Shakhtar - Breiða­blik 2-0 | Breiða­blik átti sín augna­blik

Kolbeinn Kristinsson skrifar
Höskuldur Gunnlaugsson er fyrirliði Breiðabliks.
Höskuldur Gunnlaugsson er fyrirliði Breiðabliks. Getty/Grzegorz Wajda

Breiðablik mætti úkraínska liðinu Shakhtar Donetsk í 3. umferð Sambandsdeildar Evrópu en leikið var í Kraká í Póllandi.

Shakhtar vann leikinn 2-0 og þrátt fyrir prýðis frammistöðu Blika á köflum þá var sigur heimamanna í raun aldrei í hættu enda um virkilega öflugan andstæðing að ræða.

Úrslitin þýða að Breiðablik er áfram með eitt stig í keppninni og situr í 31. sæti en Shakhtar var að sækja sinn annan sigur og er með sex stig í 7. sæti.

Lágu lágt en stefndu hátt

Leikurinn byrjaði frekar rólega en eins og gera mátti ráð fyrir þá var lið Shakhtar töluvert meira með boltann en þó án þess að skapa sér einhvern stórkostlegan fjölda færa. Lið Breiðabliks lá aftarlega á vellinum, varðist á mörgum mönnum og freistaði þess að beita skyndisóknum.

Shakhtar braut ísinn á 28. mínútu þegar Nazaryna tók hornspyrnu frá hægri og spyrnti knettinum beint á vítateigsbogann hvar liðsfélagi hans Bondarenko var staðsettur og skaut viðstöðulausu skoti með vinstri fæti í netið. Mark beint af æfingasvæðinu.

Blikar lögðu hins vegar ekkert árar í bát við þetta kjaftshögg heldur héldu áfram sínu skipulagi og voru agaðir í leik sínum.

Í uppbótartíma fyrri hálfleiks náðu Blikar góðri skyndisókn er Kristinn Jónsson fann Þorleif Úlfarsson sem fann Ágúst Orra og unnu upp úr henni hornspyrnu sem að vísu rann út í sandinn en Breiðablik gerði í kjölfarið vægt tilkall til vítaspyrnu en VAR-teymið var á annarri skoðun.

Breiðablik var einu marki undir þegar gengið var til búningsherbergja.

Seldu sig dýrt en andstæðingurinn einfaldlega öflugur

Breiðablik hóf síðari hálfleikinn af ögn meiri krafti en þann fyrri en það leið hins vegar ekki á löngu þangað til leikurinn var kominn í svipaðan takt og áður, þ.e. leikmenn Shakhtar slógu taktinn á meðan Blikar börðust vel, héldu skipulagi og vörðust á mörgum mönnum.

Á 65. mínútu barst boltinn úr vítateig Blika til Elias hins brasilíska sem skoraði með hnitmiðuðu innanfótarskoti niður í hægra hornið með hægri fæti úr vítateignum. Færið var vel klárað og lítið sem Anton Ari í marki Blika gat gert í því.

Blikar voru orkumiklir síðustu 10-15 mínúturnar og fengu nokkrar ágætar marktilraunir sem hins vegar ýmist fóru fram hjá marki eða í varnarmenn og allt kom fyrir ekki.

Niðurstaðan er sú að Shakhtar vann verðskuldaðan sigur en þrátt fyrir það getur Breiðablik borið höfuðið hátt, þ.e. leikmenn gáfust aldrei upp og það þurfti algjör gæðamörk frá andstæðingnum til að gera út af við leikinn.

Atvik leiksins

Flott mark Bondarenko í fyrri hálfleik sem braut ísinn með viðstöðulausu skoti á lofti frá vítateigsboganum með vinstri fæti.

Stjörnur og skúrkar

Margir hjá Breiðablik sem lögðu mikla vinnu og fórnfýsi í leikinn. Miðvarðarparið Viktor Orri og Ásgeir Helgi stóðu sig ágætlega. Anton Ari var sömuleiðis drjúgur í markinu. Það mæddi vitanlega mikið á varnarlínu Blika í kvöld. Í liði Shakhtar voru Bondarenko, Elias og Nazaryna beinskeyttir.

Dómarinn

Ágæt frammistaða í dag hjá rúmenska dómarateyminu. Leikurinn fékk að flæða þokkalega og stóru ákvarðanir virtust vera réttar. Einkunn 7,5.

Stemning og umgjörð

Fín stemmning var á vellinum í Póllandi þrátt fyrir hálftómar stúkur. Shakhtar var vitanlega ekki að leika á sínum raunverulega heimavelli sökum stríðsins sem geisar þar í landi.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira