Fleiri fréttir

Enn á gjörgæslu

Unga manninum, sem slasaðist eftir að hafa misst stjórn á vélhjóli sínu á Kirkjubraut á Akranesi í gær, er enn haldið sofandi í öndunarvél á gjörgæslu. Að sögn lögreglunnar á Akranesi er ekki fullvitað um tildrög slyssins en málið er í rannsókn.

Slys í Jökuldal á Austurlandi

Björgunarsveitarmenn og lögregla eru nú á leið upp í Jökuldal á Austurlandi vegna tilkynningar um slys, sem þar mun hafa orðið á tólfta tímanum, ekki langt frá Sænautaseli, samkvæmt fyrstu fréttum. Eftir því sem Frétastofan kemst næst mun einn maður hafa slasast, en ekki lífshættulega. Ekkert er nánar vitað um atvik. Landhelgisgæslan hefur þyrlu til taks, ef óskað verður eftir henni.

Bush til landsins

Georg Bush eldri, fyrrverandi Bandaríkjaforseti, er væntanlegur til landsins síðdegis í dag og mun snæða kvöldverð í boði Ólafs Ragnars Grímssonar forseta. Hann heldur því upp á þjóðhátíðardag Bandarríkjamanna, fjórða júlí, hér á landi. Á morgun heldur hann til laxveiða í boði Orra Vigfússonar fomanns Norður- Atlantshafs fiskverndarsjóðsins. Bush hefur einu sinni áður komið hingað til lands þegar hann gengdi embætti varaforseta í forsetatíð Ronalds Regans og renndi hann þá fyrir lax í Þverá og Kjarrá.

Fleiri ferðamenn lenda í umferðaróhöppum en áður

Útlendingar á bílaleigubíl lentu i árekstri við annan bíl á blindhæð á Bláfellshálsi á Kjalvegi í gær, en engan í bílunum sakaði þótt bílarnir skemmdust mikið. Engin slasaðist heldur þegar bílaleigubíll með útlendingum fór út af Biskupstungnabraut í gær.

Óskað eftir tilboðum í flug

Ríkiskaup hafa óskað eftir tilboðum, fyrir hönd Vegagerðarinnar, í rekstur á áætlunarflugi milli Reykjavíkur og Bíldudals og Reykjavíkur og Gjögurs. Á fréttavefurinn Bæjarins besta kemur fram að um er að ræða útboð á endugreiðslu kosnaðar að frádregnum tekjum vegna farþegaflutninga á áætlunarflugi á umræddum flugleiðum og vöruflutninga hluta úr ári milli Gjögurs og Reykjavík. Opnað verður fyrir tilboð næstkomandi fimmtudag.

Fíkniefnafundur á Akureyri

Lögreglan á Akureyri handtók tvo unga menn í bænum í gærkvöldi eftir að fíkniefni fundust á þeim. Í framhaldi af því fundust líka fíkniefni á heimili annars og gista báðir mennirnir fangageymslur þar til yfirheyrslum verður fram haldið í dag. Ekki liggur fyrir hversu mikið af fíkniefnum um ræðir.-

Vill skerpa áherslur í umhverfismálum

Björgvin G. Sigurðsson þingmaður Samfylkingarinnnar kennir ósigrinum í borgarstjórnarkosningunum um fylgishrun flokksins í nýlegri skoðanakönnun Fréttablaðsins. Hann segir að Samfylkingin þurfi að sýna sitt rétta andlit í umhverfismálum.

Öllum kríueggjum rænt af friðlýstu svæði

Öllum kríueggjum í Dyrhólaey var rænt af friðlýstu svæði í síðustu viku og er öll kría farin úr eyjunni, að því er Morgunblaðið hefur eftir Þorsteini Gunnarssyni bónda í Vatnsskarðshólum. Þorsteinn telur að þetta hafi gerst í síðustu viku og hafi stórum bil verið ekið utan vegar. Lögreglan í Vík í Mýrdal hefur málið til rannsóknar, en síðast þegar eggjum var rænt í Dyrhólaey, fyrir all nokkrum árum, verpti engin kría þar í nokkur ár á eftir.-

Gefa ekki frekari upplýsingar um hermanninn

Palenstínsku skæruliðarnir sem hafa ísraelskan hermann í haldi sögðu í morgun að þeir ætluðu ekki að gefa frekari upplýsingar um líðan hans eftir að stjórnvöld í Ísrael höfnuðu tilboði um skipti á hermanninum og palenstínskum föngum. Skæruliðarnir höfðu gefið stjórnvöldum frest til klukkan þrjú í nótt til að verða við tilboði þeirra. Ísraelsher hélt áfram loftárásum á Gaza í nótt og í morgun en meðal skotmarka að þessu sinni var íslamski háskólinn í Gazaborg.

