Íslenski boltinn

Brynjar Björn í Breið­holtið

Sindri Sverrisson skrifar
Brynjar Björn Gunnarsson er mættur í Breiðholtið.
Brynjar Björn Gunnarsson er mættur í Breiðholtið. Leiknir

Brynjar Björn Gunnarsson var í dag kynntur sem nýr þjálfari Leiknis í Lengjudeild karla í fótbolta. Hann tekur við starfinu af Ágústi Gylfasyni sem hætti að loknu síðasta tímabili.

Undir stjórn Ágústs tókst Leikni að forða sér frá falli niður í 2. deild með því að vinna tvo síðustu leiki sína og enda í 9. sæti, fjórum stigum frá fallsæti.

Brynjar býr yfir mikilli reynslu og var til að mynda sérstakur meðþjálfari Íslandsmeistara Víkings í sumar vegna kröfu UEFA um réttindi þjálfara í Evrópukeppnum. 

Hann hefur einnig þjálfað HK, Örgryte og Grindavík auk þess sem hann var aðstoðarþjálfari hjá Stjörnunni og Fylki.

Sem leikmaður lék Brynjar 74 A-landsleiki fyrir Íslands hönd og hann á að baki farsælan atvinnumannaferil erlendis með Stoke, Nottingham Forest, Watford og Reading á Englandi, Vålerenga í Noregi og Örgryte í Svíþjóð.

Með ráðningu Brynjars til Leiknis hafa nú þrjú félög í Lengjudeildinni ráðið nýjan þjálfara í vikunni því áður hafði HK tilkynnt um komu Gunnars Heiðars Þorvaldssonar og Njarðvík um komu Davíðs Smára Lamude.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×