Glæpina hafi hann framið þegar hann fyrirskipaði innrásina í Panama 1989 þar sem skipt var um stjórnvöld og í Persaflóastríðinu. Kæran er ítarlega rökstudd og er þar tekið fram að glæpir Bush séu alþjóðlegir glæpir. Þannig sé skylda hvers ríkis að rétta yfir einstaklingum sem gerast sekir um slíka glæpi eða framselja þá einhverjum sem vill gera það. Frekari fylgiskjöl hafa verið send ríkislögreglustjóra en hópurinn býst þó hvorki við mjög skjótum eða góðum viðbrögðum. Elías Davíðsson er nokkurs konar sjálfmenntaður sérfræðingur í alþjóðarétti. Greinar hans hafa birst í erlendum lagatímaritum og hann beðinn um að halda fyrirlestra á ráðstefnum víða um heim.

Undanþága á hámarksgjaldi

Samkeppniseftirlitið hefur veitt bæði leigubifreiðastöðinni Hreyfli og BSR í Reykjavík, undanþágu til að setja hámarksgjald fyrir akstur með bílum þeirra. Samkeppniseftirlitið hafði áður komist að þeirri niðurstöðu að það væri ekki í verkahring þess að samþykkja hámarkstaxta fyrir leigubifreiðar. Leigubílstjórar óttuðust margir að þetta myndi leiða til öngþveitis, þegar einstakir bílstjórar færu að setja upp verð fyrir þjónustu sína. Undanþágan er háð þeim skilyrðum að hagsmunafélag bílstjóra hjá leigubifreiðastöðvunum samþykki hámarksgjaldið. Þá verði verðskráin birt með áberandi hætti í leigubifreiðunum.

Skapa verður þjóðarsátt um matvælaverð

Ögmundur Jónasson, formaður Bandalags starfsmanna ríkis og bæja, segir að skapa verði þjóðarsátt um lækkun matvælaverðs á Íslandi. Ekki dugi að ná saman um verð á innlendum matvælum, heldur verði líka að grípa til aðgerða til að lækka verð á innfluttum matvörum.

Von á fleiri aðgerðum

Rúmlega þrjátíu starfsmenn hafa sagt upp störfum hjá Svæðisskrifstofum um málefni fatlaðra til að mótmæla hægagangi í kjaraviðræðum við ríkið. Sarfsmenn Styrktarfélags vangefinna hyggja einnig á aðgerðir.

Verslunareigendur óánægðir með ábyrgðartíma

Verslunareigendur eru verulega óánægðir með nýleg lög um breyttan ábyrgðartíma söluvöru. Á fundi í morgun kom fram að þeim þyki lögin ganga of langt. Þeir segja starfsfólk sett í afar erfiða stöðu þegar óánægðir viðskiptavinir krefjast endurborgunnar og vitna í lögin. Hin svo kallaða fimm ára kvörtunarregla á aðeins við um vörur sem ætlaður er langur endingartími. Einnig á ábyrgðin aðeins við ef um framleiðslugalla á vörunni er að ræða. Samtök verslunar og þjónustu boðuðu til fundar í morgun, þar sem farið var yfir áhrif laganna, en þau hafa verið í gildi í þrjú ár. Ekki eru allir á eitt sáttir við áhrif laganna. Ingvi I Ingason verslunareigandi Rafha segir lögin einfaldlega ekki ganga upp. Verslunareigendur telja að þeir beri skaða af lögunum. Þeir fái ekki sömu ábyrgð hjá erlendum framleiðendum og þeir þurfi að veita hér. Venjulegur ábyrgðartími sé eitt ár. Ólöf Embla Einarsdóttir, lögfræðingur iðnaðar-og viðskiptaráðuneytisins bendir hins vegar á að tilgangur laganna sé að styrkja stöðu neytenda og tryggja að þeir geti sótt bætur vegna gallaðrar vöru. Samtök verslunar og þjónustu hafa áhyggjur af þróun mála. Sérstaklega í ljósi þess að neytendur virðis oft ekki gera sér grein fyrir að ábyrgðin verði aeins virk ef um gallaða vöru sé að ræða. Verslunarmenn segja þennan miskilning koma æ meira í ljós í viðskiptum. Iðnaðar-og viðskiptaráðuneytið hefur skipað sérstaka úrskurðarnefnd sem ætlað er að skera úr álitamálum en óhætt er að reikna með mörgum slíkum þar sem kaupendur og seljendur eru sjaldnast sammála.