Hundruð létust í flóðum

Í það minnsta 350 manns létust í flóðum, aurskriðum og öðrum náttúruhamförum í Kína í júní. Hamfarirnar má rekja til mikilla rigninga og er búist við enn meiri úrkomu næstu daga. Allt að hundrað manns er enn saknað. Tjónið af völdum hamfaranna er metið á tvo og hálfan milljarð bandaríkjadala. Hundruð manna látast ár hvert í rigningum og hamförum þeim tengdum í Kína.

Velti bíl sólahring eftir dóm fyrir ítrekuð umferðalagabrot

Karlmaður á þrítugsaldri, sem velti bíl sínum skammt frá Geysi í Haukadal um helgina, hafði aðeins sólarhring áður verið dæmdur í níu mánaða óskilorðsbundið fangelsi fyrir ítrekuð umferðarlagabrot og ölvunarakstur. Og enn er hann grunaður um ölvunarakstur um helgina,á meðan hann beið þess að afplána dóm fyrir fyrri ölvunarakstur. Hann var fluttur á sjúkrahús ásamt tveimur farþegum en engin þeirra reyndist alvarlega slasaður.

Meintir skotmenn enn í gæsluvarðhaldi

Hæstiréttur Íslands hefur staðfest gæsluvarðhaldsúrskurð yfr tveimur af þrem mönnum sem áttu þátt í skotárás á hús í Hafnarfirði. Fram kemur í úrskurðinum að íbúi hússins í Vallarhverfinu hafi orðið fyrir skoti þegar mennirnir keyrðu að húsinu þann 21. júní síðastliðinn og skutu á það. Mennirnir tveir sem sitja enn í gæsluvarðhaldi eru hinn meinti skotmaður og ökumaðurinn. Þeir eru taldir geta skemmt fyrir rannsókninni verði þeim sleppt. Haglabyssan sem notuð var í árásinni er enn ófundin.

Talið að hjól hafi brotnað undan fremsta vagninum

Talið er að neðanjarðarlestinni, sem fór út af sporinu í Valencia á Spáni í gær, hafi verið ekið of hratt og að hjól hafi brotnað undan fremsta vagninum. Í það minnsta 41 fórst og 47 slösuðust.

Um 30% samdráttur á fasteignamarkaði

Um það bil 30% samdráttur hefur orðið í veltu á fasteignamarkaði síðan í mars, samkvæmt útreikningum KB banka. Þá var þinglýst um það bil 200 kaupsamningum í viku, en sú tala var fallin niður í 117 í síustu viku. Verðið lækkaði líka um 0,2% að nafnvirði í mái og um rösklega 1,5% að raunvirði, vegna verðbólgunnar. Ekki eru í sjónmáli horfur á að það lifni yfir markaðnum í bráð því Húsnæðislánasjóður hefur hækkað vexti sína upp fyrir bankavextina og lækkað hámarkslán.

Ísraelar hyggjast halda áfram aðgerðum á Gaza

Ísraelsk stjórnvöld hafa hafnað því að láta fimmtán þúsund Palestínumenn lausa úr ísraelskum fangelsum í skiptum fyrir ísraelska hermanninn, Gilad Shalit, sem hefur verið í haldi herskárra Palestínumanna í rúma viku. Ísarelum var gefinn frestur til klukkan þrjú í nótt að íslenskum tíma til að verða við þessum kröfum ellegar yrði gripið til óyndisúrræða. Hryðjuverkamennirnir skilgreindu ekki nánar hvað gert yrði.

