Sport

Neitar að gista á liðshótelinu vegna draugagangs

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mookie Betts hjá Los Angeles Dodgers er hræddur við drauga.
Mookie Betts hjá Los Angeles Dodgers er hræddur við drauga. Getty/Aaron Gash

Úrslitakeppni bandaríska hafnaboltans er í fullum gangi og þar keppa Los Angeles Dodgers og Milwaukee Brewers um sæti í lokaúrslitunum. Einn leikmaður Dodgers er hræddur við drauga og neitar að gista á liðshótelinu.

Los Angeles Dodgers leiðir 2–0 í leikjum gegn Milwaukee Brewers og fram undan eru útileikir í Milwaukee.

Í nokkur ár hefur hinn 33 ára gamli Mookie Betts hjá Dodgers neitað að gista með restinni af liðinu fyrir útileiki gegn Milwaukee Brewers. Vandamálið er að 132 ára gamla hótelið í miðbæ Milwaukee, þar sem liðið gistir venjulega, er sagt vera reimt.

Mookie Betts gistir á Airbnb og liðsfélagi hans, Teoscar Hernández, 33 ára, heldur honum gjarnan félagsskap. Hernández segist ekki trúa á drauga sjálfur, en eiginkona hans gerir það.

„Ég hef gist á hótelinu áður og aldrei séð eða heyrt neitt undarlegt. En konan mín er með í þessari ferð og hún sagði að hún vildi ekki gista þar. Þannig að við urðum að finna annað hótel,“ segir Hernández við USA Today.

Hann hefur heyrt sögur frá öðrum liðsfélögum og konum þeirra. Það gerast hlutir á nóttunni. Meðal annars er sagt að ljós, sjónvörp og útvarpstæki kvikni og slökkni af sjálfu sér og að hljóð, meðal annars fótatak, heyrist.

Hernández telur ekki að hótelið sé svo hættulegt, en vill ekki taka neina áhættu.

„Ég vil einfaldlega ekki komast að því sjálfur,“ segir hann.

Nokkrar sögur ganga um hótelið meðal MLB-leikmanna. Meðal annars hefur stjarna Philadelphia Phillies, Bryce Harper, sagt að fötin hans hafi einu sinni færst þvert yfir hótelherbergið.

Leikmanni New York Yankees, Giancarlo Stanton, finnst portrettmyndir á veggjum og gamlar gardínur óhugnanlegar.

„Þetta minnir mig á draugahúsið í Disneylandi. Því minni tíma sem ég eyði þar, því betra,“ hefur hann sagt.

Samkvæmt framkvæmdastjóra MLB, sem USA Today vitnar í, stafa undarlegu atburðirnir af því að leikmennirnir hrekkja hver annan á hótelinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×