Tveir í áfram gæsluvarðhaldi vegna skotárásar

Tveir voru í dag úrskurðaðir í áframhaldandi gæsluvarðhald til 29. næsta mánaðar í tengslum við rannsókn á skotárás í Hafnarfirði í júní. Einum manni var sleppt úr haldi. Skotárásin átti sér stað þann 21. júní síðastliðinn en þá var tveimur skotum hleypt af inn í íbúðarhús en þrír voru innandyra.

Landsbankinn að taka um 29 milljarða króna lán

Landsbanki Íslands er að vinna að töku þriggja ára sambankaláns en upphæð lánsins er 300 milljón evrur eða um 29 milljarðar íslenskra króna. Í tilkynningu frá bankanum segir að eftirspurn eftir þáttöku í láninu hafi verið mikil strax á fyrstu stigum. Gert er ráð fyrir að lántöku ljúki fyrir lok júnímánaðar.

Actavis markaðssetur ný lyf í Bandaríkjunum

Actavis hefur sett á markað fimm ný samheitalyf í Bandaríkjunum. Lyfin munu styðja vel við vöxt félagsins á markaðnum. Bandaríkjamarkaður er í dag stærsti lyfjamarkaður heims og samsvarar sala þar um helming af allri neyslu lyfja í heiminum.

Blaðastríð í Danaveldi

Blaðastríð er í uppsiglingu í Danmörku. Skandinavíudeild 365 miðla ætlar að hefja dreifingu á dönsku Fréttablaði í ágúst. Eitt stærsta útgáfufélag Danmerkur ætlar að setja á fót fríblað til höfuðs blaði 365. Nýr breskur eigandi Orkla Media segist tilbúinn í blaðastríð á danska fríblaðamarkaðnum.

Óánægðir með ábyrgðartímann

Stjórnendur verslana eru óánægðir með ný lög sem kveða á um að í sumum tilvikum sé ábyrgðartími vegna framleiðslugalla vöru fimm ár þrátt fyrir að almennt gildi tveggja ára ábyrgðartími. Þetta kom fram á fundi Samtaka verslunar og þjónustu og að mati samtakanna mun þessi breytti ábyrgðartími valda verðhækkunum þar sem ábyrgðartími seljanda verður lengri en framleiðanda. Lögin voru kynnt á fundinum og kærunefnd sem úrskurðar í málinu.

Fjögurra mánaða fangelsi fyrir ítrekuð afbrot

Karlmaður á fertugsaldri var gær dæmdur í fjögurra mánaða fangelsi af Héraðsdómi Reykjavíkur fyrir ítrekuð brot. Þau sem hann var ákærður fyrir voru fjársvik, varsla stolins varnings, umferðarlagabrot, þjófnaðir og fíkniefnabrot. Honum var einnig gert að greiða rúmlega 800 000 krónur í skaðabætur. Brotinn játaði maðurinn og var það virt honum til refsilækkunar. Hann á að baki langan sakaferil, allt frá árinu 1988, en frá því ári hefur hann hlotið 9 refsidóma fyrir ýmis afbrot. Síðast hlaut hann dóm 8. febrúar á þessu ári en þá var hann dæmdur til að sæta 14 mánaða fangelsi fyrir fíkniefnalagabrot.

Hægt að skoða gögn óháð stað og stund

Og Vodafone hefur hafið sölu á Nokia farsímum sem búa yfir BlackBerry lausn (BlackBerry Connect) sem gerir farsímanotendum mögulegt að fá tölvupóst, dagbókina, tengiliðalista og aðrar upplýsingar beint í símtækið. Um er að ræða lausn sem virkar fyrir ákveðnar gerðir Nokia farsíma og farsíma með Microsoft stýrikerfi.

Fíkniefnafundur á Dalvík

Lögreglan á Akureyri sleppti í gær tveimur mönnum sem handteknir voru á Dalvík í fyrrakvöld, eftir að 25 grömm af hassi fundust í neytendaumbúðum í bíl þeirra. Við húsleit heima hjá öðrum þeirra fundust 25 grömm til viðbótar og eitthvað af hvítu efni, sem talið er vera afetamín eða kókaín. Mennirnir , sem báðir hafa áður gerst brotlegir við fíkniefnalöggjöfina, voru yfirheyrðir ítarlega áður en þeim var sleppt, en rannsókn málsins verður fram haldið.-

Gistinóttum fjölgar um allt land

Gistinóttum á hótelum í maí síðastliðnum fjölgaði um 17 prósnet miðað við sama mánuð í fyrra, eða um 15 þúsund. Þær urðu nú rúmlega 102 þúsund. Gistinóttum fjölgaði í öllum landshlutum, en hlutfallslega mest á Austurlandi. Fjölgunin á höfuðborgarsvæðinu, þar sem lang mesta framboðið er, nam tuttugu og einu prósenti, eða tæpum þrettán þúsundum, sem er bróðuparturinn af allri fjölguninni. Alla fjölgunina og gott betur má rekja til útlendinga, því gistinóttum íslendinga fækkaði um tvö og hálft prósent.