Sprengjuárás á olíuleiðslu í Írak

Sprengjuárás var gerð á olíuleiðslu í Norður-Írak í dag. Ekki er talið að árásin hafi áhrif á olíuútflutning frá landinu. Leiðslan dælir olíu til stöðva í bænum Kirkuk, tæpa þrjú hundruð kílómetra norður af höfuðborginni Bagdad. Sú olía er síðan flutt til Tyrklands. Í síðustu viku tilkynnti olíumálaráðherra Íraks að framleiðsla í Írak hefði nú náð tveimur og hálfri milljón tunna á dag sem er það mesta síðan innrásin í Írak var gerði í mars 2003.

Bandarískur hermaður ákærður fyrir morð og nauðgun

Fyrrverandi hermaður í bandaríska hernum verður á næstu dögum ákærður fyrir að hafa nauðgað konu í Írak og myrt hana og fjölskyldu hennar. Þetta mun hafa gerst í mars síðastliðnum. Maðurinn var leystur frá störfum í hernum þar sem hann var sagður þjást af persónuleikaröskun.

Minningarathöfn um Heiðar Þórarinn við minnisvarða hans

Minningarathöfn var haldin í kvöld um Heiðar Þórarinn Jóhannsson sem lést í bifhjólaslysi í Öræfasveit í gær. Athöfnin fór fram við minnisvarða um látna bifhjólaökumenn við Varmahlíð en Heiðar Þórarinn hannaði sjálfur og bjó til minnisvarðann. Minnisvarðinn heitir "Fallinn" og var vígður 17. júní í fyrra á 100 ára afmæli bifhjólsins á Íslandi. Talið er að á annað hundrað manns hafi komið saman við minnisvarðann í kvöld til að heiðra minningu Heiðars.

Mannskæð flóð við Svartahaf

Minnst átján manns hafa drukknað og þriggja er saknað í flóðum sem hefur herjað á íbúa í fjórum ríkjum sem liggja að Svartahafi. Töluvert hefur rignt á svæðinu með þessum hörmulegu afleiðingum. Í Úkraínu fóru um fimm hundruð heimili í sjö þorpum á kaf þegar stífla gaf sig. Tvær konur drukknuðu. Úrhellið á svæðinu stóð í margar klukkustundir og eru íbúar í einu þorpi án vatns og matar en flætt hefur í alla vatnsbrunna þar. Fæstum þeirra sem þurftu að yfirgefa heimili sín tókst að bjarga einhverju af eigum sínum.

Lögreglubílvelta

Bílvelta varð á Reykjanesbrautinni til móts við Álverið í Straumsvík á áttunda tímanum í kvöld. Lögreglubíll, með tveimur lögreglumönnum innanborðs, var á leið í útkall í hús sem stendur til móts við geymslusvæði álversins. Til slagsmála hafði komið í húsinu. Lögreglumennirnir voru rétt ókomnir þangað þegar bifreið þeirra rann útaf veginum. Hvorugan lögreglumannin sakaði.

Héldu áfram för sinni eftir bílveltu

Í umdæmi lögreglunnar á Selfossi voru þrír kærðir fyrir ölvunarakstur um helgina og 52 fyrir hraðakstur. Auk þessa varð bílvelta snemma á sunnudagsmorgun á Biskupstungnabraut skammt neðan við Geysi í Haukadal. Þrennt var í bifreiðinni, tveir ungir karlar og unglingsstúlka. Fólkið var á leið frá Gullfossi að Laugarvatni þegar ökumaður missti stjórn á bílnum og hann fór út af veginum. Talið er að bíllinn hafi farið eina og hálfa veltu.

Viðræður hefjast að nýju um Landsvirkjun

Viðræður um kaup ríkisins á eignarhlut Reykjavíkurborgar og Akureyrarbæjar í Landsvirkjun eru að hefjast að nýju. Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson borgarstjóri vonast til að borgin selji fyrir haustið.

Tafir á Kastrup

Miklar tafir hafa orðið á flugi frá Kastrup flugvelli síðustu tvo daga. Að sögn langþreytts farþega biðu hundruð viðskiptavina Icelandair og Iceland Express klukkustundum saman eftir að komast heim í gær. Upplýsingafulltrúi Flugleiða segir að þessar tafir stafi annars vegar af verkfallsdeilum þjónustuaðila á flugvellinum og hins vegar af bilunum í færiböndum fyrir töskur. Borið hefur við að farþegar hafi fengið töskur sínar með seinna flugi af þessum sökum. Leyst hefur verið úr launadeilum dönsku starfsmannanna en hins vegar er hægt að búast við að tæknileg vandamál geri vart við sig eitthvað áfram.

