Erlent

Læknirinn sem varaði við kórónuveirunni hreinsaður af sök

Samúel Karl Ólason skrifar
Læknirinn Li Wenliang varaði við veirunni í desember.
Læknirinn Li Wenliang varaði við veirunni í desember. Weibo

Þegar læknirinn Li Wenliang reyndi að vara við nýjum smitsjúkdómi sem var að herja á íbúa Wuhan í Kína, var ekki hlustað á hann. Þess í stað voru lögregluþjónar sendir heim til hans og var hann látinn skrifa undir bréf þar sem hann gekkst við því að setja fram falskar fullyrðingar“ sem höfðu „raskað verulega allsherjarreglu“.

Aðrir læknar sem Li hafði rætt við og höfðu sömuleiðis reynt að vara við veirunni urðu einnig fyrir refsingum.

Yfirvöld í Kína hafa nú hreinsað Li sök, beðið fjölskyldu hans afsökunar og refsað lögregluþjónunum tveimur sem ræddu við hann, samkvæmt Kommúnistaflokki Kína.

Aðgerðir sem þessar þykja frekar merkilegar þar sem Kommúnistaflokkurinn viðurkennir sjaldan sem aldrei að hafa gert nokkuð rangt og forsvarsmenn flokksins sætta sig ekki við gagnrýni og mótlæti.

Þann 30. desember sendi Li öðrum læknum viðvörun og ráðlagði þeim að klæðast hlífðarklæðum. Hann smitaðist sjálfur af kórónuveirunni í byrjun janúar en það var ekki staðfest fyrr en þann 30. janúar. Li dó svo þann 6. febrúar.

Eftir að Li dó varð hann táknmynd mikillar reiði í garð Kommúnistaflokksins.

Sjá einnig: Kín­verjar bál­reiðir yfir­völdum vegna and­láts læknisins

Andlát hans varð fljótt langvinsælasta umræðuefnið á samfélagsmiðlum og var Kommúnistaflokkurinn meðal annars sakaður um þöggunartilburði. Margir börðust fyrir auknu tjáningarfrelsi en slíkar færslur voru þó fljótt fjarlægðar.

Eins og AP fréttaveitan bendir á er þetta alls ekki í fyrsta sinn sem Kommúnistaflokkurinn er sakaður um að hylma yfir eða taka illa á slysum, hamförum og slíku. Meðal annars varðandi fuglaflensuna 2003, eiturefnaleka árið 2005 sem mengaði neysluvatn milljóna og sölu mengaðrar barnamjólkur, svo eitthvað sé nefnt.

Í öllum þessum tilfellum voru embættismenn flokksins sakaðir um að sitja á upplýsingum sem almenningur þurfti til að verja sig.

Í mörgum þessara tilfella leyfði flokkurinn almenningi að ausa úr skálum reiði sinnar á samfélagsmiðlum í smá stund, áður en lokað var á alla umræðu og fjölmiðlar notaðir til að kaffæra alla gagnrýni. Þeir sem héldu áfram að gagnrýna fyrirvöld í Kína áttu á hættu á að lenda í fangelsi.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×