Dansað á götum Ítalíu

Tugþúsundir Ítala þustu út á götur Rómarborgar í gær og fögnuðu sigri Ítala á Þjóðverjum í undanúrslitum HM í knattspyrnu. Leikurinn, sem var æsispennandi, fór í framlengingu og þegar allt útlit var fyrir að úrslit réðust í vítaspyrnukeppni skoruðu Ítalar tvö mörk á lokamínútu framlengarinnar. Stemmningin á Ítalíu var gríðarleg. Þokulúðrar voru þeyttir, kveikt var á blysum og dansað um götur borgarinnar. Í Þýskalandi leyndu vonbrigðin sér ekki þegar ljóst var að lið þjóðverja spilar ekki til úrslita á HM að þessu sinni en miklar vonir voru bundnar við að Þýskaland yrði heimsmeistarar á heimavelli sínum.

Sprengt í Kabúl

Þrjár sprengjur sprungu í Kabúl höfuðborg Afganistan í morgun með þeim afleiðingum að einn lést og 47 særðust alvarlega. Fyrri sprengjunni hafði verið komið fyrir í innkaupakerru og sprakk þegar rúta, full af opinberum starfsmönnum ók framhjá. Seinni sprengjan sprakk nærri herrútu í miðri borginni en henni hafði verið komið fyrir í ruslatunnu en þeirri þriðju var einnig beint gegn hermönnum. Ekki er vitað hverjir stóðu að tilræðunum en hart hefur verið sótt að talibönum í suðurhluta landsins og því er talið að þeir eigi hlut að máli.

Komst á loft

Brot af einangrunarfroðu féllu af eldsneytistanki Discovery geimferjunnar nokkrum mínútum eftir að hún fór á loft í gærkvöldi. Að sögn talsmanns bandarísku geimferðarstofnunarinnar, NASA eru brotin ekki talið það stór að þau geti valdið skemmdum á geimferjunni. Geimskotið í gær er það fyrsta á þessu ári og aðeins annað skot frá því Columbia-geimflaugin fórst fyrir þremur árum með sjö innanborðs. Fresta þurfti skoti Discovery tvívegis um helgina vegna veðurs og í raun var óvíst hvort hægt yrði að skjóta geimflauginni á loft í gær þegar sprunga fannst í einangrun á ytri eldsneytisgeymi geimflaugarinnar.

Varnarliðið hundsar allar launahækkanir

Varnarliðið hefur hundsað allar launahækkanir sem nokkrir verkamenn og vélamenn á Keflavíkurflugvelli áttu að fá frá síðustu áramótum, samkvæmt ákvörðun kaupskrárnefndar varnarsvæða. Að sögn Kristjáns Gunnarssonar hjá Verkalýðs- og sjómannafélagi Keflavíkur og nágrennis er þetta áþekk staða og upp kom fyrir um tveimur árum þegar félagið þurfti að höfða mál á hendur utanríkisráðuneytinu fyrir umþaðbil 30 einstaklinga, sem ekki fengu laun samkvæmt ákvörðun nefndarinnar.

Fordæma eldflaugaskot Norður Kóreumanna

Ríkisstjórn Suður Kóreu hefur fordæmt tilraunaskot Norður Kóreumanna í gærkvöldi og mun koma saman til neyðarfundar í dag vegna málsins. Norður kóreamenn skutu sex eldflaugum í gærkvöld í tilraunaskyni, þar af er talið að ein hafi verið langdræg flaug. Að sögn Bandarískra embættismanna bilaði hún hins vegar en flaugar af þessari gerð eru taldar geta náð til Alaska. Hinar flaugarnar, sem skotið var á loft, enduðu í Japanshafi en Japanir eru ósáttir við tilraunir norður kóreumanna og sagði Shinso Abe, forseti japanska þingsins að þær ógnuðu friði og stöðugleika á svæðinu. Líklegt þykir að Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna komi saman til neyðarfundar vegna málsins en John Bolton, sendifulltrúi Bandaríkjanna hjá Öryggisráðinu segist nú ráðfæra sig við fulltrúa þeirra ríkja sem eiga sæti í ráðinu og að ekkert hefði verið ákveðið um það hvort boðað yrði til fundar.