Rigningarlaust í sex daga í júní

Aðeins sex alþurrir dagar voru í Reykjavík í júní og Reykvíkingar því orðnir nokkuð sólsveltir. Sundlaugagestir í Laugardalnum létu sólarleysið þó ekki á sig fá á meðan sólbekkirnir lágu ónotaðir í stöflum.

Innflytjendaflokkur stofnaður á næstu dögum

Innflytjendaflokkurinn, stjórnmálaflokkur með áherslur á málefni innflytjenda, verður stofnaður á næstu dögum. Stofnandi flokksins segir að tími sé kominn til að raddir innflytjenda heyrist í þjóðfélaginu. Paul F. Nikolov, blaðamaður á Reykjavík Grapevine, skrifaði pistil í nýjasta tölublaði blaðsins sem kom út á föstudaginn var. Hann segir að niðurstöður sveitastjórnarkosninganna hafi verið mörgum vonbrigði. Þeir flokkar sem buðu fram hafi lagt litla áherslu á málefni innflytjenda.

Ók á áhorfendur að kappróðri

Tíu slösuðust þegar ökumaður ók bíl sínum í gegnum áhorfendaskara við kappróðrarkeppni og út í Ohio-á í Bandaríkjunum í gær. Fjórir slösuðust, þar á meðal ökumaðurinn. Allir dvelja þeir enn á sjúkrahúsi og tveir eru í lífshættu. Ökumaðurinn, sem er átján ára, var meðvitundarlaus þegar hann var dreginn upp úr ánni. Talið er að hann hafi misst meðvitund af óþekktum orsökum og það hafi valdið slysinu.

Réttað yfir Rauðu kmerunum

Dómarar og saksóknarar við sérskipaðan stríðsglæpadómstól í Kambódíu tóku við embætti í dag. Þar verður réttað yfir fyrrverandi leiðtogum Rauðu kmeranna sem eru sakaðir um þjóðarmorð og glæpi gegn mannkyninu. Kmerarnir voru við völd á árunum 1975 til 1979 og talið að um 1,7 milljón manna hafi látist úr hungri og þrældómi auk þess sem fjölmargir voru myrtir. Pol Pot, leiðtogi Rauðu kmeranna, lést árið 1998. Fjölmargir nánir samstarfsmenn hans ganga enn lausir og geta um frjálst höfuð strokið í Kambódíu.

Umferðaróhöpp við Selfoss

Tvö umferðaróhöpp urðu í nágrenni Selfoss í dag. Það fyrra varð þegar fólksbíll og lítil jeppi skullu saman á blindhæð á Bláfellshálsi á Kjalvegi um klukkan tvö í dag. Það seinna varð við Múla í Biskupstungum en þar missti ökumaður stjórn á bíl sínum og lenti utan vegar. Engin slys urðu á fólki en töluverðar skemmdir urðu þó á bílunum. Í báðum óhöppunum var um erlenda ferðamenn að ræða sem að sögn lögreglu áttuðu sig ekki á íslenskum aðstæðum.

Nærri 90% Íslendinga nota tölvu og netið

Nærri níu af hverjum tíu Íslendingum á aldrinum 16-74 ára nota tölvu og netið. Þetta kemur fram í könnun Hagstofunnar á notkun landsmanna á tæknibúnaði og netinu. Engin Evrópuþjóð er með jafn hátt hlutfall nettenginga og Íslendingar.

Á gjörgæslu eftir vélhjólaslys

Ungur maður slasaðist í dag eftir að hafa misst stjórn á vélhjóli sínu á innanbæjar á Akranesi rétt fyrir klukkan tvö í dag. Hann var fluttur á gjörgæslu Landspítalans þar sem hugað er að líðan hans.

