Upp­gjör: Grinda­vík - Kefla­vík 104-92 | Ekkert stöðvar Grind­víkinga

Árni Jóhannsson skrifar
DeAndre Kane er algjör lykilmaður hjá Grindavík.
DeAndre Kane er algjör lykilmaður hjá Grindavík. vísir/Anton

Grindavík vann tólf stiga sigur gegn Keflavík í kvöld, 104-92, í leik sem þó var afar spennandi lengst af. Grindvíkingar eru því einir á toppi Bónus-deildar karla í körfubolta með fullt hús stiga eftir sex umferðir.

Leikurinn byrjaði af miklum krafti. Bæði lið hittu vel og það var ekki fyrr en eftir nærrum því fjórar mínútur að skot fóru að klikka hjá báðum liðum. Þá náðu Keflvíkingar undirtökunum og komust í meira en tveggja körfu forskot en Grindvíkingar voru fljótir að ná því til baka og komast yfir. Fyrsti leikhluti endaði í stöðunni 27-25 fyrir heimamenn.

Keflvíkingar voru ekki nógu skynsamir í sínum aðgerðum og Grindvíkingar gengu á lagið og áður en við var litið var munurinn orðinn 13 stig fyrir Grindavík og þeir litu út fyrir að ætla að hlaupa í burtu með leikinn. Keflvíkingar náðu vopnum sínum en misstu þau aftur en þó ekki langt frá sér. Staðan 53-47 fyrir Grindavík og ekkert ráðið þegar 20 leikmínútur voru eftir.

Aftur byrjuðu liðin á háu tempói í sóknarleiknum og beðið var eftir því að liðið tækju við sér í varnarleiknum. Grindavík hélt forskotinu en Keflavík náði að jafna undir lok þriðja leikhlutans í 72-72 en DeAndre Kane var ekki á því að hleypa þessu upp í einhverja vitleysu setti niður þrist og Grindavík var með forskot fyrir lokaátökin. Staðan 75-73.

Grindavík náði aftur frumkvæðinu og komst yfir 84-76 og aftur virtist það vera þannig að Grindavík væri að klára en þá fóru Keflvíkingar að hitta betur og nöguðu muninn aftur niður en náðu ekki að komast yfir hólinn sem hafði skapast. Khalil Shabazz, Deandre Kane og Ólafur Ólafsson tóku til sinna ráða í lok leiksins og hver stór aðgerðin rak aðra þegar Keflavík hafði náð muninum niður í eina körfu og úr varð 104-92 sigur Grindvíkinga. Þeir neita að tapa körfuboltaleikjum þennan veturinn.

Atvik leiksins

Ólafur Ólafsson setti niður þrist þegar minna en mínúta var eftir og kom muninum í 10 stig. Skotið rúllaði lengi á hringnum en fór niður. Klassískt atvik hjá Óla Óla. Steindrap leikinn og ærði aðdáendur Grindavíkur.

Stjörnur og skúrkar

Þetta var frábær leikur. Minnti á úrslitakeppni og bæði lið léku vel á löngum köflum. Deandre Kane lauk leik með 24 stig, 10 stoðsendingar og átta fráköst. Hann átti stór augnablik allan leikinn eins og Ólafur sem endaði með 20 stig.

Umgjörð og stemmning

HS Orku höllin er byggð fyrir þessa leiki. Það var rosaleg stemmning og ég heyrði hjá vallarstarfsmanni að 1000 manns hafi verið á leiknum og á tímabili ætluðu eyrun að rifna af blaðamanni sökum hávaða. Meira af þessu takk.

Dómarar leiksins

Sigmundur Már Herbertsson, Davíð Kristján Hreiðarsson og Birgir Örn Hjörvarsson sáu um framkvæmd leiksins. Þeim var kannski vorkunn að lenda á þessum leik en það var enginn ánægður með störf þeirra í kvöld. Línan var skrýtin og fór það í taugarnar á öllum viðkomandi. Það skipti kannski ekki máli en það mátti litlu muna að tök þeirra á leiknum væru engin.