Actavis hækkar tilboð sitt í Pliva

Stjórnendur lyfjafyrirtækisins Actavís leggja ofur kapp á að kaupa króatíska lyfjafyrirtækið Pliva og hefur nú tilkynnt hlutaðeigandi um þá fyrirætlan sína að gera yfirtökutilboð í allt hlutafé fyrirtækisins. Actavis hefur tvívegis hækkað tilboð sitt í félagið og nú síðast upp í 170 milljarða króna, eftir að stjórnin mælti með að hluthafar seldu bandarísku lyfjafyrirtæki Pliva í stað Actavis. Auk þessa hefur Actavis lagt inn umsókn til samkeppnisyfirvalda á öllum markaðssvæðum sínum, þar sem leitað er eftir samþykki við samruna Pliva og Actavis.

Loftárás á þjálfunarbúðir Palestínumanna

Ísraelsher gerði loftárás á þjálfunarbúðir herskárra Palestínumanna úr röðum Hamas-samtakanna á Gaza í kvöld. Ekki hafa borist neinar fregnir af mannfalli. Ekki hyllir undir samkomulag um lausn ísraelsks hermanns sem er í haldi herskárra Palestínumanna en talsmaður Ísraelsstjórnar sagði í dag hann enn vera á lífi.

Samgönguráðherra grípi til aðgerða

Talsmaður neytenda vill að samgönguráðherra grípi til mótvægisaðgerða vegna afnáms hámarkstaxta leigubíla. Hann segist þó ekki mótfallinn afnáminu sjálfu.

Tilraunaflaugum skotið á loft frá Norður-Kóreu

Svo gæti farið að Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna komi saman til neyðarfundar seint í kvöld eða í nótt til að ræða tilraunaskot Norður-Kóreumanna á fjórum eldflaugum. Ein þeirra er sögð langdræg. Bandaríska utanríkisráðuneytið hefur staðfest að Norður-Kóreumenn hafi skotið þremur eldflaugum á loft í kvöld í tilraunaskyni. Haft er eftir ónafngreindum fulltrúa í ráðuneytinu að ein þeirra hafi verið langdræg og af gerðinni Teopodong 2.

Sjálfsmorðstilraun vegna minnkandi atvinnuöryggis blindra í Kóreu

Lestarstarfsmenn í Kóreu björguðu í gær lífi manns, sekúndubrotum áður en neðanjarðarlest kom aðvífandi. Maðurinn stökk út á teinana, lagðist niður og beið þar eftir lestinni. Tveir lestarstarfsmenn stukku á eftir honum og engu mátti muna að þeir yrðu fyrir lestinni. Maðurinn, sem þarna ætlaði að fremja sjálfsvíg, er blindur og hafði fyrr um daginn verið synjað um starf sem nuddari. Hæstiréttur í Kóreu ákvað nýlega að lög sem kveða á um að einungis blindir megi starfa sem nuddarar séu andstæð stjórnarskránni. Í kjölfarið hefur skapast atvinnuleysi meðal blindra nuddara í Kóreu.

Skógareldar í Tyrklandi

Skógareldar loguðu á um þrjú hundruð hektara svæði í skóglendi í Vestur-Tyrklandi í dag. Fjölmargar þyrlur voru notaðar til að hella vatni yfir logana. Auk þess voru flugvélar sendar frá nærliggjandi svæðum til að taka þátt í aðgerðunum. Eldurinn logaði nálægt strandbænum Ayvalik sem stendur við Eyjahaf. Ekkert liggur fyrir um eldsupptök en vitað er að eldar kviknuðu á þremur eða fjórum stöðum samtímis. Skógareldar eru algegnir í Tyrklandi þegar heitt er og þurrviðrasamt á sumrin.

Geimskotið gekk vel

Geimferjunni Discovery var skotið á loft frá Canaveral-höfða á Flórída á sjöunda tímanum í kvöld. Geimskotið fór að óskum og er ferjan væntanleg aftur til jarðar þann sextánda þessa mánaðar. Geimskotið í dag er það fyrsta á þessu ári og aðeins í annað skipti sem geimferju er skotið á loft frá því Columbia-geimflaugin fórst fyrir þremur árum með sjö innanborðs.

Fríverslunarsamningur milli Íslands og Kína væri báðum löndunum í hag

Viðræður milli Íslands og Kína um fríverslunarsamning þeirra á milli gætu hafist síðar á þessu ári, að sögn utanríkisráðherra. Í morgun var haldinn fundur um könnun á hagkvæmni fríverslunarsamnings milli Íslands og Kína. Fundinn sátu meðal annarra Valgerður Sverrisdóttir, utanríkisráðherra, og Yi Xiaozhun, aðstoðarutanríkisráðherra Kína.

