Fótbolti

Ólöf og Írena báðar í úr­vals­liði Ivy-deildarinnar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
löf Sigríður Kristinsdóttir og Írena Héðinsdóttir Gonzalez stunda báðar nám við Harvard háskólann.
löf Sigríður Kristinsdóttir og Írena Héðinsdóttir Gonzalez stunda báðar nám við Harvard háskólann. Harvard University

Íslensku knattspyrnukonurnar Ólöf Sigríður Kristinsdóttir og Írena Héðinsdóttir Gonzalez hafa báðar spilað stórt hlutverk hjá Harvard-skólanum og hafa nú verið verðlaunaðar fyrir frammistöðu sína á nýloknu tímabili.

Þær voru báðar valdar í annað úrvalslið Ivy-deildarinnar en þá deild skipa margir af virtustu skólum Bandaríkjanna en hinir eru Brown University, Columbia University, Cornell University, Dartmouth College, University of Pennsylvania, Princeton University og Yale University.

Harvard-skólaliðið átti marga fulltrúa í úrvalsliðunum, einn í fyrsta liðinu og fimm til viðbótar í öðru liðinu.

Írena var mjög traust sem varnarsinnaður miðjumaður og byrjaði alla leiki Harvard nema einn árið 2025.

„Þessi þriðja árs nemi lagði sitt af mörkum um allan völl, þar á meðal í sókninni þar sem hún skoraði eitt mark og gaf eina stoðsendingu. Í vörninni hjálpaði Íslendingurinn til við að stöðva sóknarmenn andstæðinganna með sterkum varnarleik sínum. Valið í annað liðið er fyrsta All-Ivy-viðurkenning Héðinsdóttur Gonzalez á ferlinum,“ segir í frétt á heimasíðu Harvard.

Ólöf Sigríður, eða Olla eins og við þekkjum hana best, var að koma til baka eftir krossbandsslit. Hún sleit krossband þegar hún var heima á Íslandi sumarið 2024 og missti af öllu 2024-tímabilinu með Harvard. Það var því mikilvægt fyrir hana að stimpla sig aftur inn.

„Kristinsdóttir var valin í annað liðið í annað sinn á ferlinum, en hún skoraði þrjú mörk og gaf eina stoðsendingu árið 2025 og lagði þannig sitt af mörkum til sóknarleiks Harvard. Besta frammistaða hennar á tímabilinu var í 2-0 sigri á Princeton (27. september) þar sem hún skoraði bæði mörk Crimson-liðsins og leiddi liðið til sigurs. Fyrir þann leik var hún valin sóknarmaður vikunnar í Ivy League-deildinni,“ segir í frétt á heimasíðu Harvard.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×