Fyrrverandi samgönguráðherra sendir þeim núverandi tóninn

Halldór Blöndal, fyrrverandi samgöngumálaráðherra, sendir Sturlu Böðvarssyni, samgöngumálaráðherra, tóninn í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag. Hann segir að leið einkaframkvæmdar, sem Sturla vilji fara, sé engin töfralausn heldur til þess gerð að fela lántökur ríksins. Í grein Halldórs minnist hann sérstaklega á fyrirhugaðar framkvæmdir við veg úr Reykjavík austur að Þjórsárbrú. Hann segir að slíkur vegur yrði fjármagnaður með svokölluðum skuggagjöldum; aðferð sem bæði hann og Steingrímur J. Sigfússon hafi afskrifað á sínum tíma. Skynsamlegra sé að nýta þá þekkingu og reynslu sem vegagerðin býr að.

Vonast eftir góðu gengi geimferjunar

Bjarni Tryggvason geimfari segir mikilvægt fyrir bandarísku geimvísindastofnunina NASA að ferð geimferjunnar Discovery takist vel. Geimskoti hefur verið frestað tvisvar en vonast er til að ferjan fari á loft á morgun.

Írakar krefja Jórdaníu um dóttur Saddams

Raghad, dóttir Saddams Hússeins, fyrrverandi Íraksforseta, er gestur konungsfjölskyldurnnar í Jórdaníu þar sem hún heldur til og hefur fengið hæli af mannúðarástæðum. Írösk stjórnvöld segja hana og móður hennar, eftirlýst og ætla að krefjast framsals. Forsætisráðherra Jórdaníu greindi frá því í morgun að Raghad, dóttir einræðisherrans fyrrverandi, væri gestur jórdönsku konungsfjölskyldunnar, og hefði fengið hæli þar í landi ásamt börnum sínum með því skilyrði að hún tæki ekki þátt í starfi stjórnmálaafls eða léti að sér kveða á því sviði. Þjóðaröryggisráðgjafi stjórnvalda í Írak segir að framsals hennar veðri krafist þar sem hún sé eftirlýst í heimalandi sínu. Þrátt fyrir loforð hennar gagnvart jórdönskum yfirvöldum er hún sögð hafa skipulagt fjáröflun til að hún geti greitt lögfræðikostnað föðurs síns. Jórdönsk yfirvöld segjast ekki hafa fengið formlega framsalsbeiðni frá íröskum stjórnvöldum. Eiginkona Íraksforseta fyrrverandi, Sajida, er einnig eftirlýst en hún heldur til í Doha, höfuðborg Katar, þar sem henni hefur verið veitt hæli. Írösk stjórnvöld hafa haldið því fram að ættingjar Saddams Hússeins fjármagni andspyrnuhópa í Írak og því gengið hart fram í að óska framsals.

Miklar tafir á Kastrup

Miklar tafir hafa orðið á flugi frá Kastrup flugvelli síðustu tvo daga eða svo. Að sögn langþreytts farþega biðu hundruð viðskiptavina Icelandair og Iceland express klukkustundum saman eftir að komast heim í gær. Upplýsingafulltrúi Flugleiða segir að þessar tafir stafi annars vegar af verkfallsdeilum þjónustuaðila á flugvellinum og hins vegar af bilunum í færiböndum fyrir töskuflutninga. Borið hefur við að farþegar hafi fengið töskur sínar með seinna flugi af þessum sökum. Leyst hefur verið úr launadeilum dönsku starfsmannanna en hins vegar geta tæknileg vandamál gert vart við sig eitthvað áfram.

Forkólfar Sjálfstæðisflokksins hengja Bjarna Ben upp á ný

Fjölmenni var á hátíðlegri athöfn í Höfða á föstudagskvöld þegar málverk af Bjarna Benediktssyni, fyrrverandi borgarstjóra Reykjavíkur, var hengt upp á ný. Helstu forkólfar Sjálfstæðisflokksins voru meðal þeirra sem heiðruðu minningu Bjarna Benediktssonar.