Bush fer frá Bessastöðum í laxveiði

George Bush eldri, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, kom til Íslands í dag til laxveiða. Hann snæddi kvöldverð með Ólafi Ragnari Grímssyni forseta Íslands í kvöld. Ólafur Ragnar og Dorrit Moussaieff forsetafrú tóku á móti George Bush á tröppunum á Bessastöðum. Bush ætlar að vera á landinu í þrjá daga, en strax eftir matinn á Bessastöðum var gert ráð fyrir að hann færi til laxveiða í fylgd með Orra Vigfússyni, formanni verndarsjóðs villtra laxastofna.

Ísland mun taka þátt í að fella niður skuldir fátækustu ríkja heims

Ríkisstjórnarfundur var haldinn í dag. Samþykkt var að Ísland tæki þátt í að fella niður skuldir fátækustu ríkja heims, en G8 ríkin tóku ákvörðun um að gera það í fyrra. Ísland mun leggja til fjármagn í samræmi við hlut landsins í Alþjóðaframfararstofnuninni sem er undir Alþjóðabankanum. Næstu tvö árin er um að ræða 23 milljónir króna og nálægt um 180 milljónir næstu átta árin á eftir. Þetta fé rúmast í fjárlagaramma utanríkisráðuneytisins vegna þróunarsamvinnu.

Landamærastöð á Gaza opnuð

Ísraelar opnuðu í dag mikilvæga flutningaleið inn á Gazasvæðið til að tryggja íbúum þar hjálpargögn. Ekkert lát virðist ætla að verða á aðgerðum Ísarela þar því ekki hyllir undir samkomulag um lausn ísraelsks hermanns sem er í haldi herskárra Palestínumanna. Talsmaður Ísarelsstjórnar segir hann enn á lífi.

Lög til styrktar foreldrum langveikra barna gagnast ekki öllum

Ný lög hafa tekið gildi sem tryggja foreldrum langveikra barna lágmarkstekjur í allt að níu mánuði. Faðir barns, sem þjáist af sjaldgæfum heilahrörnunarsjúkdómi, mun ekki njóta góðs af lagasetningunni þar sem barn hans var greint áður en lögin voru sett.

Minntust Heiðars Þórarins

Minningaathöfn um Heiðar Þórarinn Jóhannsson var haldin í gærkvöldi en hann lést í bifhjólaslysi í Öræfasveit í fyrradag. Athöfnin var haldin við minnisvarða um látna bifhjólamenn sem Heiðar bjó til og hannaði. Tveir hafa látist í bifhjólaslysum það sem af er árinu

Of margir nota ekki belti

Það að farþegi í aftursæti notaði ekki bílbelti er talið hafa átt þátt í að tveir biðu bana í bílslysi á síðasta ári að mati Rannsóknarnefndar umferðarslysa. Aðalvarðstjóri hjá Lögreglunni í Reykjavík segir lögreglumenn um allt land daglega sjá mikilvægi bílbeltanotkunar.

Bowen tækni við verkjum

Dæmi eru um að átröskunarsjúklingar, íþróttamenn, gigtarsjúklingar og fleiri sem þjáðst hafa af verkjum hafi fengið bót sinna meina með Bowen-tækni að sögn upphafsmanns meðferðarinnar hér á landi. Hann telur líklegt að næsti landsliðsþjálfari Englendinga í fótbolta muni nýta sér tæknina fyrir sína menn.

Melabúðin 50 ára

Ein rótgrónasta matvöruverslun Reykjavíkur, Melabúðin, fagnaði í dag hálfrar aldar afmæli sínu. Mikill fjöldi gesta var samankominn í búðinni við þetta tilefni og tóku feðgarnir þrír, sem reka búðina, vel á móti gestum og gangandi sem endranær.

Tvö tonn af fílabeini gerð upptæk í Tævan

Tollayfirvöld í Tævan hafa lagt hald á meira en tvö þúsund kíló af fílabeini frá Afríku. Skip sem flutti fílabeinið kom frá Tansaníu og var á leið til Filippseyja. Það hafði viðdvöl í Tævan þar sem upp komst um smyglið. Fílabein er eftirsótt víða um heim og víðsvegar um Asíu er það notað til framleiðslu skrautmuna og höggmynda. Ólöglegt er hins vegar að versla með það þar sem fílar eru í útrýmingarhættu.

Sjá næstu 50 fréttir