Erlent

Banda­ríkja­menn leggja hald á olíu­flutninga­skip undan ströndum Venesúela

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
„Reyndar stærsta olíuflutningaskip sem hefur nokkurn tímann verið tekið yfir.“
„Reyndar stærsta olíuflutningaskip sem hefur nokkurn tímann verið tekið yfir.“ AP

Bandarískt herlið hefur tekið stjórn á olíuflutningaskipi undan ströndum Venesúela. Donald Trump Bandaríkjaforseti tilkynnti þetta á blaðamannafundi og sagði von á frekari árásum.

Um er að ræða enn eina stigmögnunina í egningarherferð Bandaríkjanna. Bandaríkjamenn hafa þegar drepið tæplega hundrað manns í loftárásum á smábáta sem stjórnvöld saka um að smygla fíkniefnum til Bandaríkjanna. Nýverið tilkynnti hann einnig að Bandaríkin hefðu lokað lofthelgi Venesúela.

„Við höfum tekið olíuflutningaskip yfir undan ströndum Venesúela, stórt skip, mjög stórt, það stærsta sem hefur nokkurn tímann verið tekið yfir. Og það er fleira í gangi, þið munuð sjá það síðar og munið tala um það síðar við aðra,“ sagði hann við blaðamenn í Hvíta húsinu í kvöld.

Tveir ónefndir embættismenn sem fréttaveitan Reuters ræddi við sögðu að bandaríska landhelgisgæslan hefði framkvæmt árásina en ekki er ljóst um hvaða skip ræðir eða hvar árásin átti sér stað.

Olía er helsta útflutningsvara Venesúela sem býr jafnframt yfir heimsins mesta jarðolíuforða. Helsti kaupandi venesúelanskrar olíu eru Kínverjar en líkt og heimsmiðlarnir taka fram er óljóst í hvaða tilgangi árásin var gerð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×