Viðtöl:

Daníel Guðni: Þeir bara hittu betur

Þjálfari Keflvíkinga, Daníel Guðni Guðmundsson, var alveg ánægður með ýmislegt í leik sinna manna í kvöld þrátt fyrir tap en fór yfir það sem fór úrskeiðis í lok leiksins.

„Þetta fór einhversstaðar í fjórða leikhluta þegar þeir fóru að hitta meira en við. Þeir gerðu vel í sókninni sinni og fóru að ráðast á okkur á stöðum sem þeir vildu gera. Svo fóru þeir að frákasta betur í fjórða leikhluta og við bara hittum ekki jafnvel og þeir undir lokin. Þetta litast af því. Þetta voru ágætis skot og þetta var ekki mikið ströggl að spila sóknina en þeir bara hittu betur.“

Hefur Daníel einhverjar áhyggjur af því að hans menn hafi minnkað muninn niður í tvö stig og líka eitt stig en náðu ekki að komast yfir hólinn?

„Mögulega, ég held að þetta sé ekki áhyggjuefni. Við hefðum kannski getað gert eitthvað betur en ég þarf að horfa á þetta aftur. Við vorum 92 stig hérna í kvöld en við vorum að gefa of mikið af auðveldum körfum. Það er eitthvað sem ég þarf að taka á mig, þetta var sú nálgun sem ég vildi miðað við leikinn en mér fannst þeir fara full auðveldlega með okkur á köflum.“

Það er bara nóvember en þetta hlýtur að vera forsmekkurinn að vorinu.

„Já já. Þetta eru hörkuleikir. Það geta allir unnið alla og nú erum við með tvö töp á móti liðum sem við viljum máta okkur við. Við verðum bara að æfa okkur að verða betri í körfubolta. Sérstaklega í vörn og svo að hitta skotum undir lokin. Það væri geggjað.“

Dómararnir voru ekki vinsælustu menn kvöldsins en Daníel vildi ekki fara of mikið yfir þau mál.

„Þeir eru bara að gera sitt besta og eru að reyna að halda einhverri línu þó það sé ekki eins og þjálfararnir vilja. Það væri frekar asnalegt ef ég og Jóhann myndum fá allt sem við viljum en þetta eru reynslumiklir dómarar. Ég var óánægður með nokkur atriði eins og eftir flesta leiki.“

Jóhann: Það er alltaf gaman að vinna Keflavík

Jóhann Ólafsson þjálfari Grindavíkur var sigurreifur í viðtali en talaði um að vegferðin héldi áfram.

„Það er alltaf gaman að vinna Keflavík. Vegferðin heldur áfram. Hraðinn og andrúmsloftið var svolítið hátt. Planið sem við settum upp fór fljótt í vitleysu en mér fannst við gera vel í þessum leik. Í lokin var þetta dálítið eins og í úrslitakeppninni og þá er allt sem heitir kerfi sem á að ganga svona og hinsegin fauk út í veður og vind. Við gerðum vel í að meiða þá á þessu háa boltaskríni og fórum sterkt á þá. Kane var frábær í kvöld og dró okkur í land.“

Grindavík er með marga karaktera sem draga svona leiki yfir línuna. Það hlýtur að vera mjög ánægjulegt fyrir þjálfara.

„Algjörlega. Við erum með gott lið og góðan hóp. Litríkir karakterar inn á milli sem krydda þetta og gera þetta skemmtilegt.“

Hvað gerir þessi sigur fyrir Grindavík?

„Það er alltaf gaman að vinna Keflavík. Það er góður og vinalegur rígur hérna á milli. Enn meira eftir að Danni byrjaði að þjálfa, við erum góðir vinir. Það var líka kærkomið að komast aftur af stað og geggjaður sigur.“

Að lokum var Jóhann spurður út í hvort hann þyrfti að hafa áhyggjur af einhverju. 

„Það er starf þjálfarans að hafa áhyggjur af þessu. Við erum á vegferð og við erum á ferðalagi og við ætlum að njóta þess á meðan og svo þegar fer að vora þá reyna allir að komast eins langt og þeir geta.“

Óánægja var beggja megin línunnar í kvöld. Vildi Jóhann eitthvað ræða þeirra störf.

„Nei alls ekki. Pottþétt erfitt að dæma þennan leik. Þeir stóðu sig vel.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira