Sport

Leik­maður í NHL lá hreyfingar­laus á ísnum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hugað að Chris Tanev, leikmanni Toronto Maple Leafs, eftir áreksturinn og fallið.
Hugað að Chris Tanev, leikmanni Toronto Maple Leafs, eftir áreksturinn og fallið. Getty/ Len Redkoles

Leikmaður Toronto Maple Leafs var borinn af velli og fluttur beint á sjúkrahús eftir árekstur í NHL-leik gegn Philadelphia Flyers.

Hinn 35 ára gamli reynslubolti Chris Tanev lenti í þessu óhugnanlega slysi.

Atvikið átti sér stað þegar Matvei Michkov skall á Tanev um miðbik þriðja leikhluta. Áreksturinn virtist ekki sérlega alvarlegur en í fallinu skall Tanev með höfuðið í ísinn og lá hreyfingarlaus á eftir.

Sjúkralið var kallað til og hjálpaði hinum 35 ára gamla leikmanni upp á sjúkrabörur. Þaðan var hann fluttur á sjúkrahús í Philadelphia.

„Það er alltaf hræðilegt að sjá liðsfélaga meiðast á þennan hátt,“ sagði Auston Matthews, leikmaður Maple Leafs, eftir leikinn.

Síðar bárust jákvæðar fréttir af ástandi Tanev.

„Við höfum fengið skilaboð frá sjúkrahúsinu um að hann geti hreyft alla útlimi,“ sagði Craig Berube, þjálfari Maple Leafs.

Gestirnir frá Toronto unnu leikinn 5-2.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×