Á fjórða tug manna látnir

Staðfest er að þrjátíu og fjórir létu lífið þegar nokkrir vagnar neðanjarðarlestar fór út af sporinu og á hvolf í borgini Valencia á Spáni í dag. Fjölmargir slösuðust. Ekki er talið að um hryðjuverkaárás hafi verið að ræða. Um það bil tvö hundruð og fimmtíu lögreglumenn og minnst tuttugu slökkviliðsmenn komu þegar á vettvang og flytja þurfti um hundrað og fimmtíu manns frá lestarstöðinni þar sem slysið varð. Talsmaður björgunarsveita í Valenciu segir að einn lestarvagn, hið minnsta, hafi farið af sporinu þegar lestin var að leggja af stað frá lestarstöð í miðborginni. Ekki er talið að um hryðjuverk sé að ræða, líkast til hafi lestin farið of hratt og hjól gefið sig. Áður var talið að veggur hefði hrunið á einn lestarvagninn en það hefur nú verið útilokað. Rúmlega sextíu milljón manns notuðu neðanjarðarlestarkerfið í Valecia í fyrra, að meðaltali um hundrað sextíu og fimm þúsund manns á dag. Valencia er ein stærsta borgin á Spáni en þar búa um sex hundruð þúsund manns. Fjölmargir gestir eru væntanlegir til borgarinnar þar sem mikil fjölskylduhátíð er haldinn þar um næstu helgi. Meðal gesta er Benedikt páfi sextándi.

Segir Sýrlendinga ábyrga

Amir Peretz, varnarmálaráðherra Ísraels, segir Sýrlendinga bera ábyrgð á örlögum ísraelska hermannsins sem hefur verIð í haldi herskárra Palestínumanna í Rúma viku. Hann er sagður í haldi manna sem tengist Hamas-samtökunum sem leiða heimastjórn Palestínumanna. Peretz lagði áherslu á það í dag að Khaled Mashaal, æðsti leiðtogi Hamas, hefðist við í Sýrlandi og því teldu Ísraelar ljóst að Hamas og Mashaal störfuðu með stuðningi stjórnvalda í Damascus. Ísraelar hafa sent herlið sitt til árása á Gaza-svæðinu til að tryggja lausn hermannsins.

Segir harðar aðgerðir við ólöglegum veiðum nauðsynlegar

Einar K. Guðfinnsson sjávarútvegsráðherra hefur lýst yfir stuðningi við aðgerðum norsku strandgæslunnar að færa skipið “Joana” til hafnar í dag. Skipverjar þess voru á veiðum á alþjóðlegu hafsvæði norður af Noregi. Samkvæmt upplýsingum sjávarútvegsráðuneytisins er skipið “þjóðernislaust” það er að segja, siglir hvorki undir fána nokkurs ríkis né eru á því merkingar um heimahöfn eða skráningarnúmer. Íslensk stjórnvöld hafa átt samstarf við ýmsar þjóðir, þar á meðal Norðmenn, sem ætlað er að efla aðgerðir gegn ólöglegum og óábyrgum fiskveiðum. Í fréttatilkynningu frá Sjávarútvegsráðuneytinu kemur fram að Einar K. Guðfinnsson segist hafa fullan skilning á aðgerðum sem þessum. Nauðsynlegt sé að grípa til harðra aðgerða ef takast eigi að stjórna skipum sem sigla án fána og hindra veiðar þeirra. Fiskveiðinefnd Norðaustur- Atlantshafs samþykkti nýlega að skip sem staðin hafa verið að ólöglegum veiðum, fái ekki að leggjast að höfn í aðildarríkjum nefndarinnar en henni tilheyra Evrópusambandsríkin, Rússland, Noregur, Ísland, Grænland og Færeyjar. Fyrr í þessum mánuði ákváðu sjávarútvegsráðherrar aðildarríkja Fiskveiðinefndarinnar einnig að útbúa samræmdan lista yfir óskráð skip en með þeim aðgerðum gætu þau fengið á sig hafnbann allt frá Grænlandi, Íslandi, Kanada og Noregi til Namibíu, Suður Afríku og Argentínu í suðri.

Vill að bílprófsaldurinn verði hækkaður

Sýslumaðurinn á Selfossi vil að bílprófsaldurinn verðu hækkaður upp í 18 ára aldur til samræmis við sjálfræðisaldurinn. Hann segir unga ökumenn eiga lítið erindi í umferðina.

Allt að þrjátíu manns týndu lífi í lestarslysi

Óttast er að allt að þrjátíu manns hafi látið lífið þegar neðanjarðarlest í spænsku borginni Valencia fór út af spori og fór á hvolf. Um 150 manns voru fluttir burt frá lestarstöðinni þar sem slysið varð. Embættismaður í Valencia segir að svo virðist sem lestin hafi farið of hratt og að hjól hafi brotnað þegar lestarstjórinn hemlaði.

Sjá næstu 50 fréttir