Lúxem­borg - Ís­land 1-3 | Aftur fögnuðu ungu strákarnir okkar

Kolbeinn Kristinsson skrifar
Eggert Aron Guðmundsson skoraði þriðja mark Íslands í dag.
Eggert Aron Guðmundsson skoraði þriðja mark Íslands í dag.

Íslenska U21 landsliðið mætti Lúxemborg í undankeppni EM, fyrir mótið sem fer fram árið 2027, en leikið var ytra í kvöld.

Ísland vann leikinn 3-1 og setti inn prýðilega frammistöðu á köflum í almennt tíðindalitlum og rólegum leik en sigurinn var í raun aldrei í hættu.

Úrslitin þýða að Ísland situr í 2. sæti í riðlinum eins og er með átta stig eftir fimm spilaða leiki en bæði Sviss og Frakkland koma þar fyrir aftan með tvo og þrjá leiki til góða. Báðir sigrar Íslands hafa komið gegn Lúxemborg því Ísland vann 2-1 í Reykjavík fyrir mánuði, í síðasta leik.

Tvö mörk í fyrri hálfleik

Leikurinn byrjaði frekar rólega en Ísland var töluvert meira með boltann en þó án þess að skapa sér einhver marktækifæri fyrst um sinn.

Ísland braut hins vegar ísinn á 14. mínútu þegar Benóný Breki sendi inn fyrir á Ágúst Orra sem kláraði færið sitt vel. Lúxemborg var nálægt því að jafna leikinn eftir rúmlega tuttugu mínútna leik en Ísland slapp með skrekkinn.

Á 25. mínútu tvöfaldaði Ísland forustuna þegar Benóný Breki þræddi boltann á Hauk Andra sem brást ekki bogalistin og kláraði færið vel með snyrtilegri vippu yfir markmann Lúxemborgar.

Ísland var tveimur mörkum yfir þegar gengið var til búningsherbergja.

Sigurinn öruggur

Lúxemborg hóf síðari hálfleikinn af ögn meiri krafti en þann fyrri og það var á 49. mínútu sem Miguel Goncalves skoraði með föstu skoti fyrir utan teig. Þetta var ekki byrjunin sem Ísland óskaði sér en strákarnir voru ekki á þeim buxunum að leggja árar í bát, því örfáum mínútum seinna var Eggert Aron búinn að skora hinum megin á vellinum með góðu skoti úr vítateignum. Staðan var orðin 3-1 og liðið búið að endurheimta tveggja marka forustu.

Leikurinn róaðist satt best að segja töluvert eftir þessa atkvæðamiklu lotu og í raun gerðist fátt markvert þangað til á 79. mínútu þegar brotið var á Hilmi Rafni, sem hafði komið inn á völlinn sem varamaður fyrir Benóný Breka skömmu áður, inni í vítateig Lúxemborgar. Hilmir Rafn steig sjálfur á punktinn en markvörður Lúxemborgar sá við honum og varði.

Niðurstaðan var sú að íslensku strákarnir unnu verðskuldaðan sigur og tengdu þar með tvo sigurleiki saman eftir heldur brösuga byrjun í riðlinum.

Atvik leiksins

Annað mark Íslands var stórgott, þ.e. afgreiðslan hjá Hauki Andra í fyrri hálfleik þegar hann kláraði færið sitt með snyrtilegri vippu yfir markmann Lúxemborgar, töluverð gæði.

Stjörnur og skúrkar

Sigurinn var öruggur á endanum en margir leikmenn settu inn ágæta frammistöðu. Benóný Breki var með tvær stoðsendingar, Ágúst Orri var að öðrum ólöstuðum maður leiksins og þá var Haukur Andri sömuleiðis kraftmikill í liði Íslands þrátt fyrir að leika bara fyrri hálfleikinn.

Dómarinn

Ágæt frammistaða í kvöld hjá dómarateyminu frá Georgíu. Sæmilegt flæði var á leiknum og allar stóru ákvarðanir virtust vera réttar. Ég set að vísu smá spurningarmerki við gula spjaldið sem Ágúst Orri fékk í fyrri hálfleiknum fyrir meintan leikaraskap, harður dómur alltént. Einkunn 7,5.

Stemning og umgjörð

Frekar fámennt og takmörkuð stemmning var á vellinum í Lúxemborg. Fátt sem drepur stemningu jafnmikið og eitt stykki hlaupabraut. Þá virtist leikflöturinn, þ.e. grasið sjálft, heldur ekki vera í frábæru ásigkomulagi.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira