Upp­gjörið: Þór/KA - Fram 1-1 | Ó­sáttir Akur­eyringar enduðu ofar

Árni Gísli Magnússon skrifar
Nýliðar Fram geta vel við unað eftir sitt tímabil.
Nýliðar Fram geta vel við unað eftir sitt tímabil.

Þór/KA og Fram skildu jöfn, 1-1, í Boganum á Akureyri í lokaumferð Bestu deildar kvenna í dag. Þór/KA endar í sjöunda og efsta sæti neðri hluta deildarinnar en nýliðar Fram í því áttunda.

Fyrri hálfleikur bar það með sér að ekki væri mikið í húfi, enda bæði lið búin að bjarga sér frá falli. Efsta sæti neðri hlutans var þó í boði.

Leikurinn fór mjög rólega af stað og var mjög tíðindalítill. Bæði lið áttu erfitt með að skapa sér færi og misstu boltann oft á tíðum við litla pressu andstæðinganna.

Eftir tæpan 25 mínútna leik fékk Murielle Tiernan dauðafæri til að koma Fram í forystu, en Jessica Berlin í marki Þór/KA varði vel frá henni í tvígang.

Karen María Sigurgeirsdóttir fékk gott færi til að koma heimakonum yfir tíu mínútum seinna en skaut fram hjá. Fram konur geystust upp völlinn og spiluðu vel sín á milli áður en Lily Anna Farkas setti boltann örugglega í netið eftir sendingu frá Unu Rós.

Fram því 1-0 yfir í hálfleik.

Liðin mættu aðeins öflugri til leiks í síðari hálfleik og á 58. mínútu jafnaði Karen María Sigurgeirsdóttir leikinn með skoti vel fyrir utan teig en hún lét þá vaða eftir góðan undirbúning frá Amalíu Árnadóttur. Það er hægt að setja stórt spurningamerki við Ashley Orkus í marki Fram sem átti líklega að gera betur.

Jóhann Kristinn gerði þrefalda skiptingu á liði Þór/KA eftir rúmar 70 mínútur og komu þær Ellie Rose, Bríet Fjóla Bjarnadóttir og Ísey Ragnarsdóttir inn á sem virtist veita heimakonum kraft þar sem þær leituðu stíft að jöfnunarmarki eftir að þær þrjár komu inn á völlinn.

Þór/KA fékk nokkur færi til að hirða öll þrjú stigin og á lokaandartökum leiksins var orrahríð að marki Fram inn í teig þeirra en Ashley Orkus og varnarmenn gerðu vel í að fleygja sér fyrir öll skot og í raun ótrúlegt að ekki hafi orðið mark.

Liðin skildu því jöfn 1-1 sem verður að teljast nokkuð sanngjörn niðurstaða.

Atvik leiksins

Ætli það verði ekki að vera lokasekúndur leiksins þegar Þór/KA gerði fjölmargar tilraunir til að koma boltanum í netið inn á markteig gestanna sem komu á ótrúlegan hátt í veg fyrir það og héldu stiginu sínu.

Stjörnur og skúrkar

Leikurinn var ekki mikið fyrir augað og erfitt að taka marga leikmenn út fyrir sviga.

Í liði Þór/KA var Agnes Birta Stefánsdóttir sterk og átti nokkrar hörku tæklingar á ögurstundu og virtist oft taka leiknum alvarlegar en aðrir leikmenn beggja liða á vellinum. Karen María Sigurgeirsdóttir var þá eina almennilega ógn liðsins sóknarlega.

Hjá Fram voru Lily Anna Farkas og Una Rós Unnarsdóttir einna sprækastar og þá átti Eyrún Vala Harðardóttir góða innkomu af bekknum.

Skúrkstitillinn fer bara á bæði lið fyrir spilamennskuna í fyrri hálfleik sem var langt frá því að vera góð.

Dómarinn

Það reyndi ekki mikið á Bergvin í dag sem komst vel frá sínu.

Stemning og umgjörð

Einungis 112 áhorfendur létu sjá sig í Boganum í dag og stemningin á pari við það en vissulega er erfitt að ná inn mörgum áhorfendum og hörku stemningu í þýðingarlitlum leik.

Vonbrigðatímabil fyrir norðan: „Fyrir Þór/KA er þetta ekki boðlegt“

Jóhann Kristinn Gunnarsson, þjálfari Þór/KA, var ekkert sérstaklega ánægður með frammistöðuna í lokaleik tímabilsins sem endaði með 1-1 jafntefli gegn Fram á heimavelli.

Hann fór yfir tímabilið í heild sinni í viðtali eftir leik sem hann segir hafa verið vonbrigði.

„Mér fannst þetta ekki góður leikur. Ég held að flestallir aðilar hafi boðið upp á eitthvað betra í gegnum tíðina en þetta hefði getað verið verra miðað við hvað var undir, eða ekki undir, síðasti leikur á tímabilinu og allt það þannig ef einhvertímann var tímapunktur til að taka fyrsta jafnteflið okkar á tímabilinu þá var það bara núna þó ég hefði viljað stela þessu í restina. Ég held þetta hafi verið ágætlega sanngjarnt, þær hefðu getað refsað okkur nokkrum sinum fyrir svona klaufaskap og ég held við hefðum getað gert það líka en þetta er bara ágætis niðurstaða fyrir bæði lið held ég. Hrós á Fram og Óskar og þau sem eru í kringum þetta lið að halda þessu liði uppi, vel mannað, búið að styrkja sig vel og bara sýnir metnað hjá þeim og stóðu sig bara vel. Sterk lið falla úr deildinni, það hlýtur að segja sitt um þetta lið og bara kúdus á þau, bara flott hjá þeim.“

Liðið þarf að taka tvö skref áfram

Þór/KA endar í 7. sæti deildarinnar, því efsta í neðri hlutanum, sem eru talin vera vonbrigði fyrir norðan.

„Tímabilið er vonbrigði algjörlega og það vita það allir. Við syndum á móti straumnum í þessu, við fórum lítið sem ekkert á markaðinn og misstum bara og misstum og það var bara erfitt fyrir okkur en á móti kemur að á meðan við kepptum ekki á þessu ári við hin liðin í styrkingum og á markaðnum að þá gleymist það kannski að seiðin sem voru að berjast í straumnum með okkur hérna þau styrkjast og þú lærir í mótlæti. Það eru leikmenn hér sem að verða að mínu mati, trúi ég, enn betri af því þeir tóku þetta svona en fyrir Þór/KA er þetta ekki boðlegt, við eigum ekki að vera á þessum stað og þetta á ekki að vera niðurstaðan og á aldrei að vera það aftur og auðvitað er þetta vonbrigði en ég vona að þeir sem fylgjast með átti sig nú líka á því að það gekk ýmislegt á“.

Hvað þarf Þór/KA að gera til að næsta tímabil verði betra?

Er það ekki það augljósa? Að ef þú missir þá þarftu að bæta í og ég held og mér skilst að það sé stefnan núna að það sé verið að fara snúa vörn í sókn og þetta eina skref aftur á bak sem Þór/KA augljóslega tók í sumar, það verði til þess að tvö verði tekin áfram þannig styrkingar eins og öll hin níu liðin í deildinni gerðu að myndarskap og það hefur augljóslega hjálpað þeim. Þannig stelpurnar sem tóku slaginn fyrir okkur, okkar heimastelpur hér, þær eiga heiður skilið fyrir þó það að vera vel efstar í þessum neðri hluta þegar öllu er á botninn hvolft en við viljum auðvitað vera að berjast um eitthvað, þess vegna þarf að taka tvö skref áfram, það er ekki nóg að taka eitt í viðbót. Við höfum verið sæmilega nálægt þessu en til þess að vera ekki alltaf þessi kortér, tuttugu mínútur, í liðin þá þurfum við að fara taka tvö skref, það þýðir ekki að taka eitt.

Orðaður við stöðuna hjá Þrótti: Ósáttur við tímasetninguna

Vefmiðilinn Fotbolti.net fjallaði um það í dag að Jóhann væri mögulega að taka við Þrótti Reykjavík eftir tímabilið og hætta með Þór/KA liðið sem er áhugavert í ljósi þess að eitt ár er eftir af samningi hans. Jóhanni var ekki skemmt yfir fréttaflutningnum og vildi ekki tjá sig beint um málið að svo stöddu.

„Það var ótrúlega tímasetning á þessari frétt, það var reyndar ekki haft samband við neinn held ég hluteigandi um þessa frétt, en ég efast um ég hefði séð þetta á leikdegi síðasta leiks t.d. karlaliðs Þórs að Siggi Höskulds væri mögulega að taka við Stjörnunni en svona er þetta, furðulegt. Það er kannski lítið að frétta núna, landsleikjahlé, ég hefði persónulega sjálfur fundið tíma á morgun eða um helgina til að smella þessari frétt í loftið, ég skil ekki hvað vakir fyrir fólki og ég ætla að virða þetta við mína yfirmenn að það er leikdagur í dag. Á morgun er lokahóf og síðan verða svona hlutir ræddir.“

Við tökum bara stöðuna á þessu eftir lokahófið?

„Já já, við erum inni á tímabili, við verðum að sýna virðingu í þessu“, sagði Jóhann að lokum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira